Áherslur stjórnvalda í umbótum til næstu ára
Stór skref hafa verið tekin undanfarið í að bæta skilvirkni opinberrar þjónustu og aðgengi almennings að henni, ekki síst með stafrænni þróun hins opinbera. Heimsfaraldur kórónuveiru hefur haft í för með sér þörf fyrir hraðar umbreytingar á opinberri þjónustu sem kröfðust nýsköpunar af hálfu opinberra aðila og samstarfs við almenning og fyrirtæki í landinu.
Ráðuneytið hefur tekið saman áherslur stjórnvalda í umbótum til næstu ára eins og þær birtast í fjármálaáætlun 2021-2025 á mun aðgengilegri hátt en áður.
Umbóta- og nýsköpunarstarf fær aukið vægi í uppbyggingar- og fjárfestingaráformum stjórnvalda til að vinna gegn afleiðingum heimsfaraldursins. Brýnt er að þeirri stefnu stjórnvalda að viðhalda útgjaldastigi opinberra fjármála verði fylgt eftir með því að tryggja aukna skilvirkni og betri nýtingu fjármuna. Til að svo verði þarf að forgangsraða verkefnum og tryggja rétt þjónustustig með umbótum, sveigjanlegum rekstri og markvissri stjórnun mannauðs.
Stærsta umbótaverkefni stjórnvalda þessi misserin er verkefnið um stafrænt Ísland. Stafræn væðing bætir ekki aðeins þjónustu heldur einnig samkeppnishæfni samfélagsins og er undirstaða fyrir jöfnun búsetuskilyrða í landinu. Með aukinni stafrænni opinberri þjónustu skapast tækifæri til hagvaxtar til framtíðar með því að kostnaður við þjónustuna lækkar og umhverfisáhrif hennar minnka.
Lesa má um ýmis nýsköpunarverkefni opinberra aðila á vef ráðuneytisins um opinbera nýsköpun en unnið er að því að auka nýsköpunargetu opinberra aðila með tilstyrk aðgerðaáætlunar um opinbera nýsköpun, sem gefin var út í upphafi árs 2020 á grundvelli nýsköpunarstefnu fyrir Ísland.
Áhersla á umhverfi stöðugra umbóta er hvatinn að umbótasamtölum sem munu hefjast haustið 2020 hjá öllum stofnunum ríkisins í kjölfar kjarasamninga. Þess er vænst að þau hvetji til umbóta og framþróunar í vinnustaðamenningu ríkisins. Lesa má frekar um þetta á síðu ráðuneytisins um umbætur.
Önnur umbótaverkefni sem unnið er að snúast um endurmat útgjalda, betri vinnutíma, kynjaða fjárlagagerð, opinber innkaup og hagnýtingu gagna til ákvarðanatöku og verðmætasköpunar. Verkefnin ná þvert yfir stjórnkerfið með aðkomu fjölmargra opinberra aðila en að þeim er unnið undir stjórn fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem hefur með höndum almennar umbætur í ríkisrekstrinum. Þá er unnið að ýmsum verkefnum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga á grundvelli samkomulags þeirra í fjármálaáætlun ár hvert.