Tuttugu erindi á rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar
Rannsóknaráðstefna Vegagerðarinnar fór fram í dag í Reykjavík og eru þar flutt 20 erindi um margvíslegar rannsóknir á sviði veghönnunar, umferðaröryggismál, umhverfismála og um almenningssamgöngur. Þórir Ingason, forstöðumaður hjá Vegagerðinni, sagði í upphafsávarpi að 123 milljónum hefði verið úthlutað til rannsóknarverkefna en kveðið er á um það í vegalögum að 1,5% af mörkuðum tekjum til vegamála skuli renna til rannsókna- og þróunarstarfs og er ráðstefnunni ætlað að endurspegla afrakstur hluta þess starfs.
Meðal þeirra sem kynntu verkefni voru Auður Þóra Árnadóttir, forstöðumaður umferðardeildar hjá Vegagerðinni, og Guðni P. Kristjánsson, verkfræðingur hjá Hnit, og sögðu þau frá leiðbeiningum um umferðaröryggisúttekt og um lagfæringar á umhverfi vega. Fram kom að umferðaröryggisúttekt væri einn þáttur í umferðaröryggisstjórnun en hún felst í því að skoða vegakerfið reglulega þar sem sjónum er beint að ýmsum öryggisþáttum á vegi eða við veg. Er markmiðið að finna staði sem hætt er viðslysum og gera áætlun um lagfæringar.
Claudia Georgsdóttir sálfræðingur og Tinna Jóhönnudóttir, sálfræðinemi á Landspítala kynntu forrannsókn á þýðingu þess að taka upp tölvustýrt mat á ökuhæfni. Fram kom að tölvustýrt forrit sem þróað hefur verið í Austurríki sé einstakt aðferðafræðilegt framfaraskref í þá átt að þróa réttmætt mat á aksturshæfni. Með styrk frá rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar var forritið keypt og stendur nú yfir frekari rannsókn á því hvernig það nýtist til að meta aksturshæfni sjúklinga sem fengið hafa heilablóðfall eða heilaskaða. Slíkir sjúkdómar geta haft töluverðar afleiðingar á sjón, skynjun og fleira. Eru vonir bundnar við að þessi tækni geti bætt mat á ökuhæfni og þar með verið liður í auknu umferðaröryggi.
Meðal annarra efna sem kynnt voru á ráðstefnunni má nefna kynningu á handbók um bifhjól, vegbúnað og umferðaröryggi, miðlun upplýsinga til vegfarenda um bílútvarp og jökulvötn og samgöngur.