Hoppa yfir valmynd
14. júní 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Íslensk sendinefnd á fundi Evrópska háskólasvæðisins

Frá fundinum í Tirana - myndHVIN

Ráðherrafundur Evrópska háskólasvæðisins (EHEA) um Bologna-ferlið fór fram í Tirana í Albaníu 29. til 30. maí sl. Fundurinn markar mikilvægt skref í samstarfinu með sameiginlegum skilgreiningum á helstu grunngildum evrópsks háskólastarfs. Má þar m.a. nefna akademískt frelsi og heilindi, sjálfstæði stofnana, þátttöku stúdenta og starfsfólks í stefnumörkun og stjórnun háskólastarfs og opinbera ábyrgð í háskólastarfi. Innleiðingar á nýjum mælikvörðum til að mæla bæði þessi grunngildi og félagslega vídd í háskólastarfi voru einnig til umfjöllunar.

Á fundinum skuldbundu ráðherrar sig til að halda uppi grunngildum samstarfsins. Jafnframt var áhersla lögð á mikilvægi sterkrar samvinnu um háskólamál í ljósi vaxandi alþjóðlegra áskorana, þ.á m. landfræðilegrar spennu, efnahagslegs misræmis og félagslegs misréttis. Gildin eru álitin nauðsynleg til að hlúa að öruggu, opnu og inngildandi menntaumhverfi sem stuðlar að gagnrýnni hugsun, umburðarlyndi og friðsamlegri, málefnalegri umræðu. Þá var jafnframt lögð áhersla á áframhaldandi stuðning við háskólastarf í Úkraínu. Á fundinum var einnig kynnt ný skýrsla Eurydice (greiningarstofnunar ESB um menntamál) um það hvernig innleiðing á skuldbindingum Bologna-samstarfsins hefur gengið eftir í aðildarríkjunum. 

Sendinefnd Íslands á fundinum var skipuð Sigríði Valgeirsdóttur, skrifstofustjóra stefnumörkunar og alþjóðasamskipta í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu (HVIN), Unu Strand Viðarsdóttur, sérfræðingi og fulltrúa Íslands í Bologna samstarfinu hjá HVIN, Margréti Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst fyrir hönd íslenskra háskóla, og Alexöndru van Erven, forseta Landssamtaka íslenskra stúdenta.

Nánar um ráðherrafundi EHEA og Bologna-samstarfið

Ráðherrafundir EHEA eru haldnir þriðja hvert ár. Þar eru sameiginlegar áherslur mótaðar í málefnum sem snúa að háskólamenntun, stefnumótandi ákvarðanir teknar og sameiginleg markmið gefin út. Ísland mun ásamt Ungverjalandi gegna formennsku í Bologna-samstarfinu frá 1. júlí-31. desember 2024. Megintilgangur Bologna-samstarfsins er að mynda samevrópskt háskólasvæði þar sem hreyfanleiki nemenda og háskólakennara er gerður auðveldari. Áhersla er lögð á skilvirkt innra eftirlit og mat á öllu námi til að stuðla að sem mestu samræmi milli skóla og landa. Einnig er lögð áhersla á sameiginleg gildi háskólastarfs innan Evrópu, svo sem akademískt frelsi, sjálfstæði stofnana og rétt nemenda og starfsmanna í lýðræðislegri samfélagsumræðu.

Ísland var á meðal þeirra 29 Evrópuríkja sem undirrituðu Bologna-yfirlýsinguna þann 19. júní 1999 um samstarf á sviði háskólamenntunar. Samevrópska háskólasvæðið (e. European Higher Education Area (EHEA)) var stofnað árið 2010 á tíu ára afmæli Bologna-ferlisins. Aðildarríki Bologna-ferlisins eru nú 49 en einnig koma að því ýmis hagsmunasamtök, fulltrúar Evrópuráðsins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, auk aðila frá evrópskum gæðamatsstofnunum.

Sjá einnig:

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum