Reglugerð um vegi í náttúru Íslands tekur gildi
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur undirritað nýja reglugerð um vegi í náttúru Íslands samkvæmt lögum um náttúruvernd.
Með innleiðingu og framkvæmd reglugerðarinnar verður til skrá um vegi aðra en þjóðvegi í náttúru Íslands þar sem umferð vélknúinna ökutækja er heimil. Reglugerðin kveður á um að við gerð aðalskipulags eða svæðisskipulags gera sveitarfélög tillögu að slíkri skrá í víðtæku samráði við m.a. félaga- og hagsmunasamtök og stofnanir.
Við mat á því hvort vegir eigi heima á skránni skal sérstaklega líta til þess hvort akstur á þeim sé líklegur til að valda neikvæðum áhrifum á náttúru, s.s. raska gróðri, valda jarðvegsrofi eða hafa neikvæð áhrif á ásýnd og landslag. Vegirnir verða flokkaðir í fjóra flokka m.a. eftir greiðfærni. Einnig þarf að tiltaka hvort um opna vegi eða vegi með takmarkaða notkun sé að ræða. Þó svo að akstur sé heimilaður á vegum skv. skránni felur það ekki í sér að þeir séu færir öllum vélknúnum ökutækjum og leiða ekki til ábyrgðar ríkis eða sveitarfélaga á viðhaldi þeirra.
Vegagerðin heldur skrá yfir þessa vegi í stafrænum kortagrunni og veitir almenningi aðgang að skránni í gegnum vefþjónustu bæði til skoðunar og niðurhals.
Reglugerð nr. 260/2018 um vegi í náttúru Íslands samkvæmt lögum um náttúruvernd.