Mál nr. 2/2004
Álit kærunefndar jafnréttismála
í máli nr. 2/2004
A
gegn
Fræðslumiðstöð Reykjavíkur
-----------------------------------------------------------------
Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 29. apríl 2004 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:
I
Inngangur
Með kæru, dags. 27. desember 2003, sem barst kærunefnd jafnréttismála, 12. janúar 2004, óskaði kærandi, A, eftir því að kærunefnd jafnréttismála kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning í stöðu starfsmanns hjá tölvudeild Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur brjóti gegn ákvæðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.
Kæran var kynnt Fræðslumiðstöð Reykjavíkur með bréfi, dags. 19. janúar 2004. Með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 96/2000 var óskað eftir afriti af auglýsingu um starfið, upplýsingum um fjölda og kyn þeirra sem sóttu um stöðuna, upplýsingum um hvaða kröfur voru gerðar til umsækjanda varðandi menntun, starfsreynslu og sérstaka hæfileika, afriti af umsóknargögnum þess sem skipaður var í stöðuna, upplýsingum um það á hvaða þætti lögð hafi verið áhersla við hæfnismat umsækjenda og hvað hafi ráðið vali þess sem ráðinn var í starfið, hæfnisröð umsækjenda hafi þeim verið raðað og fjölda og kyn starfsmanna hjá tölvudeild Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur. Þá var óskað eftir afstöðu Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur til erindis kæranda og upplýsingum um hvað annað sem Fræðslumiðstöðin vildi koma á framfæri og teldi til upplýsinga fyrir málið.
Svar barst með bréfi B, deildarstjóra tölvudeildar Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur, dags. 11. febrúar 2004.
Með bréfi, dags. 13. febrúar 2004, var kæranda kynnt umsögn Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur og honum gefinn kostur á að koma frekari athugasemdum á framfæri. Hinn 26. febrúar 2004 barst kærunefnd jafnréttismála ódagsett bréf kæranda með frekari athugasemdum hans. Fræðslumiðstöð Reykjavíkur var með bréfi, dags. 1. mars 2004, gefinn kostur á að koma frekari athugasemdum á framfæri og var það gert með bréfi dagsettu 12. mars 2004.
Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála og var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.
II
Málavextir
Starf hjá tölvudeild Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur var auglýst laust til umsóknar í Morgunblaðinu 6. apríl 2003. Fram kom í uglýsingunni að starfið væri tímabundið og að það fælist einkum í þjónustu og rekstri á miðlægum miðlurum skólanetsins ásamt almennri net- og notendaþjónustu. Fræðslumiðstöð ræki ljósleiðaranet og veiti í gegnum það þjónustu við grunn- og sérskóla í borginni. Núverandi net samanstandi af 40 miðlægum miðlurum ásamt 32 dreifðum miðlurum innan skólanna. Einnig kom fram að gerðar væru kröfur um þekkingu og reynslu af rekstri netkerfa, Windows-miðlara og Linux-miðlara og að þekking á Novell-netkerfi væri einnig æskileg. Þá kom fram í auglýsingunni að í jafnréttisstefnu Reykjavíkurborgar væri meðal annars lögð áhersla á að jafna kynjahlutfall innan starfsstétta og í ljósi þess væru konur sérstaklega hvattar til að sækja um ofangreint starf.
Umsækjendur um starfið voru 19, 16 karlar og 3 konur, samkvæmt upplýsingum kærða til kærunefndar jafnréttismála. Þeir umsækjendur sem komu til greina í starfið komu í viðtal við tvo fulltrúa Fræðslumiðstöðvar, D mannauðsráðgjafa og B, deildarstjóra tölvudeildar. Lagðar voru bæði staðlaðar og almennar spurningar fyrir umsækjendur og þeim forgangsraðað út frá þeim viðtölum. Kærandi og sú sem ráðin var voru efst í þeirri forgangsröðun. Í bréfi D til kæranda, dags. 7. maí 2003, var honum tilkynnt að hann hlyti ekki starfið. Kærandi sendi í kjölfarið skriflega fyrirspurn varðandi ráðninguna til Fræðslumiðstöðvar, dags. 12. maí 2003, og var honum svarað með bréfi, dags. 6. júní 2003. Kærandi undi ekki við skýringar Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur og kærði ráðninguna til kærunefndar jafnréttismála.
III
Sjónarmið kæranda
Af hálfu kæranda er á því byggt að Fræðslumiðstöð Reykjavíkur hafi brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, með því að ráða konu í starf hjá tölvudeild Fræðslumiðstöðvarinnar. Kærandi hafi, á þeim tíma sem ráðningin fór fram, verið um það bil að útskrifast með B.Sc.-gráðu í tölvunarfræðum frá Háskóla Íslands og hafi formlega lokið því námi í júní 2003. Hann hafi jafnframt haft menntun í rafeindavirkjun og einnig sótt námskeið í kerfisumsjón fyrir það netstýrikerfi sem Fræðslumiðstöð Reykjavíkur noti. Hafi hann þannig staðið þeirri sem starfið hlaut framar hvað menntun áhrærir þar sem hún hafi einvörðungu lagt stund á nám í tölvunarfræðum við Háskóla Íslands og hafði ekki lokið því námi er ráðning fór fram. Með vísan til þessa geti hann ekki séð með hvaða rökum kærði mat þau jöfn varðandi menntun.
Kærandi telur að gengið hafi verið framhjá sér við ráðningu í starfið einnig þegar litið sé til starfsreynslu. Í ferilskrá kæranda er gerð ítarleg grein fyrir starfsreynslu hans. Þar kemur meðal annars fram að kærandi hafi unnið sem rafeindavirki árin 1994 til 1996 og síðan einnig í sumarvinnu árin 1997 til 2002. Hann hafi verið tölvuumsjónarmaður í Breiðholtsskóla í hlutastarfi árin 1998 til 2002. Að sumarlagi 1999 og 2000 hafi hann unnið sem rekstrarmaður hjá Áliti hf. og sinnt daglegum rekstri tölvukerfa ISAL, rekstri netþjóna, afritunum, uppsetningu og viðhaldi útstöðva. Frá janúar 2001 til apríl 2003 hafi kærandi síðan unnið sem kerfisstjóri hjá nokkrum fyrirtækjum og skólum, ýmist í sumarvinnu eða í hlutastarfi og við afleysingar kerfisstjóra. Fram kemur af hálfu kæranda að þessa vinnu hafi hann stundað samhliða námi í tölvunarfræðum í Háskóla Íslands.
Af hálfu kæranda er því haldið fram að aðrir hæfnisþættir hafi verið metnir út frá 10 einföldum og takmörkuðum spurningum í 15 mínútna starfsviðtali. Kærandi dregur í efa að unnt sé að meta hæfni í mannlegum samskiptum með þeim hætti, en kærði hafi byggt á því að kærandi hafi lent í fjórða sæti af þeim fimm sem komu í viðtal vegna starfsins. Bendir kærandi á að hæfni í mannlegum samskiptum geti ekki ráðið úrslitum í þessum efnum. Þeir sem tóku viðtalið hafi ekki þekkt til hans persónulega en hafi þrátt fyrir það ekki leitað til meðmælenda hans. Þá mótmælir hann því að samstarfsörðugleikar hafi verið milli hans og starfsmanna tölvudeildar eða árekstrar þegar hann starfaði sem umsjónarmaður tölvukerfis Breiðholtsskóla. Vísar hann til samskipta við fyrrum deildarstjóra tölvudeildar máli sínu til stuðnings í þessum efnum.
IV
Sjónarmið kærða
Kærði, Fræðslumiðstöð Reykjavíkur, bendir sérstaklega á að umrætt starf hafi verið tímabundið til sex mánaða og samkvæmt reglum sem gildi um auglýsingar lausra starfa hjá Reykjavíkurborg hafi ekki verið skylt að auglýsa starfið. Í greinargerð kærða, dags. 11. febrúar 2004, kemur fram að í auglýsingunni um starfið hafi verið lýst helstu áherslum sem lagðar hafi verið til grundvallar við mat á umsóknum. Sérstaklega hafi verið litið til menntunar, kyns og starfsreynslu. Varðandi það hvað hafi ráðið vali kærða á umsækjanda kom fram hjá kærða að konur hafi verið hvattar til að sækja um starfið og hafi verið fyrir því tvær ástæður. Annars vegar að í jafnréttisstefnu Reykjavíkurborgar sé lögð áhersla á að jafna kynjamun en í tölvudeild kærða hafi starfað fjórir karlar en engin kona. Hin ástæðan sé að margar konur séu umsjónarmenn tölvukerfa í skólum og hafi þær margoft komið þeirri athugasemd á framfæri að æskilegt væri að kona starfaði í tölvudeild kærða. Eitt meginstarf tölvudeildar kærða sé að veita grunnskólum þjónustu og séu starfsmenn deildarinnar í nánu samstarfi við umsjónarmenn tölvukerfa í skólunum. Við mat á umsækjendum hafi verið tekið tillit til þessara sjónarmiða.
Nánar um það hvernig staðið var að ráðningu segir í greinargerð kærða að umsækjendur sem komið hafi til greina hafi verið boðaðir í viðtal við tvo fulltrúa kærða. Lagt hafi verið mat á umsækjendur út frá menntun, reynslu og hæfni í mannlegum samskiptum og þeim forgangsraðað út frá þeim sjónarmiðum, en jafnframt hafi verið litið til kynferðis umsækjenda eins og áður gat. Hafi kærandi og sú sem ráðin var lent efst í forgangsröðun varðandi menntun. Báðir umsækjendur hafi verið á lokaári B.Sc.-náms í tölvunarfræði við Háskóla Íslands og þau því talin jöfn að þessu leyti. Kæranda hafi jafnframt verið kynnt í viðtalinu að fleiri þættir en menntun og reynsla kæmu til greina vegna ráðningarinnar. Umsækjendur hafi verið spurðir tíu staðlaðra spurninga sem lutu meðal annars að hæfni í mannlegum samskiptum. Í þeim samanburði hafi kærandi lent í fjórða sæti af þeim fimm sem komu í viðtal. Deildarstjóri tölvudeildar hafi metið umsækjendur svo að sá umsækjandi sem ráðinn var hafi verið hæfastur umsækjenda. Kærði telur að eðlilega og málefnalega hafi verið staðið að ráðningu í umrætt starf. Hæfasti umsækjandinn hafi verið ráðinn úr hópi umsækjenda og við þessa ráðningu hafi kona verið talin hæfust til starfsins.
Loks kemur fram í greinargerð kærða að þegar valið hafi staðið milli kæranda og þess sem ráðin var hafi tveir þættir haft verulega þýðingu. Annars vegar að afstaða starfsmanna tölvudeildar til kæranda hafi verið neikvæð en sú afstaða hafi byggst á þeirri reynslu sem tölvudeild hafði haft af samskiptum við kæranda þegar hann var tölvuumsjónarmaður Breiðholtsskóla. Ekki var efast um faglega hæfni hans heldur hafi starfsmenn tölvudeildar ekki treyst sér til að vinna með honum og hafi sú afstaða verið rökstudd með tilvitnunum í árekstra sem upp hafi komið í samskiptum við kæranda meðan hann gegndi fyrrnefndu starfi við Breiðholtsskóla. Þetta sjónarmið hafi síðan fengið stuðning í stöðluðum spurningum í áðurnefndu starfsviðtali. Heildarmat kærða hafi því verið að sú sem ráðin var hafi verið hæfust til starfsins.
Í greinargerð kærða er ekki tekin afstaða til starfsreynslu kæranda í samanburði við þá sem ráðin var.
V
Niðurstaða
Í 1. mgr. 1. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, kemur fram að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Val atvinnurekenda á starfsmönnum hefur mikla þýðingu við jöfnun á stöðu kynjanna og eru þeim því lagðar skyldur á herðar að þessu leyti. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laganna skulu atvinnurekendur vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.
Við mat á því hvort um mismunun á grundvelli kynferðis sé að ræða við framangreindar aðstæður hefur verið litið til þeirra kosta sem umsækjendur hafa og er þá einkum litið til menntunar umsækjenda og starfsreynslu, svo og annarra sérstakra kosta eftir því sem við á í hverju tilviki. Við það mat ber að taka tillit til málefnalegra sjónarmiða meðal annars í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.
Samkvæmt 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga. Breytir í því sambandi engu hvort skylt er að auglýsa starf laust til umsóknar samkvæmt reglum viðkomandi atvinnurekanda eða ekki.
Í máli þessu liggja fyrir gögn um menntun kæranda og þess sem ráðinn var, auk þess sem gögn liggja fyrir um starfsreynslu sömu aðila. Hvað menntun áhrærir eru kærandi og sú sem ráðin var næsta ámóta en kærandi þó sjónarmun betur menntaður. Kemur þar til að hann hefur próf í rafeindavirkjun og hefur sótt námskeið í rekstri Novell-netkerfis sem sérstaklega var getið í auglýsingu um starfið að æskilegt væri að umsækjendur kynnu skil á. Er lýtur að starfsreynslu hins vegar verður kærandi að teljast standa betur að vígi en sú sem starfið hlaut. Hann hafði unnið margháttuð störf með námi sem flest lutu að kerfisstjórn tölvubúnaðar, þar á meðal í tvígang sinnt starfi kerfisstjóra hjá tölvunarfræðiskor Háskóla Íslands vetrarlangt og um fjögurra ára skeið sinnt starfi tölvuumsjónarmanns Breiðholtsskóla í hlutastarfi. Hafði hann þannig bæði nokkra þekkingu og nokkra reynslu af netkerfi, Windows-miðlara og Novell-netkerfi og fullnægði því þeim sérstaka áskilnaði sem gerður var í auglýsingu um starfið. Sú sem starfið hlaut hafði í tvígang unnið í sumarvinnu við forritun í Navision-hugbúnaði en hafði enga reynslu af starfi með áðurnefndan hugbúnað. Með hliðsjón af ofanrituðu sýnist ljóst að kærandi hafi staðið þeirri sem starfið hlaut framar bæði er varðar menntun og starfsreynslu.
Í máli þessu hefur verið á því byggt af hálfu kærða að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun um að ráða kæranda ekki til starfa. Er þar vísað til meintra árekstra hans við starfsmenn tölvudeildar Fræðslumiðstöðvar og meintra samskiptaörðugleika við hann. Kærandi kannast ekki við þessar ávirðingar. Telur hann sig einvörðungu hafa deilt málefnalega á framkvæmd verka á vegum tölvudeildar þegar tilefni hafi gefist til og staðhæfir að engir árekstrar eða samstarfsörðugleikar hafi átt sér stað. Vísar hann máli sínu til stuðnings til þáverandi deildarstjóra tölvudeildarinnar. Jafnframt mótmælir hann því að núverandi deildarstjóri tölvudeildar hafi verið þess umkominn að leggja mat á hæfni hans í mannlegum samskiptum, án þess að ræða við meðmælendur, þar sem þeir hafi fyrst hist í starfsviðtali vegna umsóknar kæranda.
Að mati kærunefndar jafnréttismála kunna atvik við ráðningu að vera með þeim hætti að sérstakar ástæður hafi áhrif á mat atvinnurekanda, bæði þannig að sérstakir kostir eru teknir fram yfir heildstætt mat á menntun og reynslu og jafnframt ef talið er að sérstakir ókostir séu því samfara að ráða tiltekinn umsækjanda til starfs. Er þá haft í huga að það er í verkahring yfirmanns stofnunar að meta hvers eðlis þörf viðkomandi vinnustaðar er fyrir starfsfólk og hann ber almennt ábyrgð á því að náð verði þeim markmiðum sem sett eru í rekstri, þjónustu eða annarri starfsemi viðkomandi vinnustaðar, einkum ef um er að ræða ráðningu í tímabundið starf.
Þrátt fyrir að kærða hafi verið kynnt andmæli kæranda hefur kærði ekki fært fram nein frekari rök eða gögn máli sínu til frekari stuðnings um meinta samstarfsörðugleika eða árekstra við kæranda. Að mati kærunefndar jafnréttismála geta umrædd sjónarmið kærða, eins og mál þetta liggur fyrir nefndinni, því ekki ráðið úrslitum í máli þessu andspænis meiri menntun og starfsreynslu kæranda við mat á því hvort fullnægt er áskilnaði 3. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000.
Kærði hefur í samræmi við jafnréttisáætlun Reykjavíkurborgar einsett sér að jafna kynjahlutfall innan starfsstétta. Er það og í samræmi við 13. gr. laga nr. 96/2000. Liggur fyrir að kærði telur sig hafa verið að stuðla að því markmiði með því að ráða konu í því tilviki sem hér er til umfjöllunar. Þess verður þó ætíð að gæta í slíkri viðleitni að ganga ekki á svig við meginreglu laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þannig að umsækjandi sem stendur öðrum af gagnstæðu kyni að baki hvað menntun og starfsreynslu áhrærir sé þrátt fyrir það valinn nánast einvörðungu á grundvelli kynferðis, þar sem kyn þess umsækjanda sé í minnihluta í viðkomandi starfsstétt. Með vísan til þess verður það ekki talið málefnanlegt sjónarmið eitt og sér sem leggja megi til grundvallar við ráðningu að óskir séu uppi af hálfu umsjónarmanna tölvukerfa í grunnskólum Reykjavíkur um að eiga samskipti við konu hjá tölvudeild kærða.
Með hliðsjón af ofanrituðu er það álit kærunefndar jafnréttismála að leiddar hafi verið líkur að beinni mismunun vegna kynferðis við ráðningu í starf hjá kærða. Ekki hefur verið sýnt fram á að málefnanleg rök hafi staðið til þess að líta fram hjá kæranda við umrædda ráðningu í stöðu hjá tölvudeild Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur. Er það því álit kærunefndarinnar að kærði hafi brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 24. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, sbr. 3. mgr. 24. gr. sömu laga.
Kærunefnd jafnréttismála beinir þeim tilmælum til Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur að viðunandi lausn verði fundin á málinu.
Ragnheiður Thorlacius
Björn L. Bergsson
Ása Ólafsdóttir