Hoppa yfir valmynd
18. október 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Fundur heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra Norðurlandanna á Norðurbryggju í Kaupmannahöfn

Fréttatilkynning nr. 27/2004

Heilbrigðis- og félagsmálaráðherrar Norðurlandanna samþykktu á sérstökum fundi sínum í Kaupmannahöfn um áfengismál að beita sér sameiginlega á þessum vettvangi með það að markmiði að draga úr áfengisneyslu. Samkomulag norrænu ráðherranna táknar nokkur tímamót í samstarfi á þessu sviði.

Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, stýrði ráðherrafundinum í Kaupmannahöfn, en til hans var boðað vegna tilmæla forsætisráðherra Norðurlandanna þess efnis að ráðherrar heilbrigðis-og félagsmála fjölluðu sérstaklega um áfengismálastefnu á vettvangi sínum og skiluðu forsætisráðherrunum skýrslu um málið fyrir nóvemberfund forsætisráðherranna.

Í yfirlýsingu sem norrænu heilbrigðis-og félagsmálaráðherrarnir sendu frá sér að loknum fundinum á Norðurbryggju er hvatt til aukinnar samvinnu í áfengismálum á vettvangi Norðurlandanna. Hvatt er til að þetta verði gert með því að löndin beiti sér, ekki síst á vettvangi alþjóðlegra stofnana og samtaka fyrir því að ekki sé litið á áfengi sem hverja aðra vöru heldur vöru sem hefur bæði áhrif á heilbrigði þjóða og félagslegar aðstæður í löndunum. Hvatt er til aukinna rannsókna, fyrirbyggjandi aðgerða, meðferðar vegna áfengisneyslu og hvatt er til þess að Norðurlöndin beiti virkri áfengisstefnu til þess að draga úr neyslunni í hverju landi fyrir sig.

Í yfirlýsingu ráðherranna er bent á að alþjóðavæðing og alþjóðleg viðskipti hafi torveldað löndunum að framfylgja áfengismálastefnu sem ákvörðuð er í hverju landi fyrir sig. Lýsa ráðherrarnir yfir áhyggjum sínum af áhrifum aukinnar neyslu á lýðsheilsu og undirstrika jafnframt samband áfengisneyslu og félagslegra afleiðinga,

Lögð er áhersla á að hvert land fyrir sig þurfi að eiga þess kost að útfæra sína eigin áfengisstefnu og auk þess er undirstrikuð nauðsyn alþjóðlegs samstarfs til að draga úr neikvæðum afleiðingum áfengisneyslu.

Norrænu heilbrigðis- og félagsmálaráðherrarnir eru þeirrar skoðunar að Norðurlöndin verði að vinna saman að því að halda fram heilbrigðissjónarmiðum og félagslegum sjónarmiðum á þeim alþjóðlegum vettvangi þar sem teknar eru ákvarðanir sem hafa áhrif á stefnuna í áfengismálum.

Hvatt er til þess sérstaklega að Norðurlöndin beiti sé fyrir því að sjónarmiðum lýðheilsu verði gert hátt undir höfði á vettangi ESB/EES þannig að ákvarðanir sem hafa eða geta haft áhrif á neyslu áfengis verði metnar með tilliti til áhrifanna á heilsu og félagslegar aðstæður.

Hjálagt:

pdf-takn Yfirlýsing norrænu heilbrigðis- og félagsmálaráðherranna...

pdf-takn Skýrsla um Áfengismál á Norðurlöndunum...

 

Heilbrigðis- og tryggignamálaráðuneytið
18. október, 2004

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta