Hoppa yfir valmynd
22. febrúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 14/2010

Þriðjudaginn 22. febrúar 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 14/2010:

A

gegn

fjölskylduráði Hafnarfjarðar

og kveðinn upp svohljóðandi

  

ÚRSKURÐUR :

Með bréfi, dags. 18. október 2010, skaut A, til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun fjölskylduráðs Hafnarfjarðar frá 22. september 2010 um félagslega heimaþjónustu vegna tímabundinna veikinda hennar, sem var hafnað þar sem á heimilinu hennar byggju aðrir fullorðnir einstaklingar sem ekki væru í þörf fyrir heimaþjónustu.

 

I. Málavextir.

Kærandi sótti um félagslega heimaþjónustu hjá Félagsþjónustunni í Hafnarfirði í júlí 2010 vegna tímabundinna veikinda og anna á heimili fjölskyldu hennar í kjölfar fjölburafæðingar og alvarlegra veikinda sem upp komu í kjölfar fæðingarinnar. Þurfti kærandi meðal annars að gangast undir aðgerð í kjölfar þess og lá af þeim sökum í tíu daga á sjúkrahúsi í kjölfar fæðingarinnar og aðgerðarinnar. Á heimili kæranda búa auk hennar, eiginmaður hennar og þrjú ung börn. Afgreiðslufundur heimaþjónustudeildar Félagsþjónustunnar synjaði beiðninni með vísan til 4. gr. og a-liðar 10. gr. reglna um félagslega heimaþjónustu í Hafnarfirði þar sem á heimilinu búi aðrir fullorðnir einstaklingar sem ekki séu í þörf fyrir heimaþjónustu. Kærandi skaut ákvörðuninni til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar sem staðfesti synjun afgreiðslufundar með sömu rökum.

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála óskaði þess, með bréfi dags. 7. janúar 2010, með vísan til 6. gr. reglna um félagslega heimaþjónustu í Hafnarfirði sem tóku gildi 1. október 2007, að fjölskylduráð Hafnarfjarðar aflaði og afhenti úrskurðarnefndinni þau fylgigögn sem nefnd eru í greininni að skuli fylgja umsókn um félagslega heimaþjónustu, þ.e. afrit skattframtals síðasta árs, launaseðla síðustu þriggja mánaða og rökstutt vottorð frá viðurkenndum sérfræðingum um þörf á heimaþjónustu. Launaseðlar bárust úrskurðarnefndinni með tölvupósti frá kæranda þann 17. febrúar 2011, en afrit skattframtals síðasta árs hefur ekki borist frá kæranda. Umbeðið læknisvottorð barst með bréfi Félagsþjónustunnar í Hafnarfirði. Af upphaflegri umsókn kæranda má ráða að hún sótti um að fá heimaþjónustu án þess að tilgreindur væri sérstakur tími sem slíkri þjónustu væri ætlað að vara.

 

II. Málsástæður kæranda.

Kærandi krefst þess að hún fái félagslega heimaþjónustu vegna veikinda, barnsburða og félagslegra aðstæðna, sbr. 25. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Kærandi vísar enn fremur til alþjóðasamninga, stjórnarskrár, stjórnsýslulaga og óskráðrar meginreglu um skyldubundið mat stjórnvalda og lögmætisreglu.

Kærandi bendir á að skv. 29. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, hafi sveitarstjórn heimild til þess að setja reglur um framkvæmd félagslegrar aðstoðar. Telja verði að ákvæðið sé ekki nægjanleg lagastoð fyrir framkvæmdarvaldið til þess að fella niður rétt borgara sem viðkomandi eigi lögum samkvæmt. Fyrir slíku þyrfti skýra og ótvíræða lagaheimild. Í þessu ljósi mótmælir kærandi að Hafnarfjarðarbæ sé með stjórnvaldsfyrirmælum heimilt að skerða réttindi þegnanna eins og í máli þess án skýrrar lagaheimildar.

Kærandi mótmælir því harðlega að synjun Félagsþjónustu Hafnarfjarðar í máli þessu hafi byggt á því að ekkert gæfi til kynna að eiginmaður hennar væri í þörf fyrir heimaþjónustu. Kærandi telur þessa málsástæðu Félagsþjónustunnar vera órökstudda. Fullt tilefni hafi verið fyrir heimaþjónustuna til þess að kanna aðstæður fjölskyldunnar betur og telur kærandi að með þessu hafi Félagsþjónustan brotið gegn meginreglunni um skyldubundið mat, enda hafi slíkt mat aldrei farið fram á högum hennar eða fjölskyldu hennar. Hún hafi hins vegar ítrekað haft samband við kærða auk þess sem hún hafi sent gögn og vottorð um hagi hennar, sem sýnt hafi fram á brýna þörf hennar fyrir aðstoð.

Kærandi ítrekar að stjórnvaldsfyrirmæli þurfi að hafa lagastoð og allar gjörðir stjórnvalda þurfi að vera í samræmi og með heimild í lögum. Ekki skipti máli hvað framkvæmdarvaldinu þyki sanngjarnt eða ósanngjarnt eins og fram komi í greinargerð Félagsþjónustunnar. Lögmætisreglna sem byggi á þrískiptingu ríkisvaldsins eigi einmitt að hafa þann tilgang að setja framkvæmdarvaldinu ákveðnar skorður eða heimildir til varnar gegn yfirgangi ríkisvaldsins gagnvart borgurunum.

Kærandi gagnrýnir það einnig að málshraðareglan hafi verið brotin í máli þessu af hálfu Félagsþjónustu Hafnarfjarðar eins og nánar er rakið í gögnum málsins.

 

III. Málsástæður fjölskylduráðs Hafnarfjarðar.

Í greinargerð Félagsþjónustunnar í Hafnarfirði er bent á að í 26. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, komi fram að markmið félagslegrar heimaþjónustu sé að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsum við sem eðlilegastar aðstæður. Í 29. gr. laganna segi að sveitarstjórn skuli setja reglur um framkvæmd félagslegrar heimaþjónustu. Í Hafnarfirði séu í gildi reglur um félagslega heimaþjónustu frá 1. október 2007. Í 4. gr. og a-lið 10. gr. reglnanna komi fram að litið skuli meðal annars til þess þegar þjónustuþörf sé metin hvort viðkomandi búi einn eða hvort annað heimilisfólk sé einnig í þörf fyrir heimaþjónustu, þar sem gert sé ráð fyrir því að fullorðnir einstaklingar sem haldi saman heimili sjái saman um heimilishald að einhverju leyti. Eðlilegt og sanngjarnt þyki að reikna með að þegar um tímabundin veikindi sé að ræða á heimili taki aðrir heimilismenn á sig þyngri byrðar vegna heimilishalds. Að mati fjölskylduráðs Hafnarfjarðar sé því ekki ósanngjarnt að horfa til þess hvort aðrir fullorðnir einstaklingar búi á heimili þeirra sem sækja um félagslega heimaþjónustu og meta þörf heimilisins út frá því.

Við mat á umsókn kæranda um heimaþjónustu hafi legið fyrir læknisvottorð um heilsufarsleg vandamál hennar. Einnig hafi legið fyrir að annar fullorðinn einstaklingur, eiginmaður hennar, byggi á heimilinu og ekkert sem hafi gefið til kynna að sá væri í þörf fyrir heimaþjónustu, annað en augljósar annir á heimilinu vegna fæðingar tvíbura og veikinda móður.

Aðstæður á heimili umsækjenda séu metnar með markmið félagslegrar heimaþjónustu í huga, þ.e. að stefnt skuli að því að efla viðkomandi til sjálfsbjargar og gera honum kleift að búa sem lengst í heimahúsum við sem eðlilegastar aðstæður. Með þetta sjónarmið að leiðarljósi hafi það verið álit fjölskylduráðs Hafnarfjarðar að aðstæður á heimili kæranda væru ekki þess eðlis að þörf væri fyrir félagslega heimaþjónustu þó ekki léki vafi á því að annasamt væri á heimilinu og hafi beiðni kæranda því verið synjað, sbr. 4. gr. og a-lið 10. gr. reglnanna.

 

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort fjölskylduráði Hafnarfjarðar beri að veita kæranda heimaþjónustu. Hefur kærandi meðal annars lagt fram vottorð sérfræðinga þar sem fram kemur að hún hafi þurft á aðstoð að halda í kjölfar fjölburafæðingar og bráðaaðgerðar sem hún þurfti að gangast undir skömmu eftir fæðinguna. Þá hefur jafnframt verið upplýst að félagsþjónusta Hafnarfjarðar fór aldrei á heimili kæranda og að aldrei fór fram mat á því hvort aðstæður kæranda voru með þeim hætti sem hún hefur haldið fram. Sýnist ákvörðun kærða á því einu byggð að á heimili kæranda hafi búið annar fullorðinn og fullfrískur einstaklingur, eiginmaður kæranda, og að ekkert hafi gefið til kynna að hann væri í þörf fyrir heimaþjónustu, annað en augljósar annir á heimilinu vegna fæðingar tvíbura og veikinda móður. Af þeim sökum hafi kæranda þegar verið hafnað.

Í 25. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um félagslega heimaþjónustu til handa þeim sem búi í heimahúsum og geti ekki séð hjálparlaust um heimilishald og persónulega umhirðu vegna skertrar getu, fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda, barnsburðar eða fötlunar. Í 28. gr. laganna segir að áður en aðstoð sé veitt skuli sá aðili, sem fari með heimaþjónustu, meta þörfina í hverju einstöku tilviki. Í 29. gr. laganna er sveitarstjórn gert að setja nánari reglur um framkvæmd félagslegrar heimaþjónustu. Fjölskylduráð Hafnarfjarðar setti sér reglur um félagslega heimaþjónustu í Hafnarfirði og tóku þær gildi 1. október 2007.

Það er álit úrskurðarnefndarinnar að fullt tilefni hafi verið til þess að rannsaka mál kæranda betur áður en ákvörðun var tekin, til þess að kanna hvort kærandi hefði raunverulega þörf fyrir þá aðstoð sem hún sótti um. Að mati úrskurðarnefndarinnar er ekki nóg að vísa til þess eins að á heimili kæranda hafi verið annar fullfrískur einstaklingur sem ekki væri í þörf fyrir aðstoð, enda lágu fyrir stjórnvaldinu vottorð sérfræðinga þar sem skýrt var tekið fram að slík aðstoð væri æskileg og í reynd nauðsynleg. Verður ekki á það fallist að í því hafi falist raunverulegt mat skv. 28. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991.

Ekki verður talið að úr þessum annmarka verði bætt á vettvangi úrskurðarnefndarinnar. Því er nauðsynlegt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu aftur til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar til löglegrar meðferðar.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn. 

 

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun fjölskylduráðs Hafnarfjarðar frá 22. september 2010, í máli A, er felld úr gildi og málinu vísað aftur til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar til löglegrar meðferðar. 

 

Ása Ólafsdóttir,

formaður

  

Margrét Gunnlaugsdóttir                                          Gunnar Eydal

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta