Hoppa yfir valmynd
24. september 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 319/2020 úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 24. september 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 319/2020

í stjórnsýslumálum nr. KNU20090007 og KNU20090008

 

Beiðni […]

og barna þeirra um endurupptöku

I. Málsatvik

Þann 14. nóvember 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar frá 25. júlí 2019 um að synja […], fd. […], (hér eftir M), og […], fd. […], (hér eftir K), ríkisborgurum Egyptalands, og börnum þeirra, […], fd. […], (hér eftir A), […], fd. […], (hér eftir B), […], fd. […], (hér eftir C), og […], fd. […], (hér eftir D), ríkisborgurum Egyptalands, um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kærendum þann 18. nóvember 2019. Með úrskurði þann 8. janúar 2020 var beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa í máli þeirra hafnað. Þann 24. janúar 2020 barst kærunefnd beiðni kærenda um endurupptöku málsins og þann 11. febrúar 2020 barst kærunefnd beiðni kærenda um endurupptöku á úrskurði kærunefndar um frestun réttaráhrifa frá 8. janúar s.á. Með úrskurðum þann 19. mars 2020 var beiðnum kærenda um endurupptöku málsins og endurupptöku á beiðni um frestun réttaráhrifa hafnað.

Þann 4. og 7. september 2020 óskuðu kærendur eftir endurupptöku málsins og bárust fylgigögn til stuðnings þeirri beiðni þann 7. september s.á. Þann 7. september 2020 óskuðu kærendur jafnframt eftir því að framkvæmd úrskurðar kærunefndar útlendingamála frá 14. nóvember 2019 nr. 533/2019 yrði frestað. Var þeirri beiðni synjað með úrskurði kærunefndar þann 15. september 2020. Þann 11. september 2020 bárust frekari gögn frá kærendum. Þann 13. september 2020 barst viðbótarrökstuðningur frá kærendum. Þann 17. september 2020 barst þriðja endurupptökubeiðnin frá kærendum ásamt fylgigögnum og samdægurs bárust viðbótarathugasemdir frá kærendum. Þá barst fjórða endurupptökubeiðnin ásamt fylgigögnum frá kærendum þann 20. september 2020. Þá bárust frekari athugasemdir frá kærendum þann 21. og 23. september 2020.

Mál þetta varðar þriðju endurupptökubeiðni kæranda, dags. 17. september 2020.

Beiðni kærenda um endurupptöku máls þeirra byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Málsástæður og rök kærenda

Kærendur byggja beiðni sína um endurupptöku á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga en þau telja að ákvörðun í máli þeirra hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik auk þess sem að atvik hafi breyst verulega frá því úrskurður kærunefndar hafi verið kveðinn upp.

Í endurupptökubeiðni dags. 17. september byggja kærendur á því að aðstæður fjölskyldumeðlima hafi ekki verið skoðaðar sérstaklega í málinu og því sé um ræða brot á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins og á málsmeðferðareglum 25. gr. og 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Kærendur vísa til þess að kynfæralimlestingar séu mjög algengar í Egyptalandi og sé A á sérstaklega viðkvæmum aldri í því samhengi. Kærendur telja að í ljósi þess hve algengar kynfæralimlestingar á konum og stúlkum séu í Egyptalandi þá hafi stjórnvöldum borið að rannsaka betur aðstæður K og A með hliðsjón af því. Kærendur vísa til þess að fyrir liggi að í viðtölum við K og A hjá Útlendingastofnun hafi ekki verið óskað eftir upplýsingum um þessi atriði frá þeim og þá hafi þeirra upplýsingar heldur ekki verið aflað með læknisskoðun. Til stuðnings um það hversu alvarlegt vandamál kynfæralimlestingar séu í Egyptalandi vísa kærendur til heimilda í alþjóðlegum skýrslum. Þá byggja kærendur jafnframt á því að stjórnvöld hafi, við meðferð málsins, átt að horfa til ákvæða Samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi frá 11. maí 2011 sem fullgiltur hafi verið af hálfu Íslands. Kærendur telja að fullt tilefni hefði verið til að spyrja K og A hvort þær hafi orðið fyrir kynfæralimlestingum. Þá telja kærendur að ekkert bendi til þess að farið hafi fram heildstætt mat á félagslegri stöðu K og A með hliðsjón af því hve kynfæralimlestingar séu algengar í Egyptalandi. Þá hafi ekki verið tekið tillit til þeirra sérþarfa sem þolendur slíkrar meðferðar kunni að hafa eins og gerð sé krafa um samkvæmt 25. gr. laga um útlendinga. Að framangreindu virtu telja kærendur að um alvarlegan annmarka sé að ræða á málsmeðferð stjórnvalda í máli kærenda. Kærendur telja að ljóst sé að ákvörðun í máli þeirra hafi verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum og fari þau fram á að mál þeirra verði endurupptekið og þessi atriði skoðuð. Í athugasemdum sem bárust kærunefnd þann 21. september 2020 er vakin athygli á ákvörðun Útlendingastofnunar frá 15. febrúar 2019 í máli nr. 2018-02751 en í þeirri ákvörðun hafi verið fjallað ítarlega um hversu algengar kynfæralimlestingar séu í Egyptalandi. Kærendur telja að samkvæmt þeirri ákvörðun hafi legið fyrir að Útlendingastofnun hafi búið yfir þekkingu um þetta efni. Kærendur telja að með hliðsjón af rannsóknarreglu og nánari útfærslu á henni í 25. gr. laga um útlendinga hafi Útlendingastofnun átt að kanna þetta atriði sérstaklega í málinu enda sé orðið kynfæralimlesting sérstaklega nefnt í 6. tölul. 3. gr. laganna sem 25. gr. vísar til. Kærendur telja að þar sem það hafi ekki verið gert hafi málsmeðferðin í máli þeirra verið í andstöðu við rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar eins og hún verði skýrð með hliðsjón af ákvæðum laga um útlendinga.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður er rakið er byggt á því í endurupptökubeiðni kærenda dags. 17. september að A eigi á hættu að verða fyrir kynfæralimlestingum. Ljóst er af gögnum málsins að kærendur hafa ekki borið fyrir sig áður að dóttir þeirra eigi slíkt á hættu.

Það er mat kærunefndar að ekkert í málatilbúnaði eða framburði kærenda og barna þeirra, A og B, eða í öðrum gögnum málsins hafi gefið tilefni til þess að stjórnvöld rannsökuðu að eigin frumkvæði hvort A hefði orðið fyrir kynfæralimlestingum eða ættu á hættu að verða fyrir slíku. Kærendur greindu frá því í viðtölum hjá Útlendingastofnun að A og B hafi búið hjá móður og síðar systur K í Egyptalandi í tæp fjögur ár m.a. þar sem skólakerfið væri betra þar en í Óman. M kvaðst treysta tengdamóður sinni til að vernda börn sín og bæði M og K greindu frá því að móðir K hafi sinnt uppeldishlutverki sínu mjög vel. Samkvæmt framangreindu hafi kærendur því treyst fjölskyldu K sem búsett sé í Egyptalandi til að annast og vernda A í tæp fjögur ár. Þá báru öll gögn málsins ekki annað með sér en að kærendur bæru velferð allra barna sinna, þ.m.t. A, fyrir brjósti. Þá kemur fram í bréfi sem talsmaður kærenda sendi kærunefnd þann 24. september 2020 að hann og kærendur hafi ekki rætt hættu á kynfæralimlestingu. Af því má ráða að óljóst sé hvort kærendur viti af því að þessi málsástæða sé nú höfð uppi.

Af orðum talsmanns kærenda verður ennfremur ekki annað ráðið en að hann telji að rétt sé að stúlkubörn frá þeim svæðum þar sem kynfæralimlestingar tíðkast að einhverju marki eigi að undirgangast læknisskoðun í tengslum við umsókn sína um alþjóðlega vernd til að kanna hvort þær hafi verið umskornar. Að mati kærunefndar fæli slík skoðun í sér verulegt inngrip í persónufriðhelgi viðkomandi stúlku og væri ósamrýmanleg meðalhófi.

Þá hefur kærunefnd litið til þess að að löglærður talsmaður kærenda á vegum Rauða kross Íslands aðstoðaði þau við rekstur mála þeirra fyrir Útlendingastofnun og kærunefnd. Greinargerðum var skilað á báðum stigum. Við þá málsmeðferð var aldrei vísað til hugsanlegrar hættu á kynfæralimlestingum K eða A. Eftir að úrskurður kærunefndar var birtur kærendum tók núverandi talsmaður þeirra við málinu. Eins og áður hefur komið fram óskaði hann eftir frestun réttaráhrifa, endurupptöku á synjun um frestun réttaráhrifa, endurupptöku á úrskurði kærunefndar um að synja kærendum og börnum þeirra um vernd, sinnti hagsmunagæslu vegna brottvísunarmáls gegn kærendum, og sendi ennfremur tvær endurupptökubeiðnir eftir að kærendum var tilkynnt um fyrirhugaðan brottflutning til heimaríkis án þess að nefna hættu á kynfæralimlestingum. Talsmenn kærenda, frá Rauða krossi Íslands og núverandi talsmaður, sem báðir hafa haldgóða reynslu af því að gæta hagsmuna umsækjenda um alþjóðlega vernd, vísuðu aldrei til þess að A ætti á hættu að verða fyrir kynfæralimlestingum fyrr en með endurupptökubeiðni þeirri sem barst kærunefnd þann 17. september sl.

Við meðferð málsins hjá kærunefnd fór fram sérstakt mat á hagsmunum barna kærenda í málinu, en meginniðurstöður þess voru raktar í úrskurði kærunefndar frá 14. nóvember 2019. Var það mat nefndarinnar að ekkert hafi komið fram í málinu sem benti til annars en að kærendur séu almennt við góða heilsu og vinnufær. Þá hefðu kærendur greint frá því að eiga húsnæði í heimaríki. Fram hafi komið í gögnum málsins að M hafi unnið fyrir vegagerðina í Egyptalandi og þá væri K hjúkrunarfræðingur og hafi starfað við það fag í Óman. Lagði kærunefnd til grundvallar að kærendur væru fær um að annast og framfleyta börnum sínum í heimaríki. Samkvæmt gögnum málsins og gögnum um aðstæður í Egyptalandi myndu börn kærenda hafa aðgang að mennta- og heilbrigðiskerfi þar í landi. Þá lægi ekki fyrir að börn kærenda hefðu sérþarfir sem taka þyrfti tillit til, aðrar en þær sem leiddu af aldri þeirra.

Það er því mat kærunefndar að ekkert í gögnum málsins hafi gefið tilefni til að rannsaka sérstaklega hvort A væri í hættu á að verða fyrir kynfæralimlestingum, svo sem með því að kalla hana til viðtals í þeim tilgangi að kanna hvort hún hafi verið umskorin í heimaríki. Kærunefnd telur því að rannsókn stjórnvalda á umsókn kærenda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga.

Hins vegar verður ekki hjá því litið að kærendur hafa nú borið fyrir sig nýja málsástæðu sem ekki hefur verið tekin afstaða til fyrr og að kærendur hafa ekki enn verið flutt úr landi. Kærunefnd hefur litið til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 43611/11, F.G. gegn Svíþjóð, frá 23. mars 2016, en af þeim dómi má ráða að dómstóllinn hafi talið að sænska ríkið hefði átt að endurupptaka mál umsækjanda um alþjóðlega vernd og taka til rannsóknar málsástæðu sem hann byggði fyrst og fremst á eftir að niðurstaða lá fyrir á stjórnsýslustigi en áður hann yrði fluttur úr landi. Í því máli byggði umsækjandi ekki á umræddri málsástæðu þar sem hann taldi hana vera viðkvæmt einkamál. Í því máli sem hér er til meðferðar hefur talsmaður A borið fram nýja málsástæðu sem ekki hefur verið tekin afstaða til áður hjá stjórnvöldum. Við fyrstu skoðun er hún þess eðlis að hún gæti, við tilteknar aðstæður, lagt grunn að því að A ætti á hættu að verða fyrir ofsóknum í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga verði hún send aftur til heimaríkis. Með vísan til þess, til niðurstöðu nefnds dóms Mannréttindadómstóls Evrópu og þegar litið er til hagsmuna barnsins í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd ekki annað unnt en að endurupptaka mál A og rannsaka á ný hvort hún kunni að eiga rétt á alþjóðlegri vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til hinnar nýju málsástæðu, í samhengi við mál fjölskyldunnar í heild.

Af þeim sökum fellst kærunefnd á beiðni kærenda um endurupptöku á máli þeirra og barna þeirra.

IV. Niðurstaða kærunefndar um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða

Með úrskurði kærunefndar máli kærenda dags. 14. nóvember 2019 var komist að þeirri niðurstöðu að kærendur og börn þeirra uppfylltu ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ættu þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kærenda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri kærendum og börnum þeirra dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur yfirfarið gögn málsins og telur að ekkert bendi til þess að forsendur niðurstöðu þess úrskurðar hafi breyst eða hafi verið rangar þegar litið er til þeirra málsástæðna sem kærendur báru fyrir sig þegar málið var áður til meðferðar hjá stjórnvöldum eða litið var til af öðrum ástæðum á þeim tíma. Er því ekki ástæða til frekari umfjöllunar um þær forsendur.

Við mat á því hvort A kunni að vera í hættu á að verða fyrir kynfæralimlestingum hefur kærunefnd m.a. litið til eftirfarinna skýrslna:·

  • The decline of FGM in Egypt since 1987: a cohort analysis of the Egypt Demographic and Health Surveys (BMC Woman´s Health, 11. maí 2020);·
  • Egypt: The Law and FGM (28 Too Many, júní 2018);·
  • Country Profile FGM in Egypt (28 Too Many, apríl 2017);·
  • FGM in Egypt: Key Findings (28 Too Many, apríl 2017);·
  • Vefsíða samtakanna 28 Too Many (https://www.28toomany.org/, skoðað 24. September 2020);·
  • Upplýsingasíða Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna, UNFPA Egypt (https://egypt.unfpa.org/en/node/22544, skoðað 24. september 2020);·
  • Country Policy and Informatin Note: Egypt: Women (UK Home Office, júní 2019) og·
  • Guidance Note on Refugee Claims Relating to Female Genital Mutilation (UNHCR, maí 2009).

Í athugasemdum sem bárust kærunefnd 21. september 2020 er vísað til ákvörðunar Útlendingastofnunar frá 15. febrúar 2019 í máli nr. 2018-02751 en þar hafi stofnunin fjallað ítarlega um hve algengar kynfæralimlestingar séu í Egyptalandi. Eftir skoðun kærunefndar á því máli er það mat nefndarinnar að það mál sé ekki sambærilegt því máli sem hér er til umfjöllunar. Í máli nr. 2018-02751 var sérstaklega á því byggt að barnungir aðilar málsins væru í sérstakri hættu á að verða fyrir kynfæralimlestingum. Þá var um að ræða aðrar fjölskylduaðstæður sem gerði nefnda aðila sérstaklega útsetta fyrir hættu á kynfæralimlestingum. Jafnframt er ljóst að ákvarðanir Útlendingastofnunar hafa ekki fordæmisgildi gagnvart kærunefnd.

Umskurður á stúlkum og önnur kynfæralimlesting tengist gömlum hefðum egypsks samfélags. Umskurður var hins vegar gerður að refsiverðum verknaði með breytingu á egypsku hegningarlögunum árið 2008. Í skýrslu UK Home Office frá júní 2019, kemur fram að árið 2016 hafi verið samþykkt að herða fangelsisrefsingar þeirra sem framkvæma slíkan verknað. Samkvæmt skýrslunni sé refsirammi fyrir að framkvæma slíka aðgerð fimm til sjö ára fangelsisrefsing en geti orðið allt að fimmtán ára fangelsisrefsing ef dauði hlýst af. Þá geti sá sem pantar slíka aðgerð átt yfir höfði sér eins til þriggja ára fangelsisrefsingu.

Í maí 2018 kvað egypska Dar Al-Iftaa (Centre for Islamic Legal Research) upp mikilvægan úrskurð þar sem því var lýst yfir að kynfæralimlesting kvenna væri bönnuð samkvæmt trúnni og væri ekki skilyrði skv. íslömskum lögum og ætti að vera bönnuð, þar sem hún lemstri viðkvæmasta hluta kvenlíkamans. Heilbrigðisráðherra Egyptalands og stjórnsýsludómstóll (e Administrative Court of Justice) hafa einnig lýst því yfir að banna eigi kynfæralimlestingu á spítölum og á opinberum og einkareknum læknastofum.

Þrátt fyrir að um glæpsamlegt athæfi sé að ræða samkvæmt lögum þá séu slíkar aðgerðir enn algengar í landinu en umtalsvert hafi dregið úr tíðni þeirra síðustu ár, einkum í yngsta aldurshópnum. Má ætla að aukin fræðsla og hærra menntunarstig kvenna hafi þar mest um að segja.Þá hafi stjórnvöld í Egyptalandi unnið að því m.a. í samstarfi við alþjóðastofnanir, s.s. Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) og UNICEF, að uppræta kynfæralimlestingar kvenna. Hafi verið settar ákveðnar stefnur og aðgerðaráætlanir og unnið að ýmsum verkefnum til þess að auka vitund almennings um þennan vanda, m.a. hafi verið gerðir sjónvarpsþættir, farið í heimsóknir á heimili fólks og staðið að þjálfunum um skaðlegar hefðir. Í skýrslu 28 Too Many frá 2017 um kynfæralimlestingu kvenna kemur fram að fjölskyldu- og samfélagstengsl séu sterk í Egyptalandi og skipi álit fjölskyldu og nágranna stóran sess við ákvörðunartöku um hvort kvenkyns fjölskyldumeðlimur skuli undirgangast umskurð eða aðra kynfæralimlestingu. Séu það foreldrar stúlkna sem öllu jöfnu taki slíka ákvörðun, í einhverjum tilvikum undir þrýstingi frá öðrum fjölskyldumeðlimum.

Samkvæmt skýrslu 28 Too Many frá júní 2018 eru áhættuþættir kynfæralimlestingar m.a. fátækt foreldra, lágt menntunarstig og búseta í dreifbýli. Kærendur kváðust hafa búið síðast í borginni Tanta í Gharbia sjálfstjórnarsvæðinu sem er fimmta þéttbýlasta svæði Egyptalands. Þá er það einnig eitt af þeim svæðum sem skv. upplýsingum á vefsíðu 28 Too Many hafi lægri tíðni kynfæralimlestinga en önnur svæði landsins. Foreldrar A eru einnig vel menntuð og virðast af gögnum vera þokkalega stæð fjárhagslega.

Eins og áður hefur komið fram kom þessi málsástæða kærenda ekki til skoðunar á fyrri stigum málsins þar sem að hvorki móðir né faðir A lýstu yfir áhyggjum af því að hún ætti á hættu kynfæralimlestingu eða hefði þegar þurft að þola slíka meðferð. Í bréfi frá talsmanni kærenda til kærunefndar kemur fram sú afstaða hans að M og K hafi íhaldssamar skoðanir, einkum hvað varðar stöðu kvenna, og að talmaður hafi sterkan grun um að afstaða þeirra gagnvart kynfæralimlestingum sé jákvæð. Talsmaðurinn hafi þó ekki verið í þeirri stöðu að geta tilkynnt það til barnaverndaryfirvalda enn sem komið er. Í bréfinu kemur fram að hann hafi ekki rætt kynfæralimlestingar við kærendur. Með hliðsjón af öðrum þáttum málsins, svo sem menntun K og stöðu hennar í fjölskyldunni, telur kærunefnd að afstaða talsmanns kæranda hafi ekki þýðingu fyrir málið. Nefndin lítur því svo á að ekkert í málsgögnum eða framburði kærenda bendi til þess að foreldrar A ætli sér að skaða barnið. Þvert á móti benda gögn málsins til þess að foreldrar hennar hafi haft hag hennar sérstaklega í huga, sem birtist m.a. í því að þau leyfðu henni að dvelja að mestu hjá ömmu sinni og móðursystur á meðan foreldrar hennar bjuggu í Óman og þeirri viðleitni þeirra að reyna að búa börnum sínum betra líf utan Egyptalands. Þá telur kærunefnd að ekkert bendi til annars en að foreldrar A geti komið í veg fyrir að aðrir aðilar skaði A á þennan hátt. Við þetta mat hefur kærunefnd litið til þess að þungar refsingar liggja við kynfæralimlestingum í Egyptalandi og að trúarleiðtogar hafa opinberlega tekið afstöðu gegn kynfæralimlestingum. Þrátt fyrir að skilvirkni og eftirfylgni yfirvalda með lögunum hafi sætt gagnrýni er það mat kærunefndar að A og foreldrar hennar geti leitað aðstoðar yfirvalda, bæði lögreglu og barnaverndaryfirvalda í heimaríki, telji þau að A eigi á hættu að verða látin undirgangast kynfæralimlestingu snúi hún til baka þangað.

Það er því niðurstaða kærunefndar að hinar nýju málsástæður, einar og sér eða í samhengi við aðrar málsástæður hennar og fjölskyldu hennar, leiði ekki til þess að A teljist hafa ástæðuríkan ótta við ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eða eigi á hættu að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð, sbr. 2. mgr. 37. gr. laganna, snúi hún aftur til heimaríkis. Með vísan til sömu forsendna telur kærunefnd jafnframt að A hafi ekki sýnt fram á að hún hafi ríka þörf á vernd á grundvelli mannúðarástæðna, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt er að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu að því tilskyldu að skorið hafi verið úr um að útlendingur uppfylli ekki skilyrði skv. 37. og 39. gr. Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. reglugerðar um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 122/2020 er tímalengd þessi 16 mánuðir ef börn eiga í hlut. Skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í þessum tilvikum eru að: a. tekin hafi verið skýrsla af umsækjanda um alþjóðlega vernd; b. ekki leiki vafi á því hver umsækjandi er; c. ekki liggi fyrir ástæður sem geta leitt til brottvísunar umsækjanda; d. útlendingur hafi veitt upplýsingar og aðstoð við úrlausn máls.

Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd þann 7. ágúst 2018. Með úrskurði þessum, dags. 24. september 2020, telst A hafa fengið nýja niðurstöðu á stjórnsýslustigi og miðast því frestur skv. 2. mgr. 74. gr. laganna við tímamark þess úrskurðar. Samkvæmt framansögðu telur kærunefnd að A hafi ekki fengið endanlega niðurstöðu á stjórnsýslustigi innan 16 mánaða frá því hún sótti um alþjóðlega vernd, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og 3. mgr. 1. gr. reglugerðar um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 122/2020. Af gögnum málsins verður ekki séð að A hafi sjálf átt þátt í því að niðurstaða hafi ekki fengist innan tímamarka, en kærunefnd telur ekki forsendur til að telja að þær tafir sem foreldrar hennar kunni að hafa valdið á málinu hafi þýðingu í þessu samhengi. Þá liggur fyrir að A gaf skýrslu hjá Útlendingastofnun og ekki leikur vafi á því hver hún er en vegabréf hennar er á meðal gagna málsins. Kærunefnd telur því ljóst að A uppfylli skilyrði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og ekkert bendir til þess að útilokunarástæður 3. mgr. 74. gr. eigi við í máli hennar.

Það er því niðurstaða kærunefndar að veita beri A dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar og með vísan til hagsmuna A, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga, verður ekki komist að annarri niðurstöðu en að veita foreldrum og systkinum A einnig dvalarleyfi á sama grundvelli.

Samantekt

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fallast á beiðni kærenda um endurupptöku á máli þeirra og barna þeirra og og veita þeim dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Fallist er á beiðni kærenda um endurupptöku á máli þeirra og barna þeirra.Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum M, K, A, B, C og D, dags. 25. júlí 2019 eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að veita M, K, A, B, C og D dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.The appellant’s request for reexamination of their and their children’s case is granted.

The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of M, K, A, B, C and D, from 25 July 2019 are vacated. The Directorate is instructed to issue residence permits for the appellant and their children based on Article 74, paragraph 2 of the Act on Foreigners.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir                                                                             Bjarnveig Eiríksdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta