Hoppa yfir valmynd
2. maí 2018 Utanríkisráðuneytið

Stuðningur við aðgerðir vegna fæðingarfistils í Malaví

Stuðningur við aðgerðir vegna fæðingarfistils í Malaví. Ljósmynd: UNFPA - mynd

Íslensk stjórnvöld hafa lengi stutt við fæðingarfistilsverkefni Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA). Sendiráð Íslands í Lilongve styrkti nýlega Mulanje héraðssjúkrahúsið í gegnum UNFPA til að útbúa sérhæfða skurðdeild, þar sem hægt væri að halda fistilsbúðir með reglubundnum hætti og bjóða konum í nágrannahéruðunum að koma í aðgerðir. Að sögn Ágústu Gísladóttur forstöðumanns sendiráðs Íslands fólst framlag Íslands í kaupum á rúmum, skurðarborðum og skrifstofuhúsgögnum.

Fæðingarfistlar (obstetric fistula) eru alvarlegir fylgikvillar barnsburðar og myndast þegar fæðingin er erfið og/eða dregst mjög á langinn. Viðvarandi þrýstingur höfuðs barnsins á grind móðurinnar veldur þá skaða á mjúkvefjum og gat (fistill) myndast milli legganga og þvagblöðru og/eða endaþarms. Ágústa segir að fistill sé algengari hjá barnungum mæðrum en þeim sem eldri eru. „Það er ekki aðstaða í fæðingardeildum í dreifbýli til að gera við fistil. Konur með fistil verða gjarnan fyrir aðkasti og í 50% tilfella skilur eiginmaðurinn við þær. Skurðaðgerðir vegna fistils eru töluvert flóknar og í Malaví eru þær eingöngu framkvæmdar á sérhæfðum sjúkrastofnunum í höfuðborginni eða í sérstökum tveggja vikna fistilsbúðum (fistula camps) sem haldnar eru einu sinni eða tvisvar á ári á héraðssjúkrahúsunum,“ segir hún.    

Fyrstu aðgerðirnar  í nýju deildinni í Mulanje hófust í síðustutu viku. Ráðgert er að framkvæma aðgerðir á 40 konum í þetta sinn, þar af eru 16 frá Mangochi héraði. Aðgerðirnar voru í þetta sinn framkvæmdar af skurðlækni frá Bandaríkjunum sem mun einnig  þjálfa innlenda skurðlækna.

Ágústa fór á vettvang í síðustu viku ásamt yfirmanni UNFPA í Malaví og hitti yfirmenn spítalans og skjólstæðingana. „Við hittum einnig konu sem fór í fistilsaðgerð á sjúkrahúsinu árið 2016 en hafði þá þjáðst í 14 ár,“ segir Ágústa og bætir við að í Mangochi héraði séu um það bil 30 þúsund fæðingar á ári og fistilstilfelli gætu verið allt að 300 talsins.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan
5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta