Hoppa yfir valmynd
9. september 2022 Innviðaráðuneytið

Breikkun Suðurlandsvegar á undan áætlun

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra í sjónvarpsviðtali á hringtorginu við Suðurlandsveg og Biskupstungnabraut. - mynd

Umferð var hleypt á nýtt hringtorg við Biskupstungnabraut og nýjan kafla Suðurlandsvegar í gær, 8. september. Kaflinn nær frá hringtorginu og um fjóra kílómetra í átt að Hveragerði. Framkvæmdir hafa gengið framar vonum og eru nokkuð á undan áætlun. Vegagerðin segir í tilkynningu um verkefnið vonir standa til að opna allan veginn milli Hveragerðis og Selfoss fyrir árslok.

„Það var góð tilfinning að aka nýjan kafla á Suðurlandsvegi en þetta er stór áfangi að því auka umferðaröryggi á kaflanum milli Selfoss og Hveragerðis. Framkvæmdir hafa gengið mun betur en áætlað hafði verið og lítur út fyrir að verklok á þessum áfanga verði innan fárra vikna. Við þetta má bæta að það styttist í útboð á nýrri Ölfusárbrú,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

Annar áfangi að baki

Verkið Hringvegur (1), Biskupstungnabraut – Gljúfurholtsá er annar áfangi breikkunar Suðurlandsvegar milli Selfoss og Hveragerðis. Framkvæmdin nær um sveitarfélagið Ölfus og sveitarfélagið Árborg og skiptist í Hringveg (um 7,2 km), Ölfusveg (um 6,6 km), Þórustaðaveg (um 0,4 km) og Biskupstungnabraut (um 0,7 km). Tvö stærri vegamót eru í framkvæmdinni, hringtorg við Biskupstungnabraut og nýjan Hringveg og svo hliðfærð T-vegamót á Hringvegi við Hvammsveg eystri og Kirkjuferjuveg. Til framkvæmdanna teljast einnig bygging fimm steyptra brúa og undirganga ásamt tveimur reiðgöngum úr stáli, auk breytinga á lagnakerfum veitufyrirtækja. Hringvegur er byggður upp sem 2+2 vegur en gengið verður frá yfirborði hans sem 2+1 vegi.

ÍAV er aðalverktaki framkvæmdanna sem hófust í apríl 2020. Í frétt Vegagerðarinnar segir að verkinu í heild eigi að ljúka í september 2023 samkvæmt útboði og verksamningi en útlit væri fyrir að umferð verði hleypt á allan kaflann fyrir árslok.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta