Hoppa yfir valmynd
26. október 2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 74/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 26. október 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 74/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 4. maí 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra sé ávinnsla hennar til atvinnuleysisbóta 86%, en vegna mannlegra mistaka hafi bótaréttur hennar verið hækkaður úr 84% í 100% sem hafi ekki verið rétt. Vísað var til 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi óskar í kæru sinni, dags. 10. maí 2010, eftir því að farið verði yfir rétt hennar til atvinnuleysisbóta og hann leiðréttur að nýju í 100%. Vinnumálastofnunar krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 3. júní 2008. Bótaréttur hennar var ákvarðaður 84% í samræmi við framlögð gögn. Bótaréttur hennar var hækkaður úr 84% í 100% þann 19. mars 2009 án þess að séð verði af gögnum málsins að komið hafi fram nýjar upplýsingar sem réttlættu hækkunina. Mistökin uppgötvuðust 28. apríl 2010 og voru þau leiðrétt á þann veg að bótaréttur kæranda er nú reiknaður 86% í samræmi við vinnu hennar á ávinnslutímabilinu.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 30. september 2010, er bent á að í 2. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um ávinnslutímabil launamanns sem hefur ekki unnið í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sæki um greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun. Í 4. mgr. 15. gr. sömu laga sé mælt nánar fyrir um hvernig hlutfall bótaréttarins sé reiknað. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segi nánar um 15. gr. laganna að hafi umsækjandi ekki verið í sama starfshlutfalli á ávinnslutímabilinu skuli taka mið af meðalstarfshlutfalli hans á tímabilinu. Hlutfallslegur réttur innan kerfisins hafi síðan áhrif á fjárhæð atvinnuleysisbóta skv. 32. og 33. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Lagt sé til að Vinnumálastofnun leiti staðfestingar hjá skattyfirvöldum á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda er álagningin liggi fyrir að því er varði ávinnslutímabilið. Þannig geti komið til að atvinnuleysisbætur verði leiðréttar til hækkunar eða lækkunar eftir atvikum í samræmi við álagningu skattyfirvalda, sbr. 39. gr. frumvarpsins.

Sökum villu í tölvukerfi Vinnumálastofnunar hafi kæranda verið greiddar atvinnuleysistryggingar líkt og hún væri með 100% bótarétt. Ávinnsla kæranda nái 86% og megi sjá útreikning á tryggingarhlutfalli kæranda í fyrrliggjandi gögnum málsins. Af samskiptasögu kæranda við Vinnumálastofnun megi sjá að það séu upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra sem sýni að ávinnsla kæranda til atvinnuleysisbóta nemi ekki nema 86% og sé bótaréttur hennar leiðréttur í kjölfarið.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. október 2010, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 18. október 2010. Kærandi hefur ekki nýtt sér það.

 

2.

Niðurstaða

Vegna mistaka Vinnumálastofnunar var bótahlutfall kæranda hækkað úr 84% í 100% í mars 2010. Þessi mistök voru leiðrétt rúmum mánuði síðar. Kærandi telur sig eiga rétt á 100% bótum en Vinnumálastofnun hefur talið hana eiga rétt á 86% bótum frá og með 28. apríl 2010.

Í lögum um atvinnuleysistryggingar eru ákvæði sem mæla fyrir um hvernig meta eigi ávinnslutímabil atvinnuleitanda og hvað skuli gera ef atvinnuleitandi af einhverjum ástæðum fær lægri eða hærri bótagreiðslur en hann á rétt á, sbr. 15. gr. laganna og 39. gr. laganna. Mistök Vinnumálastofnunar, sem leiða til þess að atvinnuleitandi fær greitt hærra bótahlutfall en ella, gera ekki að verkum að atvinnuleitandi öðlast rétt til slíkra greiðslna um ófyrirsjáanlega framtíð. Vinnumálastofnun hefur heimild til að breyta ákvörðun sem er röng að efni til.

Með vísan til framangreinds sem og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun verður hún staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 4. maí 2010 þess efnis að hlutfall atvinnuleysisbóta A skuli vera 86% er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta