Markmið um bætta tannheilbrigðisþjónustu fyrir börn
Velferðarráðuneytið og Sjúkratryggingar Íslands undirbúa samningsgerð við tannlækna með það að markmiði að auka niðurgreiðslur vegna eftirlits, forvarna og tannviðgerða barna á aldrinum 0–18 ára og jafnframt að tryggja fjórum árgöngum barna ókeypis forvarnarskoðun.
Samkvæmt gildandi fyrirkomulagi ákveða tannlæknar sjálfir verð á meðferð á sinni stofu. Aftur á móti gefa Sjúkratryggingar Íslands út eigin gjaldskrá sem endurgreiðslur vegna tannheilbrigðisþjónustu eru miðaðar við. Sé gjaldskrá tannlæknis hærri en gjaldskrá stofnunarinnar greiðir einstaklingurinn mismuninn. Þótt gert sé ráð fyrir að Sjúkratryggingar Íslands greiði 75% kostnaðar vegna tannheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga 17 ára og yngri hefur greiðsluþátttakan í raun verið innan við 50% af raunkostnaði að meðaltali vegna mismunar á gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands og gjaldskrám tannlækna.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir niðurstöður rannsókna á tannheilsu barna og unglinga og samanburð við nágrannaþjóðir sýna að efla verði forvarnir og stuðla að bættri tannheilsu barna og ungmenna hér á landi. Um þetta sé einnig fjallað í heilbrigðisáætlun stjórnvalda og aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu barna og ungmenna þar sem kveðið er á um að tannvernd barna verði bætt með gjaldfrjálsu eftirliti, forvarnaraðgerðum og auknum niðurgreiðslum á tannviðgerðum barna.
Síðustu ár hafa heimtur barna til tannlækna verið minni en áætlað hefur verið. Færri hafa því sótt um endurgreiðslur vegna tannlæknakostnaðar og voru útgjöld Sjúkratrygginga Íslands vegna endurgreiðslna um 250–300 milljónum króna lægri á liðnu ári en reiknað hafði verið með.
Velferðarráðherra telur svigrúm til að semja við tannlækna um nýja gjaldskrá um tannheilbrigðisþjónustu við börn á aldrinum 0–18 ára sem muni lækka kostnað foreldra og væntanlega bæta heimtur barna til tannlækna.
„Markmið velferðarráðuneytisins er að ná samningum við tannlækna sem tryggja ókeypis forvarnarskoðun fyrir fjóra árganga barna í stað þriggja árganga áður, þ.e. börn sem eru þriggja ára, sex ára, tólf ára og fimmtán ára. Þá vonast ég til þess að samkomulag náist um eina gjaldskrá vegna tannlækninga barna sem geti tryggt að kostnaðarþátttaka hins opinbera verði allt að 75% af raunkostnaði fyrir allar almennar tannlækningar barna. Þetta eru samningsmarkmið ráðuneytisins sem Sjúkratryggingum Íslands hefur verið falið að vinna eftir í viðræðum við tannlækna. Auðvitað geta einhverjar breytingar orðið á útfærslum í samningaferlinu en ég er bjartsýnn á að viðræður við tannlækna geti hafist fljótlega og að þær muni skila góðum samningi sem leiði til bættrar tannheilsu hér á landi.“