Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2012 Innviðaráðuneytið

Banaslysum í umferðinni hefur fækkað undanfarin ár

Banaslysum í umferðinni hefur fækkað undanfarin ár að því er fram kemur í ársskýrslu Rannsóknarnefndar umferðarslysa fyrir síðasta ár. Skýringuna segir nefndin meðal annars vera þá að unnið hefur verið að ýmsum umbótum samkvæmt umferðaröryggisáætlun, slysum á ákveðnum vegum hefur fækkað í kjölfar breikkunar þeirra, akstursstefnur hafa verið aðskildar og löggæslumyndavélum hefur verið fjölgað.

Banaslysum hefur fækkað í flestum landshlutum síðustu árin.
Banaslysum hefur fækkað í flestum landshlutum síðustu árin.

Árið 2011 létust 12 manns í 12 umferðarslysum á Íslandi. Áberandi var hversu hátt hlutfall ungra vegfarenda var í banaslysum þetta árið. Af þeim tólf sem létust, voru sex 17 ára eða yngri. Því er mjög brýnt að vinna stöðugt að öflugum forvörnum meðal ungra vegfarenda, segir meðal annars í skýrslunni.

Banaslysamynd-fra-RNU-2011

Fjögur af tólf slysum urðu með þeim hætti að ekið var á gangandi vegfaranda og í einu slysi ók vegfarandi útaf á bifhjóli og féll af því. Vegna þessa leggur nefndin sérstaka áherslu á umferðaröryggi óvarinna vegfarenda í skýrslum um einstök banaslys. Þá voru fjögur banaslys ársins 2011 vegna útafaksturs bifreiða en þrjú vegna áreksturs tveggja bifreiða eða fleiri.

Í skýrslu Rannsóknarnefndar umferðarslysa er borið saman hvar á landinu banaslysum hefur fækkað undanfarin 10 ár. Borin eru saman meðatöl banaslysa yfir tvö fimm ára skeið, 2002-2006 og 2007-2011. Banaslysum hefur fækkað í öllum landshlutum en þó mest á Suðvesturlandi. Ætla má að vegabætur eigi stóran þátt í þróuninni, t.a.m á Reykjanesbraut, Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi. Vegirnir hafa verið breikkaðir að hluta og akstursstefnur aðgreindar. Þá hefur hraðamyndavélum verið fjölgað til viðbótar hefðbundinni löggæslu. Rifflur hafa verið skornar milli akreina (fyrir umferð úr gagnstæðri átt) og svokallaðir beygjuvasar settir við nokkur vegamót. Allt eru þetta aðgerðir sem draga úr umferðarslysum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta