Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 22/2004 - Barnalífeyrir

A

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r

 

Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir   og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

 

Með bréfi til Úrskurðarnefndar almannatrygginga dags. 21. janúar 2004 kærir B, hrl. f.h. A synjun Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslu barna­lífeyris til hans með sonum hans tveimur.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru eftirfarandi skv. kæru:

 

„  Skjólstæðingur okkar fer með sameiginlega forsjá með sonum hans tveimur, C og D, ásamt barnsmóður, E, skv. skilnaðarsamkomulagi þar um. Skjólstæðingur okkar og E slitu samvistum í ágúst 1996. Drengirnir hafa haft lögheimili hjá móður, en dvelja að jafnaði álíka langan tíma á ári hjá föður. Skv. samkomulagi milli aðila sem staðfest var hjá sýslumanninum í Reykjavík 18.12.96 þá skulu drengirnir hafa lögheimili hjá móður og skyldi skjólstæðingur okkar greiða með þeim meðlag eins og barnalífeyrir samkvæmt lögum um almannatryggingar ákvarðast hverju sinni, frá 1. janúar 1997 til 18 ára aldurs.

 

Breytingar urðu á högum skjólstæðings okkar þegar hann greindist með krabbamein 1998 og var honum metin tímabundin örorka í kjölfar þess frá febrúar 1999 og síðan varanlega frá júní 2002.”

 

Með bréfi til Tryggingastofnunar dags. 14. október 2003 óskaði kærandi eftir greiðslu barnalífeyris  með drengjunum sínum tveimur.  Tryggingastofnun synjaði með bréfi dags. 4. desember 2003.

 

Í rökstuðningi með kæru segir:

 

„  Skjólstæðingur okkar telur ekki lagaheimild fyrir synjun þessari. Telur hann að barnalífeyri skuli greiða til foreldris, enda sé barn á framfæri þess, og er ekki gert að skilyrði að barn skuli hafa lögheimili hjá framfæranda. Það er óumdeilt að skjólstæðingur okkar er framfærandi drengjanna tveggja til jafns við móður, enda dvelja þeir skv. samkomulagi foreldra, bæði skriflegu frá 28.11.96 og munnlegu samkomulagi þeirra síðan, fullan helming árs hjá föður. Hann er þannig framfærandi í skilningi almannatryggingalaga og ber að greiða honum barnalífeyri í samræmi við það.

 

Ákvæði laga verður einnig að skilja í ljósi þess fyrirkomulags sem foreldrar urðu ásáttir um, þ.e. að þau fara sameiginlega með forsjá drengjanna tveggja. Vegna örorku og með synjun TR um greiðslu barnalífeyris, er skjólstæðingi okkar gert næsta ómögulegt nú að uppfylla framfærsluskyldu þá sem hann hefur tekist á hendur með sameiginlegri forsjá. Sá getur ekki verið tilgangur 14. gr. laga 117/1993 að gera örorkulífeyrisþegum erfitt fyrir að uppfylla framfærsluskyldu foreldris sem það hefur tekist á hendur skv. sambúðarslita­samningi milli foreldra og hvílir á því gagnvart börnum lögum samkvæmt. Með því að TR skuli synja skjólstæðingi okkar um barnalífeyri, á þeirri forsendu einni að börnin eigi ekki lögheimili hjá föður, þrátt fyrir þá staðreynd að framfærsluskylda hvíli á báðum foreldrum, skjólstæðingur okkar sannarlega framfærir börn sín þegar þau dvelja hjá honum til jafns við móður og ákvæði laga kveða á um að greiða skuli barnalífeyri til framfæranda án undantekninga, þá telur skjólstæðingur okkar að verið sé að brjóta á honum rétt sem honum er tryggður skv. almannatryggingalögum og honum þar með meinað að uppfylla lagaskyldur sem hann hefur undirgengist og á honum hvíla skv. barnalögum. Slíkt er brot gegn jafnræði foreldra sem hafa skilyrðislaust gengist undir jafna ábyrgð og skyldur á uppeldi og framfærslu barna sinna. Ef stöðu annars foreldris er að þessu leyti raskað án ótvíræðrar lagastoðar, og það jafnvel þótt slík lagastoð kunni að finnast, þá er hér um að ræða brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar sbr. 65, gr. hennar sbr. og brot á 76. gr. sömu laga nr. 33/1944.

Einnig þykir hér rétt að geta bréfs TR dags. 25. júní s.l. þar sem fram kemur að almennt gildi sú regla að barnalífeyrir er greiddur þar sem lögheimili barna er. Hver er undantekningin frá þeirri reglu ef einhver er? Það skal eigi að síður ítrekað að ekki verður séð að þessi meginregla hafi yfirleitt lagastoð og eigi að ganga framar rétti skjólstæðings okkar til greiðslu barnalífeyris úr hendi TR.

 

Þrátt fyrir að meðlagsskylda hafi hvílt á föður í upphafi skv. sambúðarslita­samkomulagi aðila frá 1996, þá breyttust forsendur hennar við að hann féll út af vinnumarkaði og varð örorkulífeyrisþegi.”

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 22. janúar 2004 eftir greinargerð Trygginga­stofnunar.

 

Greinargerðin er dags. 27. janúar 2004.  Þar segir:

 

„  Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 er barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en 18 ára ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi. Samkvæmt 5. mgr. 14. gr. greiðist barnalífeyrir foreldrum barnanna, enda séu þau á framfæri þeirra, eða öðrum sem annast framfærslu þeirra að fullu.

 

Barnalífeyrir vegna örorku kæranda er greiddur móður barna þeirra Byggja þær greiðslur annars vegar á samningi aðila frá 18. desember 1996 þess efnis að kærandi greiði henni meðlag með börnunum og hins vegar á þeirri staðreynd að bæði börnin eru með lögheimili hjá móður. Upplýsingar hafa ekki borist um breytingu á þeim samningi og þar sem börnin hafa lögheimili hjá móður er óheimilt samkvæmt 14. gr. almannatryggingalaga að breyta því hverjum barnalífeyrir greiðist.

Í þeim tilvikum þegar meðlagsskylt foreldri verður öryrki greiðist barnalífeyrir til þess foreldris sem á rétt á meðlagsgreiðslum og koma þær greiðslur í stað meðlags. Væru greiðslur barnalífeyris stöðvaðar til móður drengjanna og greiddar kæranda yrði að virkja meðlagssamning aðila á ný, þar sem bæði börnin eru með lögheimili hjá móður og kærandi er meðlagsskyldur með þeim.

Þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá barna sinna er gert ráð fyrir að samkomulag ríki milli þeirra um helstu atriði er varða hagsmuni barnanna, þar með talið framfærslu þeirra. Börnin hafa lögheimili hjá öðru foreldrinu og nýtur það réttarstöðu einstæðs foreldris, m.a. til að taka við greiðslum frá hinu opinbera. Bætur almannatrygginga, þar með talinn barnalífeyrir, eru samkvæmt þessu greiddar því foreldri sem börn hafa lögheimili hjá.”

 

Greinargerðin var send lögmanni kæranda með bréfi dags. 2. febrúar 2004 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum.  Slíkt barst ekki.

 

 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslu barnalífeyris til kæranda.  Kærandi fer ásamt fyrrum sambýliskonu sinni sameiginlega með forsjá tveggja sona þeirra og ber að greiða með þeim meðlag sbr. staðfest samkomulag dags. 18. desember 1996.  Í kjölfar veikinda hefur kærandi um árabil verið metinn til 75% örorku hjá Tryggingastofnun og notið lífeyrisgreiðslna.  Barnalífeyrir vegna drengjanna var greiddur til móður og meðlagsgreiðslur kæranda felldar niður á sama tíma.  Kærandi sótti um barnalífeyri sér til handa en stofnunin synjaði.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir að lagaskilyrði fyrir greiðslu barnalífeyris til kæranda séu fyrir hendi enda séu drengirnir til jafns á framfæri hans og móður. Lögheimili hjá bótaþega sé ekki skilyrði samkvæmt lögunum fyrir barnalífeyri.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að barnalífeyrir vegna drengjanna greiðist til móður annars vegar vegna samnings aðila frá 18. desember 1996 þess efnis að kærandi greiði henni meðlag með börnunum og hins vegar á þeirri staðreynd að báðir drengirnir eigi lögheimili hjá móður.  Þá segir ennfremur í greinargerðinni að yrðu greiðslur barnalífeyris til móður stöðvaðar yrði að virkja meðlagssamning á ný, þar sem báðir drengirnir eru með lögheimili hjá móður og kærandi sé meðlagsskyldur með þeim.

 

Ákvæði um barnalífeyri er í 14. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar. Þar segir í 1. mgr.:

 

,, Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram.  Séu báðir foreldrar látnir eða örorkulífeyrisþegar skal greiddur tvöfaldur barnalífeyrir.”

 

Í 5. mgr. 14. gr. segir:

 

,,Barnalífeyrir greiðist foreldrum barnanna, enda séu þau á framfæri þeirra, eða þeim öðrum er annast framfæri þeirra að fullu.”

 

Þegar foreldri verður öryrki og nýtur lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun stofnast réttur til barnalífeyris.  Meginreglan er eðli málsins samkvæmt sú að barnalífeyrir greiðist til öryrkjans sem jafnan á lögheimili á sama stað og barnið og annast framfærslu þess.  Þó svo að foreldri verði öryrki er það áfram framfærsluskylt gagnvart barni sínu.  Þar sem tekjumöguleikar öryrkja eru oft skertir er barnalífeyrir til kominn til að auðvelda öryrkja framfærslu barns síns.

 

Í máli þessu hafa foreldrar slitið samvistir en hafa sameiginlega forsjá með drengjum sínum tveimur samkvæmt staðfestum samningi dags. 18 desember 1996 sem kveður jafnframt á um að kærandi skuli greiða meðlag með þeim til móður.  Drengirnir eiga lögheimili hjá móður. Ekki verður séð að það styðjist við lög að binda greiðslu barnalífeyris því skilyrði að hann greiðist því foreldri þar sem börnin eiga lögheimili. Eðli málsins samkvæmt þurfa drengirnir að eiga lögheimili hjá öðru hvoru foreldranna.  Það breytir því ekki að framfærslan getur verið sameiginleg og jöfn þegar um sameiginlega forsjá er að ræða.  Fyrir liggur yfirlýsing móður sem staðfestir að kærandi taki fullan þátt í uppeldi og umönnun drengjanna til jafns við hana.  Með vísan til þeirrar yfirlýsingar svo og samnings um sameiginlega forsjá og meðlag þykir ljóst að skilyrði 5. mgr. 14. gr. um framfærslu kæranda er uppfyllt.   Þegar þannig háttar og réttur til barnalífeyris hefur því stofnast vegna örorku foreldris, þ.e. skerts aflahæfis og örorkulífeyrsgreiðslna í kjölfarið, telur úrskurðarnefndin rétt út frá orðanna hljóðan 14. gr. og eðli máls að greiðslur barnalífeyris séu inntar af hendi til örorkulífeyrisþegans.  Hafa ber í huga niðurlag 1. mgr. 14. gr. laga nr. 117/1993 að tvöfaldur barnalífeyrir greiðist einungis í þeim tilvikum að báðir foreldrar séu látnir eða örorkulífeyrisþegar.  Þannig munu greiðslur barnalífeyris til móður vegna drengjanna falla niður um leið og greiðslur barnalífeyris til föður hefjast og meðlagsgreiðslur til móður frá föður, samkvæmt framangreindu samkomulagi aðila, geta farið af stað fyrir milligöngu Tryggingastofnunar, óski móðir þess.

 

 

 

Ú R S K  U R Ð A R O R Ð:

 

 Beiðni A um greiðslu barnalífeyris til hans vegna tveggja sona er samþykkt.

 

 

 

 

_______________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður

 

 

 

 

__________________________                   ____________________________

   Guðmundur Sigurðsson                                      Þuríður Árnadóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta