Hoppa yfir valmynd
2. mars 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Íslensku myndlistarverðlaunin afhent í fyrsta sinn

Sigurður Guðjónsson var valinn Myndlistarmaður ársins og Auður Lóa Guðnadóttir hlaut Hvatningarverðlaun ársins. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti Íslensku myndlistarverðlaunin í fyrsta skipti í Listasafni Reykjavíkur fimmtudaginn 22. febrúar.

Íslensku myndlistarverðlaununum er ætlað að vekja athygli á því sem vel er gert á sviði myndlistar hér á landi auk þess að stuðla að kynningu á myndlistarfólki okkar og styðja við listsköpun þess. Myndlistarráð stendur að verðlaununum en ráðið var stofnað með lögum sem tóku gildi í byrjun árs 2013. Helsta hlutverk þess er að vera mennta- og menningarmálaráðherra og öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni myndlistar auk þess að úthluta styrkjum úr myndlistarsjóði.

Sigurður Guðjónsson var valinn Myndlistarmaður ársins fyrir sýninguna Innljós, í kapellu og líkhúsi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði.

Í umsögn dómnefndar kemur fram:
Dómnefndin tilnefnir Sigurð Guðjónsson Myndlistarmann ársins fyrir ákaflega sterkar og heilsteyptar innsetningar á óvenjulegu sýningarsvæði í St. Jósefsspítala. Sýningin er sjónræn upplifun þar sem áhorfandinn verður meðvitaður um eigin tilvist og líkama. Verkin Fuser 2017, Scanner 2017 og Mirror Projector 2017 eru dularfull og voldug í senn og kalla fram óræða skynjun sem þó er full af vísunum í vélræna virkni.

Eftirfarandi myndlistarmenn voru tilnefndir sem Myndlistarmaður ársins 2018:
Anna Júlía Friðbjörnsdóttir fyrir sýninguna Erindi í Hafnarborg
Egill Sæbjörnsson fyrir sýninguna Ùgh & Bõögâr Jewellery í i8 Gallery
Hulda Vilhjálmsdóttir fyrir sýninguna Valbrá í Kling og Bang

Auður Lóa Guðnadóttir hlaut Hvatningarverðlaun ársins. Auður Lóa útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2015 og hefur síðan þá verið virk í sýningarhaldi og látið til sín taka innan íslensks myndlistarsamfélags.

Í umsögn dómnefndar kemur fram: Dómnefndin telur að Auður Lóa Guðnadóttir sé vel að Hvatningarverðlaunum ársins komin. Hún hefur sýnt að hún er óhrædd við að leita efniviðar á óvæntum stöðum og túlka viðfangsefni sín af innsæi og frumleika. Öll vinna hennar og framsetning leiftrar af hlýju og fyrirheitum um áframhaldandi hugmyndaflug og óvenjulega sýn á lífið. Því hvetur dómnefndin Auði Lóu til að halda áfram að skapa á sinn einstaka hátt.

Í dómnefnd Íslensku myndlistarverðlaunanna sátu:
Margrét Kristín Sigurðardóttir, formaður myndlistarráðs og formaður dómnefndar
Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir, myndlistarmaður (SÍM)
Magnús Gestsson, listfræðingur (Listfræðafélagið)
Margrét Elísabet Ólafsdóttir, listfræðingur (fulltrúi safnstjóra íslenskra safna)
Sigrún Inga Hrólfsdóttir, deildarforseti myndlistardeildar (LHÍ)

Ljósmyndir: Sunday & White

  • Íslensku myndlistarverðlaunin afhent í fyrsta sinn - mynd úr myndasafni númer 1
  • Íslensku myndlistarverðlaunin afhent í fyrsta sinn - mynd úr myndasafni númer 2
  • Íslensku myndlistarverðlaunin afhent í fyrsta sinn - mynd úr myndasafni númer 3

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta