Hoppa yfir valmynd
11. nóvember 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 7/2010

Fimmtudaginn 11. nóvember 2010 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 7/2010:

A

gegn

velferðarráði Reykjavíkurborgar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR :

Með bréfi, dags. 16. september 2010, skaut A, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 20. ágúst 2010 um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið frá 1. júní til 31. ágúst 2010.

 

I. Málavextir.

Kærandi nemur viðskiptafræði. Hann var í atvinnuleit síðastliðið sumar frá því áður en skóla lauk vorið 2010 og hafði ekki fengið vinnu þegar hann sótti um fjárhagsaðstoð til framfærslu þann 3. júní 2010. Hann fékk síðar sumarvinnu í tengslum við atvinnu fyrir stúdenta í gegnum Nýsköpunarsjóð og hóf störf þar þann 20. júní 2010. Umsókn kæranda var synjað með bréfi, dags. 10. júní 2010, en hann skaut þeirri ákvörðun til velferðarráðs sem staðfesti synjunina á fundi sínum þann 20. ágúst 2010.

Kærandi hefur verið í skráðri sambúð frá 8. desember 2008. Samkvæmt gögnum málsins mun sambýliskona hafa atvinnu auk þess sem hún er með opið virðisaukaskattsnúmer.

 

II. Málsástæður kæranda.

Af hálfu kæranda kemur fram að umsókn hans um framfærslu hafi verið synjað á þeirri forsendu að hann væri skráður í sambúð og hann og maki hans væru framfærsluskyld við hvort annað. Kærandi telji að með því sé verið að refsa fólki sem skrái sig í sambúð og reyni að reka sitt eigið heimili. Kærandi heldur því fram að skv. 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, sbr. 14. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 sem og 12. og 13. gr. félagsmálasáttmála Evrópu, sem fullgiltur var af Íslands hálfu þann 15. janúar 1976 og 11. og 12. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem fullgiltur var af Íslands hálfu 22. ágúst 1979, eigi einstaklingur rétt á bótum til að framfleyta sér, maka sínum og börnum geti hann það ekki sjálfur og eigi bæturnar að koma frá viðkomandi sveitarfélagi. Kærandi kveðst hafa verið atvinnulaus frá 20. maí til 20. júní 2010 og sæki hann um framfærslu fyrir það tímabil, enda hafi hann ekki getað framfleytt sér og maka sínum á því tímabili. Vísar kærandi jafnframt til þess að framfærsla hans verði ekki skert nema þegar um sé að ræða veruleg laun maka og vísar hann í því samhengi til dóms Hæstaréttar frá 19. desember 2000, í máli nr. 125/2000.

 

III. Sjónarmið velferðarráðs Reykjavíkurborgar.

Í greinargerð velferðarráðs Reykjavíkurborgar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála kemur meðal annars fram að um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg gildi sú meginregla að umsækjandi fái einungis greidda fjárhagsaðstoð ef hann geti ekki framfleytt sér sjálfur, meðal annars af eignum sínum. Reglan eigi sér stoð í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð, sbr. og 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum, sem kveði meðal annars á um skyldu hvers og eins að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Þá komi einnig fram í áðurnefndri 2. gr. reglnanna og 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, að fólk sem sé í skráðri sambúð í þjóðskrá eigi sama rétt til fjárhagsaðstoðar og hjón. Kærandi hafi verið í skráðri sambúð frá 8. desember 2008 og njóti hann og sambýliskona hans því réttar til fjárhagsaðstoðar eins og hjón, sbr. 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg.

Við mat á því hvort umsækjandi geti átt rétt til fjárhagsaðstoðar til framfærslu á grundvelli 11. gr. reglna um fjárhagsaðstoð skuli meðal annars horfa til 12. gr. reglnanna sem kveði á um hvernig skuli litið til tekna og eigna umsækjanda. Sambýliskona kæranda sé með atvinnu en kærandi hafi ekki framvísað yfirliti yfir tekjur sambýliskonu sinnar og liggi því engar upplýsingar fyrir um tekjur hennar. Auk þess sé sambýliskona kæranda með opið virðisaukaskattsnúmer, en í 14. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð komi fram að atvinnurekendur, sjálfstætt starfandi einstaklingar og fólk í hlutastörfum, sem hefur lægri tekjur en sem nema grunnfjárhæð, eigi rétt á fjárhagsaðstoð að því tilskildu að viðkomandi hafi stöðvað atvinnurekstur sinn og leitað réttar síns til atvinnuleysisbóta.

Kærandi og sambýliskona hans njóti réttar til fjárhagsaðstoðar eins og um hjón væri að ræða. Verði því að líta svo á að sambúðarfólk beri framfærsluskyldu gagnvart hvort öðru eins og um sé að ræða hjón. Kærandi hafi ekki viljað leggja fram upplýsingar um tekjur sambýliskonu sinnar. Skýrt komi fram í 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg að líta beri til tekna kæranda og maka hans við útreikning á fjárhagsaðstoð. Þá sé sambýliskona kæranda með opið virðisaukaskattsnúmer en í 14. gr. reglnanna sé kveðið á um að stöðva skuli atvinnurekstur til þess að eiga rétt til fjárhagsaðstoðar.

Loks er bent á af hálfu velferðarráðs Reykjavíkurborgar vegna tekna árið 2008 sýnist kærandi eigi innlendar innstæður eða verðbréf að fjárhæð 1.105.119 kr. Frekari skýringar hafi ekki borist frá kæranda um þessar innstæður en í 12. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg sé kveðið á um að eigi umsækjandi, maki hans eða sambýlingur, eignir umfram íbúðarhúsnæði sem umsækjandi eða fjölskylda hans búi í og eina fjölskyldubifreið, eða hafi hann nýlega selt eignir sínar, skuli honum vísað á lánafyrirgreiðslu banka og sparisjóða, þó að tekjur hans séu lægri en grunnfjárhæð.

 

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Fyrir liggja reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborgar með áorðnum breytingum.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort velferðarráði Reykjavíkurborgar beri að greiða kæranda fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið frá 20. maí til 20. júní 2010.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 1. mgr. 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga kemur fram að skylt sé hverjum manni að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að samarétt til fjárhagsaðstoðar og hjón hafi samkvæmt lögunum einnig karl og kona sem búi saman og séu bæði ógift, enda hafi sambúðin verið skráð í þjóðskrá í að minnsta kosti eitt á áður en umsókn er lögð fram. Kærandi hafði verið í sambúð í meira en eitt ár þegar hann sótti um fjárhagsaðstoð sér til framfærslu og á sambýlisfólki hvílir gagnkvæm framfærsluskylda sbr. áðurnefnda 2. mgr. 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Hefur löggjafinn því mælt með afdráttarlausum hætti fyrir um gagnkvæma framfærsluskyldu hjóna og einstaklinga sem eru í sambúð.

Fyrir liggur að sambýliskona kæranda hefur atvinnu en kærandi hefur ekki upplýst um tekjur hennar. Þá er sambýliskonan með opið virðisaukaskattsnúmer, en engar upplýsingar liggja fyrir um tekjur af atvinnurekstri hennar. Loks á kærandi, samkvæmt álagningaskrá vegna tekna árið 2008, innlendar innstæður eða verðbréf að fjárhæð 1.105.119 kr. en nánari upplýsingar liggja ekki fyrir um þær af hendi kæranda.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið, sbr. 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg og forsendna velferðarráðs Reykjavíkurborgar er hin kærða ákvörðun staðfest.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun velferðarráðs Reykjavíkurborgar frá 20. ágúst 2010, í máli A, er staðfest.

  

Ása Ólafsdóttir,

formaður

 

                Margrét Gunnlaugsdóttir                                      Gunnar Eydal

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta