Framlög til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni aukin um 450 m.kr.
Ákveðið hefur verið að auka framlög til heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni sem nemur 450 milljónum króna umfram það sem áður var gert ráð fyrir í fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Meiri hluti fjárlaganefndar hefur lagt fram tillögu þessa efnis og er hún til umfjöllunar við aðra umræðu um fjárlög næsta árs sem nú stendur yfir á Alþingi.
Framlögin skiptast þannig að 200 milljóna króna framlag rennur til þess að styrkja heilsugæsluþátt heilbrigðisstofnananna og 200 milljónir króna til að styrkja sjúkrasvið þeirra. Auk þessa fær Sjúkrahúsið á Akureyri 50 milljónir króna til að efla og þróa sérhæfða göngudeildarþjónustu spítalans.
„Það er forgangsmál að allir landsmenn fái notið góðrar heilbrigðisþjónustu, óháð efnahag og búsetu. Þetta viðbótarframlag styður við þá stefnu“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.