Hoppa yfir valmynd
22. mars 2023 Utanríkisráðuneytið

Uppfylla þarf réttinn til hreins drykkjarvatns um heim allan

Ljósmynd: gunnisal - mynd

Sameinuðu þjóðirnar vara við yfirvofandi alþjóðlegri vatnskreppu í nýrri skýrslu – World Development Report 2023 – sem gefin er út í dag, á alþjóðlegum degi vatnsins. Þar er dregin upp dökk mynd af vaxandi vatnsskorti í heiminum og skýrsluhöfundar segja árstíðabundinn skort halda áfram að aukast vegna loftslagsbreytinga. Um 26 prósent jarðarbúa hafa ekki aðgang að öruggu drykkjarvatni og 46 prósent hafa ekki aðgang að viðunandi salernisaðstöðu. Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um vatnsskort í heiminum hefst dag í New York.

Sameinuðu þjóðirnar hafa haldið upp á alþjóðlegan dag vatnsins 22. mars í yfir þrjá áratugi en í ár markar dagurinn opnun fyrstu alþjóðlegu vatnsráðstefnu sem Sameinuðu þjóðirnar hafa haldið frá 1977. Gerðar eru miklar væntingar til ráðstefnunnar enda er ljóst að langt er í land fyrir alþjóðasamfélagið til að ná sjötta heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um hreint vatn og salernisaðstöðu fyrir alla fyrir árið 2030.

Ísland tekur virkan þátt á vatnsráðstefnunni og fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum flytur ræðu síðar í vikunni. Þá er fastafulltrúi Íslands einn af varaforsetum ráðstefnunnar og stýrir þar fundum vatnsráðstefnunnar eftir þörfum. Ísland leiðir sömuleiðis vinahóp SÞ um landgræðslu, ásamt Namibíu, en hópurinn fundar á hliðarlínum vatnsráðstefnunnar og ræðir þar meðal annars um samspil og samlegðaráhrif vatns og endurheimt lands.

Á Íslandi er hægt að fullyrða að allir hafi greiðan aðgang að hreinu drykkjarvatni á viðráðanlegu verði. Um fjórðungur mannkyns þarf hins vegar að sækja drykkjarvatn í læki og vötn, stundum langar leiðir, eða borga háa upphæð fyrir vatn sem oft er mengað. Vatnskrísan hefur mest áhrif á viðkvæmustu hópana en meira en þúsund börn deyja daglega af völdum veikinda sem stafa af skorti á hreinu vatni og takmörkuðu aðgengi að salernis- og hreinlætisaðstöðu.

Samvinna í samstarfsríkjum

Íslensk stjórnvöld hafa um árabil lagt áherslu á að koma hreinu drykkjarvatni til íbúa og að bæta aðgang að salernis- og hreinlætisaðstöðu í samstarfsríkjum í tvíhliða þróunarsamvinnu. Í Mangochi héraði í Malaví hefur Ísland tryggt aðgang að hreinu drykkjarvatni fyrir 390 þúsund manns. Í Úganda hefur Ísland unnið með héraðsstjórninni í Buikwe við að tryggja aðgang að hreinu vatni fyrir um 65 þúsund manns og með UNICEF í norður-Úganda við að bæta vatns- og hreinlætisaðstöðu í flóttamannabyggðum þar sem yfir 40 þúsund manns hafa notið góðs af stuðningi Íslands og 45 þúsund manns munu bætast við þann fjölda með nýju verkefni. Í Síerra Leóne hefur Ísland í samstarfi við UNICEF tryggt um 60 þúsund manns í strandbyggðum landsins aðgang að hreinu vatni og bættri salernis- og hreinlætisaðstöðu og við það munu bætast um 50 þúsund manns á næstu árum með nýju verkefni.

Dökkt útlit

Ljóst er að flest áhrif loftslagsbreytinga koma beint niður á vatni. Allt frá hækkandi sjávarborðs til flóða og þurrka. Í nýjustu skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, IPCC, er dregin upp dökk mynd af stöðu mála. Antonío Guterres aðalramkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna sagði við útgáfu skýrslunnar að „mannkynið er á þunnum ís - og sá ís bráðnar hratt“. Samkvæmt Alþjóðaveðurfræðistofnuninni hefur flóðum fjölgað um 134 prósent frá árinu 2000 og lengd þurrka aukist um 29 prósent á sama tímabili.

Í Malaví, samstarfslandi Íslands, reið nýlega yfir fellibylurinn Freddy sem hefur skapað neyðarástand fyrir þá hópa sem þegar voru í viðkvæmri stöðu. Óttast er að stormurinn hafi víðtækar afleiðingar, meðal annars á aðgengi að hreinu drykkjarvatni, og að kólerufaraldur stigmagnist að nýju en kólerufaraldur hefur verið í landinu síðasta árið eftir að fellibylur reið yfir í byrjun síðasta árs. Íslensk stjórnvöld ákváðu að veita 71 milljón króna framlag til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, WFP, vegna þessa neyðarástands.

Ísland er meðlimur í vinahópi Sameinuðu þjóðanna um börn og heimsmarkmiðin en fulltrúi vinahópsins flytur ræðu á vatnsráðstefnunni þar sem áhersla er lögð á velferð barna í þessum málaflokki. Þar kemur meðal annars fram að um þriðjungur barna búa í óstöðugum ríkjum en þessi börn eru 20 sinnum líklegri til að deyja af völdum sjúkdóma sem stafa af skorti á hreinu vatni og takmörkuðu aðgengi að salernis- og hreinlætisaðstöðu heldur en af völdum sprengju eða byssukúlu.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

6. Hreint vatn og hreint

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta