Hoppa yfir valmynd
17. desember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 63/2013

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 17. desember 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 63/2013.

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 14. júní 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 7. júní 2013 fjallað um höfnun hans á atvinnuviðtali. Vegna höfnunarinnar var sú ákvörðun tekin að kærandi ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í 24 mánuði frá því hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Var ákvörðunin tekin á grundvelli 5. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi mótteknu 18. júní 2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti fyrst um atvinnuleysisbætur 3. júní 2009 og þáði greiðslur á tímabilunum 3. júní 2009 til 16. júlí 2010, 5. október 2010 til 5. júlí 2011, 16. janúar til 11. maí 2012 og frá 2. nóvember 2012 til 11. júní 2013. Greiðslurnar fóru fram á einu og sama bótatímabili skv. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samtals fékk kærandi greiddar atvinnuleysisbætur í 31,87 mánuði á bótatímabilinu.

 

Ferilskrá kæranda var send til B 24. apríl 2013. Vinnumálastofnun bárust upplýsingar

2. maí 2013 þess efnis að kærandi hafnað atvinnutilboði fyrirtækisins.

 

Vinnumálstofnun óskaði eftir skriflegum skýringum kæranda á höfnun atvinnuviðtalsins með bréfi, dags. 22. maí 2013, og var kæranda veittur sjö daga frestur til að koma að skýringum sínum. Skýringar kæranda bárust í bréfi, dags. 30. maí 2013, og tekur kærandi þar fram að starf við afgreiðslu og sölumennsku henti honum ekki og hann hafi hvorki reynslu af sölustörfum né tölvunotkun. Hann treysti sér ekki í starfið og sé að bíða eftir starfi í sinni iðngrein.

 

Mál kæranda var tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar 7. júní 2013 og með bréfi, dags. 14. júní 2013, var kæranda tilkynnt um hina kærðu ákvörðun.

 

 

Í kæru, mótt. 18. júní 2013, koma fram þær skýringar kæranda að hann hafi verið búinn að fá starfstilboð frá málningarfyrirtækinu Heilsárshúsum ehf. en það hafi dregist um rúman mánuð. Kærandi telur að hann hafi ekki komið máli sínu nægilega vel til skila hjá Greiðslustofu Vinnumálastofnunar á Skagaströnd. Kærandi kveðst hafa minnst á það hjá B að það væri búið að lofa honum vinnu rétt áður en hringt hafi verið í hann frá B Að auki eigi sölumennska ekki við hann. Búið hafi verið að hafa samband við hann hjá Heilsárshúsum ehf. rétt áður og hafi hann þegið starf hjá þeim við málningarvinnu. Hann hafi þó ekki byrjað að vinna fyrr en 12. júní 2013 þar sem vinnan hafi dregist.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 10. júlí 2013, segir að mál þetta varði 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og eigi 1. mgr. ákvæðisins jafnt við um þann sem hafnar starfi og þann sem hafni því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst eða sinnir ekki atvinnuviðtali. Eitt af skilyrðum þess að umsækjanda um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysisbóta sé að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Sé þar tekið fram að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Þegar atvinnuleitandi sé boðaður í starfsviðtal í þeim tilgangi að fá hann til starfa en hann reynist ekki reiðubúinn til að ganga í þau störf líti Vinnumálastofnun svo á að hann eigi að sæta viðurlögum á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar séu tilgreindar ástæður sem geti komið til greina sem gildar skýringar fyrir höfnun á starfi. Í athugasemdum við 57. gr. komi fram að gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur sé heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði er starf fjarri heimili hans sem gerir kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum.

 

Ljóst sé að kærandi hafi hafnað atvinnutilboði hjá B Í skýringarbréfi kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 30. maí 2013, komi fram að starf í afgreiðslu og sölumennsku henti honum ekki og að hann hafi verið að bíða eftir starfi í sinni iðngrein. Fyrir liggi að engrar sérfræðikunnáttu hafi verið krafist hjá B Á fundi Vinnumálastofnunar 7. júní 2013 hafi mál kæranda verið tekið fyrir og var það mat stofnunarinnar að skýringar hans á höfnun hans á atvinnutilboði B. teldust ekki gildar, enda hafi mátt ráða af skýringum hans frá 30. maí 2013 að hann hafi ekki haft áhuga á umræddu starfi.

 

Vinnumálastofnun bendir á að kærandi hafi fyrst komið með þær skýringar að honum hafi verið lofuð vinna skömmu áður en haft hafi verið samband við hann frá B í rökstuðningi fyrir kæru til úrskurðarnefndarinnar. Þá taki hann fram að hann hafi hafið störf hjá Heilsárshúsum ehf. 12. júní 2013 og hafi sagt sig af atvinnuleysisbótum samdægurs. Þegar mál kæranda hafi verið til meðferðar hjá Vinnumálastofnun hafi honum verið boðið að færa fram skýringar á höfnun sinni á atvinnutilboði hjá B Skýringar hafi borist frá kæranda með bréfi, dags. 30. maí 2013. Í því bréfi víki kærandi ekki að því að hann hafi hafnað starfstilboðinu sökum þess að honum hafi verið lofað öðru starfi. Af skýringum kæranda hafi eingöngu mátt ráða að starfið hentaði honum ekki þar sem hann hafi hvorki reynslu af sölustörfum né tölvum. Þá hafi hann sagt að hann væri að bíða eftir starfi í sinni iðngrein. Það sé mat Vinnumálastofnunar að slíkt ósamræmi milli skýringa kæranda og eftir á komnum skýringum hans sem fyrst hafi komið fram í kæru geti ekki breytt efni ákvörðunar stofnunarinnar frá 7. júní 2013. Það sé því mat Vinnumálastofnunar að eftir á skýringar kæranda fyrir höfnun hans á atvinnutilboði Bséu ekki gildar, enda hafi kærandi ekki fært fram staðfestingu á því að honum hafi verið lofað starfi á þeim tíma sem um ræðir.

 

Vinnumálastofnun greinir frá því að með lögum nr. 142/2012 hafi verið gerðar breytingar á ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar sem fjalli um biðtíma eftir atvinnuleysisbótum, þar á meðal 57. gr. laganna og vísar til 5. mgr. ákvæðisins.

 

Vinnumálastofnun vísar til athugasemda við 9.–15. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 142/2012 en þar segi að þegar upp komi tilvik sem lýst sé í 54.–56. gr. og 57.–61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og atvinnuleitandi hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur í 30 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. laganna skuli hlutaðeigandi ekki eiga frekari rétt til atvinnuleysisbóta á því tímabili. Þá sé tekið fram að þetta eigi við um þá sem hafa samfellt verið án atvinnu í svo langan tíma og einnig þá sem hafa samtals verið svo lengi án atvinnu enda þótt þeir hafi tekið tímabundnum störfum eða jafnvel stundað nám á tímabilinu.

 

Fyrir liggi að kærandi hafi á því bótatímabili sem hófst 3. júní 2009 fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 31,87 mánuði. Af þeim sökum eigi 5. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar við um kæranda.

 

Í ljósi framangreinds telur Vinnumálastofnun að kærandi hafi í umrætt sinn hafnað starfi í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og því beri honum að sæta viðurlögum á grundvelli 5 mgr. ákvæðisins. Því geti kærandi fyrst átt rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta þegar hann uppfyllir skilyrði 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. júlí 2013, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 29. júlí 2013. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. október 2013, var kærandi látinn vita um tafir á afgreiðslu málsins vegna mikils fjölda kærumála hjá úrskurðarnefndinni.

 

 


 

2.

Niðurstaða

 

Í 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um það þegar starfi eða atvinnuviðtali er hafnað. Í 1. mgr. greinarinnar segir að sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama eigi við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali.

 

Í 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur eftirfarandi fram:

 

Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði vísvitandi leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.

 

Í 5. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kom inn í lög um atvinnuleysistryggingar með 12. gr. laga nr. 142/2012 og tók gildi 1. janúar 2013 segir:

 

Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 30 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. mgr. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.

 

Fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur kærandi borið að ástæðurnar fyrir höfnun hans á starfinu sé sú að honum hafi boðist starf við sína iðngrein rétt áður en starfstilboð B bauðst. Þá greinir hann einnig frá að sölumennska hafi að auki ekki hentað honum.

 

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hafði samband símleiðis 10. desember 2013 við B og óskaði frekari upplýsinga um höfnun kæranda á því að fara í atvinnuviðtal. Í símtalinu kom fram að kærandi hafi hræðst afgreiðslustörf og ekki haft áhuga á starfinu. Atvinnurekandinn sagðist jafnframt hafa sent vinnumiðlaranum tölvupóst í apríl 2013 þar sem fram kom að kærandi vildi bara mála og sagðist ekki maður í þetta starf fyrir utan að hann virtist vera kominn með aðra vinnu. Hluti af þessum tölvupósti er meðal gagna málsins.

 

Í a-lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að eitt af skilyrðum þess að teljast tryggður samkvæmt lögunum sé að vera í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. sömu laga kemur fram að með virkri atvinnuleit felist meðal annars að hafa frumkvæði að starfsleit og vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara og vera reiðubúin að taka starfi hvar sem er á Íslandi.

 

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða verður ekki fallist á að skýringar kæranda fyrir nefndinni réttlæti höfnun hans á umræddu atvinnutilboði með vísan til 1., 4. og 5. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar er því staðfest.

 

Í máli þessu er að finna yfirlitsblað, dags. 2. maí 2013, þar sem fram koma persónugreinanlegar upplýsingar um kæranda og fjóra aðra atvinnuleitendur sem höfnuðu starfi hjá B.

 

Telja verður birtingu þessa yfirlitsblaðs, án þess að afmá eða hylja persónugreinanlegar upplýsingar þeirra fjögurra atvinnuleitenda sem voru í sömu sporum og kærandi, brot á 17. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 16. gr. sömu laga. Átelja verður Vinnumálastofnun fyrir þessi mistök.

 

Úr­skurðar­orð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. júní 2013 í máli Aum að hann skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

for­maður

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                 Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta