Nr. 173/2021 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 20. apríl 2021 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 173/2021
í stjórnsýslumáli nr. KNU21020037
Kæra [...]
og barna hennar
á ákvörðunum
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 14. febrúar 2021 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. janúar 2021, um að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Þá kærði kærandi fyrir hönd barna sinna, [...], fd. [...] og [...], fd. [...], ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 27. janúar 2021, um að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar við kæranda, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga.
Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 70. gr. laga um útlendinga verði samþykkt. Til vara er þess krafist að málinu verði vísað aftur til Útlendingastofnunar til frekari rannsóknar.
Kærandi krefst þess jafnframt að ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum barna hennar verði felldar úr gildi og að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 69. gr. eða 1. mgr. 71. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að málum þeirra verði vísað aftur til Útlendingastofnunar til frekari rannsóknar og nýrrar meðferðar.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara hinn 28. janúar 2019. Þá sótti kærandi um dvalarleyfi fyrir hönd barna sinna á grundvelli fjölskyldusameiningar þann sama dag. Með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 27. janúar 2021, var umsóknunum synjað. Þann 14. febrúar 2021 kærði kærandi ákvarðanirnar til kærunefndar útlendingamála. Greinargerðir kæranda og barna hennar bárust kærunefnd þann 1. mars 2021 ásamt fylgigögnum.
III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að við vinnslu umsóknar kæranda hafi vaknað grunur um að til hjúskapar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis hér á landi. Hafi Útlendingastofnun sent kæranda bréf hinn 29. desember 2020 þar sem rakin hefðu verið þau atriði sem bentu til þess gruns. Hefði lögmaður kæranda lagt fram greinargerð þann 18. janúar 2021, þar sem fullyrðingum Útlendingastofnunar hafi verið hafnað.Var það mat Útlendingastofnunar með vísan til gagna málsins að fyrir hendi væri rökstuddur grunur um að til hjúskapar kæranda og maka hennar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla henni dvalarleyfis hér á landi, enda hefði ekki verið sýnt fram á annað svo óyggjandi væri, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda því synjað. Þá var umsóknum barna hennar jafnframt synjað enda leiddu þau rétt sinn af umsókn kæranda.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð vísar kærandi til þess að hún og maki hafi verið skráð í hjúskap þann 15. október 2018 en þau hafi hist fyrst árið 2010 þegar maki kæranda hafi verið í [...] og keypt flugmiða á ferðaskrifstofu þar sem kærandi starfaði. Með þeim hafi tekist vinátta en á þeim tíma hefðu þau bæði verið í sambandi við þáverandi maka. Hafi samband þeirra hafist í janúar 2018 þegar maki kæranda hafi verið að skilja að borði og sæng við eiginkonu úr hjónabandi númer tvö. Vekur kærandi athygli á því að fyrstu svör Útlendingastofnunar við meðferð málsins hafi verið í mars 2020, eða um 14 mánuðum eftir að umsóknin var afhent stofnuninni, og með bréfi stofnunarinnar til kæranda, dags. 29. desember 2020, hafi verið liðnir um 23 mánuðir frá umsóknardegi. Þá vísar kærandi til þess að aðeins níu dagar hafi liðið frá því að andmælum hennar var skilað til Útlendingastofnunar og þar til hin kærða ákvörðun var tekin. Vakni því spurningar hvort stjórnvaldið hafi raunverulega gætt að andmælarétti kæranda og sinnt rannsóknarskyldu sinni. Allt að einu sé vandséð hvernig Útlendingastofnun hafi getað yfirfarið greinargerðina og lagt sjálfstætt mat á þær upplýsingar sem þar kæmu fram, og skrifað hina kærðu ákvörðun, á aðeins níu dögum.
Kærandi byggir á því að ákvæði 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga sé undantekningarákvæði sem feli í sér mikla skerðingu á rétti fólks til einkalífs og við túlkun á ákvæðinu beri að beita þröngri lögskýringu og vernda einstaklinga gegn ómálefnalegri íhlutun stjórnvalda í réttindi þeirra. Af því leiði að stjórnvöldum beri skylda til að framkvæma eigið mat og tryggja að slíkt mat fari raunverulega fram í hverju tilviki. Þá beri einnig að horfa til hugtaksins „rökstuddur grunur“, sem vísi m.a. til þess að eitthvað sé stutt ástæðum eða rökum og vísar kærandi í því samhengi til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 83/2019, þar sem fram komi að hinn rökstuddi grunur þurfi að beinast að stofnun hjúskaparins. Kærandi gerir athugasemdir við aðferðarfræði Útlendingastofnunar við mat á rökstuddum grun, sbr. 8. mgr. 70. gr. laganna. Af beinu orðalagi í niðurstöðukafla ákvörðunarinnar virðist sem Útlendingastofnun horfi nú til þess að í upptalningu í athugasemdum með ákvæðinu sé að finna dæmi með atriðum sem megi líta til við mat á því hvort rökstuddur grunur sé til staðar. Athygli veki að stofnunin tilgreini nú sérstaklega að ekki sé um tæmandi talningu að ræða en í fyrri ákvörðunum hafi hún byggt á því að í tilvitnuðum 11 liðum sé að finna tæmandi talningu á þeim atriðum sem skuli koma til skoðunar. Að sama skapi veki það upp spurningar hvort Útlendingastofnun sé nú að víkja frá vinnureglu sinni í þessu máli sérstaklega þar sem aðeins eitt atriði af hinum tilteknu ellefu eigi við um umsókn kæranda. Þá hafi Útlendingastofnun ekki óskað eftir viðtali við kæranda eða maka hennar og þekkingu þeirra á hvort öðru þó svo að málið hafi verið í yfir 23 mánuði til skoðunar áður en stofnunin sendi áðurnefnt andmælabréf sitt. Að mati kæranda standist aðferðarfræði stofnunarinnar í málinu enga skoðun og sé ákvörðunin haldin slíkum ágöllum að ógilda beri ákvörðunina og veita henni dvalarleyfi. Sé ljóst að ekki hafi farið fram sjálfstætt mat á umsókn kæranda þar sem hver liður í umsókninni fái sjálfstætt vægi. Þá sé ekki málefnalegt sjónarmið að byggja nú á því að aðeins eitt efnisatriða í lögskýringargögnum eigi við, sérstaklega þegar ekki sé um meirihluta að ræða, rangfærslur hafi ekki verið leiðréttar og horft hafi verið fram hjá eðlilegum skýringum, auk þess sem slíka aðferðarfræði skorti alla lagastoð.
Kærandi byggir á því að ekkert þeirra efnisatriða sem tilgreind séu í hinni kærðu ákvörðun hafi með stofnun hjúskaparins að gera, líkt og áskilið sé í 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Þá sé ljóst að meirihluti tilgreindra efnisatriða hafi enga eða óverulega þýðingu í heildarmatinu og önnur atriði eigi sér eðlilegar skýringar. Í fyrsta lagi byggi Útlendingastofnun á því að hjúskaparsaga maka kæranda veki grunsemdir og sé tekið fram í ákvörðuninni að um þriðja hjónaband maka sé að ræða, maki eigi tvö börn með eiginkonu úr hjónabandi númer tvö og að þau hafi skilið að lögum í júlí 2018 en maki og kærandi hefðu gifst í október 2018. Áréttar kærandi að stofnunin byggi ekki á því að hjúskaparsaga maka hafi nokkur tengsl við að aðili sé að öðlast sjálfstæð réttindi á Íslandi og þá megi ráða af ákvörðuninni að fyrsta hjónaband maka hafi ekkert með mat stofnunarinnar að gera. Liggi engin gögn fyrir í málinu sem renni stoðum undir þá ályktun Útlendingastofnunar að hjúskaparslit maka og barnsmóður hafi nokkuð með umsókn kæranda á Íslandi að gera. Telur kærandi einnig að fram þurfi að fara raunverulegt sjálfstætt mat hjá stjórnvaldinu á umsókn kæranda og ekki sé nægilegt að vísa til staðreynda um fyrri hjúskaparsögu. Hafi Útlendingastofnun ekki framkvæmt neina rannsókn á fyrri hjónaböndum maka kæranda, t.d. með því að kalla eftir frekari upplýsingum frá fyrri eiginkonu eða barnsmóður auk þess sem engin eldri gögn liggi fyrir, s.s. grunur í eldri málum, sem styðji við ályktun stofnunarinnar. Í öðru lagi byggi Útlendingastofnun mat sitt á því efnisatriði að það séu samtals níu millifærslur á milli maka kæranda og barnsmóður en í fyrirliggjandi greinargerð til Útlendingastofnunar hafi verið nánari grein gerð fyrir umræddum millifærslum, þar komi m.a. fram að hluti af greiðslum frá maka kæranda til barnsmóður hafi verið til að standa straum af lögmannskostnaði vegna ágreinings út af fasteignaviðskiptum. Þá hafi hluti millifærslna verið vegna hlutdeildar í ferðakostnaði vegna ferðalaga barna þeirra. Telur kærandi augljóst að framangreint hafi ekkert með umsókn hennar að gera eða gefi til kynna að hjúskapur hennar og maka sé til málamynda. Þvert á móti endurspegli millifærslurnar samskipti foreldra tveggja barna á skólaaldri og þátttöku í sameiginlegum kostnaði við rekstur og uppeldi þeirra. Í þriðja lagi byggi Útlendingastofnun mat sitt á því atriði að maki kæranda eigi enn fasteignir með barnsmóður sinni eftir lögskilnað þeirra. Byggir kærandi á því að engin gögn hafi verið lögð fram sem sýni fram á hvernig eignarhald á fasteignum eigi að gefa til kynna að til hjúskapar kæranda hafi verið stofnað til málamynda. Í fyrirliggjandi greinargerð til Útlendingastofnunar hafi framangreint verið ítarlega útskýrt, þannig liggi fyrir að maki kæranda og þáverandi eiginkona eigi saman tvær fasteignir, að [...] og [...]. Eignin að [...] hafi verið keypt árið 2017 en fljótlega hafi komið í ljós að íbúðin hafi verið í slæmu ásigkomulagi sem endaði með dómi í dómsmáli nr. [...]. Hafi dómurinn verið kveðinn upp þann [...] eða eftir að þau skildu að borði og sæng og rétt fyrir lögskilnað en við skilnaðinn hafi legið fyrir að fasteignin að [...] væri illa farin og þau verið í dómsmáli vegna þess. Vegna þess hafi maki kæranda og barnsmóðir hans gert með sér samkomulag um að leigja fasteignirnar út í eitt til tvö ár til að fá tekjur til að geta ráðist í viðgerðir á eignunum. Þá sé rétt að taka fram að ekkert í íslenskum lögum banni hjónum að eiga fasteignir áfram eftir skilnað og að tilvísun til þessa geti ekki haft neitt með mat Útlendingastofnunar á umsókn kæranda að gera endi liggi engin gögn fyrir sem sýni fram á neitt óeðlilegt við þessi fjárskipti.
Í fjórða lagi byggi Útlendingastofnun mat sitt á því að fyrrverandi tengdamóðir maka kæranda sé vinur kæranda á Facebook og að ótrúverðugt sé að kærandi eigi ekki vini á Íslandi. Vísar kærandi til þess að í fyrirliggjandi í gögnum málsins sé yfirlýsing þess efnis að hún eigi enga vini á Íslandi og þá liggi engin gögn fyrir sem sýni fram á annað. Þá hafi verið skilmerkilega útskýrt í greinargerð til Útlendingastofnunar að maki kæranda hafi látið barnsmóður sína og fyrrverandi tengdamóður vita að hann væri að fara giftast en hann hafi talið slíkt sjálfsagt og eðlilegt þar sem augljóslega yrði samgangur á milli kæranda og fyrrverandi tengdafjölskyldu maka. Þannig hafi kærandi og fyrrverandi tengdamóðir maka orðið vinir á Facebook í október 2018, þ.e. á þeim tíma sem kærandi og maki hennar gengu í hjúskap. Þar fyrir utan vilji kærandi vekja athygli á því að samþykkt vinabeiðni á samfélagsmiðli geti ekki breytt neinu um þá staðreynd að hún eigi enga vini eða ættingja á Íslandi. Þá hefði það verið auðsótt fyrir stofnunina að fá staðfestingu frá fyrrverandi tengdamóður á framangreindu. Í fimmta lagi byggi Útlendingastofnun mat sitt á því að skortur af skjáskotum af samfélagsmiðlum gefi til kynna grun um að til hjúskapar hafi verið stofnað til málamynda. Í greinargerð til Útlendingastofnunar hafi framangreint verið gagnrýnt og bent á að stofnunin geti ekki lagt mikla vigt í að slík gögn séu ekki til staðar, sérstaklega þar sem hvergi segi í umsóknargögnum eða á leiðbeiningum á heimasíðu stofnunarinnar að umsækjendur kunni að þurfa að framvísa slíkum gögnum. Í hinni kærðu ákvörðun sé þessari málsástæðu kæranda hafnað og vísi Útlendingastofnun til þess að henni sé heimilt að krefjast þeirra gagna sem nauðsynlegt sé vegna umsóknar, sbr. 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga og 10. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Taki kærandi undir það að stofnunin hafi slíka heimild til gagnaöflunar en stofnunin óski þó næstum undantekningarlaust eftir slíkum samskiptum af samfélagsmiðlum og leggi slík samskipti til grundvallar við ákvarðanir. Þannig sé í reynd ekki um einstaka gagnaöflun að ræða í tilfallandi málum og sé síðari skortur á framvísun slíkra samskipta næstum án undantekninga túlkuð gegn viðkomandi aðila. Allt að einu séu meðfylgjandi greinargerð til kærunefndar enn frekari gögn sem sýni fram á samskipti kæranda og maka kæranda. Í sjötta lagi byggi Útlendingastofnun mat sitt á því að fáar myndir hafi verið afhentar en að myndir séu nauðsynleg gögn til að sýna fram á að kærandi og maki hafi verið í samskiptum. Vísar kærandi til þess að framangreint hafi verið ítarlega útskýrt í greinargerð til Útlendingastofnunar en auk þess séu meðfylgjandi enn fleiri myndir af kæranda, maka kæranda og börnum. Þá sé hvergi að finna nokkur fyrirmæli sem gefi til kynna að það þurfi einhvern tiltekinn fjölda mynda en í umsóknargögnum stofnunarinnar sé hvergi tilgreint að umsækjandi þurfi að leggja fram afrit af myndum eða samskiptasögu, hvorki við afhendingu umsóknar í upphafi eða síðar. Ætli Útlendingastofnun sér síðar að byggja á því að slík gögn skorti beri stjórnvaldinu að leiðbeina umsækjanda við afhendingu umsóknarinnar um að varðveita slík gögn sérstaklega á meðan umsóknin er til meðferðar, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 3. mgr. 11. gr. laga um útlendinga. Þá byggir kærandi á því að í hinni kærðu ákvörðun hafi ekki farið fram sjálfstætt mat á einstökum þáttum og þeir vegnir og metnir með hliðsjón af málsatvikum heldur virðist þeir allir fá jafnt vægi.
Loks byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hafi ekki gætt að rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Þar sem um sé að ræða mjög íþyngjandi ákvörðun sem beinist að grundvallarmannréttindum um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu verði að gera ríkari kröfur til afgreiðslu stofnunarinnar en hin kærða ákvörðun beri með sér. Þá hafi málsmeðferð hjá stofnuninni dregist úr hófi og telja verði að slíkur dráttur á afgreiðslu málsins og þau áhrif sem það hafi á sambönd, sé ámælisverður og brot á 9. gr. stjórnsýslulaga, enda liggi engar upplýsingar fyrir um ástæður tafanna. Eigi slík töf á afgreiðslu málsins að leiða til ógildingar ákvörðunarinnar enda sé ótækt að láta kæranda gjalda fyrir þá ómálefnalegu töf sem hafi orðið á afgreiðslu málsins. Kærandi vísar jafnframt til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og áréttar að dvalarleyfi kæranda yrði ávallt tímabundið og stjórnvöld geti því hæglega gripið til annarra úrræða í kjölfar þess að dvalarleyfi hafi verið veitt, sé áframhaldandi grunur um málamyndahjúskap til staðar.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Í 70. gr. laga um útlendinga er kveðið á um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar. Í 1. ml. 8. mgr. 70. gr. laganna segir að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé veiti það þá ekki rétt til dvalarleyfis. Í athugasemdum við 70. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. orðrétt:
„Ákvæðinu er ætlað að heimila synjun á veitingu leyfis ef hægt er að sýna fram á að til hjúskapar hafi verið stofnað í öðrum tilgangi en til samvistar, t.d. til að afla dvalarleyfis. Þegar metið er hvort grunur sé á málamyndahjúskap er m.a. litið til þess hvort aðilar hafi búið saman fyrir stofnun hjúskapar, aldursmunar, hvort þau tali tungumál hvors annars, þekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvort annars og hjúskaparsögu viðkomandi maka og hvort hún veki grunsemdir hvað þetta varðar. Við mat á aðstæðum sem þessum þarf þó að taka tillit til þess að mismunur getur verið á milli menningarheima hvað varðar hefðir og aðdraganda hjúskapar og þekkingu hjóna hvort á öðru við upphaf hjúskapar. Það að aðilar hafi ekki hist áður eða búið saman fyrir stofnun hjúskapar getur ekki verið eini grundvöllur þess að synja um veitingu leyfis á þessum grundvelli heldur verður fleira að koma til sem bendir til þess að um málamyndagerning sé að ræða. Auk þessara þátta getur skipt máli hvort viðkomandi útlendingur hafi áður sótt um dvöl í landinu á öðrum grundvelli, m.a. með umsókn um alþjóðlega vernd og að viðkomandi útlendingur hafi gengið í hjúskap stuttu eftir að þeirri umsókn hafi verið hafnað. Þá getur þurft að líta til þess hvort viðkomandi eigi ættingja hér á landi, maki hérlendis hafi verið giftur á Íslandi og skilið rétt eftir að maki hans eða hann sjálfur hafi öðlast sjálfstæð réttindi hér á landi, hversu oft ábyrgðaraðili hafi verið giftur hér á landi og hvort grunur er um að hann hafi fengið verulegar fjárhæðir sem gætu tengst málinu.“
Í framangreindum athugasemdum er vísað til atriða sem m.a. er unnt að líta til við mat á því hvort um rökstuddan grun sé að ræða í skilningi ákvæðisins. Hins vegar er ljóst að upptalning á þeim atriðum er koma til skoðunar er ekki tæmandi og gilda almennar sönnunarreglur í slíkum málum. Þannig er stjórnvöldum ótvírætt heimilt að líta til annarra atriða en nefnd eru í áðurnefndum lögskýringargögnum enda sé slíkt mat byggt á málefnalegum sjónarmiðum.
Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun var það mat Útlendingastofnunar að fyrir hendi væri rökstuddur grunur um að til hjúskapar kæranda og maka hennar hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarleyfis hér á landi. Þá hefði kærandi ekki sýnt fram á annað svo óyggjandi sé. Var kæranda því synjað um dvalarleyfi hér á landi, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Má ráða af ákvörðuninni að Útlendingastofnun byggi mat sitt á eftirfarandi atriðum. Í fyrsta lagi hjúskaparsögu maka kæranda, en um sé að ræða þriðja hjónaband hans en hann hafi skilið að lögum þann 26. júlí 2018 og gengið í hjúskap með kæranda þann 15. október 2018, eða tæpum þremur mánuðum síðar. Þá hafi kærandi jafnframt skilið við fyrrverandi eiginmann sinn það sama ár, eða í febrúar 2018. Í öðru lagi að á reikningsyfirliti maka kæranda sé að finna alls níu millifærslur milli hans og fyrrverandi eiginkonu hans úr hjónabandi númer tvö. Í þriðja lagi að maki kæranda og fyrrverandi eiginkona hans úr hjónabandi númer tvö eigi tvær fasteignir saman, 50% eignarhlut hvort. Í fjórða lagi að í greinargerð kæranda, dags. 27. febrúar 2020, komi fram að hún eigi hvorki vini né ættingja á Íslandi en með einfaldri leit á samfélagsmiðlinum Facebook hafi komið í ljós að fyrrverandi tengdamóðir maka kæranda væri vinur kæranda á miðlinum. Í fimmta lagi að kærandi og maki hafi átt í takmörkuðum samskiptum á Facebook, þrátt fyrir staðhæfingar um annað í dvalarleyfisumsókn og framlagðar ljósmyndir af þeim saman hafi verið teknar við sömu tækifæri og loks í sjötta lagi að þau hefðu ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar.
Kærunefnd telur að fallast megi á með Útlendingastofnun að framangreind atriði hafi gefið tilefni til að stofnunin rannsakaði nánar, í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga, hvort til hjúskaparins hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarleyfis, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Á hinn bóginn lítur kærunefnd til þess að kærandi hefur við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun og kærunefnd fært fram trúverðugar skýringar á þeim atriðum sem að framan greinir. Þannig er ljóst af gögnum málsins að kærandi og fyrrverandi eiginkona hans stóðu í dómsmáli vegna fasteignar sem þau eiga, að [...]. Þótt það sé ef til vill undantekning að hjón eigi saman eignir eftir skilnað, þ. á m. fasteignir, telur kærunefnd það atriði eitt og sér ekki þess eðlis að rökstuddur grunur sé til staðar í skilningi 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Þá er ljóst að maki kæranda og fyrrverandi eiginkona hans eiga tvö börn saman og eru einstaka millifærslur þeirra á milli því ekki óeðlilegar í því ljósi, en kærandi hefur við meðferð málsins m.a. vísað til þess að millifærslurnar snúi að kostnaði vegna uppeldis þeirra og áðurnefndu dómsmáli vegna fasteignarinnar að [...] en kærunefnd telur ekki tilefni til að rengja þá staðhæfingu kæranda. Þá kann það jafnframt að eiga sér skýringar að kærandi sé „vinur“ fyrrverandi tengdamóður maka kæranda á Facebook. Getur umræddur „vinskapur“ því ekki talist óeðlilegur með hliðsjón af málavöxtum og þeim skýringum sem kærandi hefur fært fram. Við meðferð málsins hjá kærunefnd lagði kærandi fram frekari gögn um samskipti á milli hennar og maka auk ljósmynda af þeim saman í [...]. Jafnvel þótt kærandi hafi lagt fram fáar ljósmyndir af þeim saman kann það að eiga sínar skýringar; kærandi hefur við meðferð dvalarleyfisumsóknar dvalið í heimaríki auk þess sem ferðalög hafa verið miklum takmörkunum háð eftir að COVID-19 faraldurinn skall á. Þó hjúskaparsaga kæranda og maka veki upp ákveðnar grunsemdir m.t.t. 8. mgr. 70. gr. er það mat kærunefndar að kærandi hafi fært viðunandi skýringar við meðferð málsins, s.s. um upphafleg kynni þeirra og hvenær ástir tókust með þeim.
Eftir heildarskoðun á öllum gögnum málsins og þeim skýringum sem kærandi hefur fært fram við meðferð málsins er það mat kærunefndar að ekki sé fyrir hendi rökstuddur grunur í málinu um að til hjúskapar kæranda og maka hennar hafi verið stofnað til að afla dvalarleyfis fyrir kæranda, sbr. 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Þá er ekki forsvaranlegt, með vísan til þess óhóflega tíma sem dvalarleyfisumsókn kæranda hefur verið til meðferðar, að frekari rannsókn fari fram í málinu samkvæmt 8. mgr. 70. gr. Með vísan til alls framangreinds verður því lagt fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 70. gr. laga um útlendinga, að uppfylltum grunnskilyrðum 55. gr. laganna. Þá ber stofnuninni að veita börnum hennar dvalarleyfi á grundvelli 69. gr., sbr. 71. gr., að uppfylltum skilyrðum síðastnefnds ákvæðis.
Athugasemdir kærunefndar við málsmeðferð Útlendingastofnunar
Líkt og að framan greinir lagði kærandi fram dvalarleyfisumsóknir þann 28. janúar 2019 fyrir sig og fyrir hönd barna sinna og tók Útlendingastofnun ákvörðun í málunum þann 27. janúar 2021, eða tveimur árum síðar. Af fyrirliggjandi gögnum er enn fremur ljóst að Útlendingastofnun aðhafðist ekkert í dvalarleyfisumsókn kæranda fyrr en þann 22. ágúst 2019, þegar stofnunin óskaði eftir frekari gögnum frá kæranda, en þá höfðu liðið átta mánuðir frá framlagningu umsóknanna. Þá liðu rúmlega tíu mánuðir frá bréfi Útlendingastofnunar, dags. 5. febrúar 2020, þar sem óskað var eftir frekari gögnum frá kæranda og þangað til stofnunin sendi kæranda andmælabréf þar sem vísað var til þess að grunur væri um að til hjúskaparins hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis, sbr. bréf Útlendingastofnunar hinn 29. desember 2020. Þótt játa verði Útlendingastofnun ákveðið svigrúm til að afla gagna og framkvæma fullnægjandi rannsókn í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga þegar stofnunin telur ákvæði 8. mgr. 70. gr. laga um útlendinga koma til álita, er ljóst að málsmeðferðin fór fram úr öllu hófi og fer verulega í bága við fyrirmæli 9. gr. stjórnsýslulaga. Einnig bera fyrirliggjandi gögn ekki með sér að Útlendingastofnun hafi upplýst kæranda um að fyrirsjáanlegt væri að afgreiðsla málsins myndi tefjast, líkt og 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga gerir áskilnað um.
Aðilar stjórnsýslumáls hafa alla jafnan ríka hagsmuni af því að mál þeirra hljóti hraða afgreiðslu hjá stjórnvöldum, þótt slíkur hraði megi eðli málsins samkvæmt ekki bitna á gæðum málsmeðferðarinnar og ákvörðunar. Slík sjónarmið eiga sérstaklega við þegar kemur að dvalarleyfisumsóknum á grundvelli hjúskapar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga, þá hvort sem endanleg niðurstaða á stjórnsýslustigi sé sú að ákvæði 8. mgr. 70. gr. standi í vegi fyrir dvalarleyfi eða ekki. Kærunefnd hefur áður komist að þeirri niðurstöðu í sambærilegum málum að málshraði Útlendingastofnunar hafi farið í bága við málshraðareglu 9. gr. stjórnsýslulaga, sjá m.a. úrskurð kærunefndar nr. 248/2020 frá 19. ágúst 2020 og úrskurð nr. 252/2020 frá 16. júlí 2020. Kærunefnd beinir því til Útlendingastofnunar að gæta framvegis að þeim sjónarmiðum sem hér hafa verið rakin.
Úrskurðarorð
Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda og börnum hennar dvalarleyfi á grundvelli 70. og 71. gr. laga um útlendinga, að uppfylltum skilyrðum 55. gr. laganna.
The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate is instructed to issue the appellant and her children a residence permit based on Art. 70 and 71 of the Act on Foreigners no. 80/2016, subject to conditions set in Art. 55.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Gunnar Páll Baldvinsson Sandra Hlíf Ocares