Fundur velferðarráðherra og Landssambands eldri borgara
Fulltrúar Landssambands eldri borgara áttu fund með velferðarráðherra nýlega þar sem þeir kynntu honum ályktun og kjarakröfur sambandsins sem rúmlega 1.500 félagar í sambandinu höfðu undirritað.
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra tók við undirskriftalistanum og hlýddi á ályktun Landssambands eldri borgara og sjónarmið þeirra vegna krafna þeirra um bætt kjör. Kröfur sambandsins snúast meðal annars um að lífeyrir aldraðra verði hækkaður, kjaraskerðing frá 1. júlí 2009 verði afturkölluð, skattlagningu vaxta af sparifé eldri borgara verði breytt, dregið verði úr skerðingum vegna fjármagnstekna, vistunarmat vegna innlagna á hjúkrunarheimili verði endurskoðað og að Landssamband eldri borgara fái styrk fyrir einu stöðugildi til að vinna faglega að hagsmunamálum eldri borgara á landsvísu.
Guðbjartur Hannesson leggur áherslu á gott samstarf við heildarsamtök eldri borgara og mikilvægi þess. „Í starfi mínu sem velferðarráðherra er mikils virði að fá í hendur ályktun og kröfugerð sem þessa. Þarna koma fram skýrar ábendingar um það sem félagar í Landssambandi eldri borgara telja brýnustu hagsmunamál sín. Ég mun fara vel yfir þessi mál og þótt eflaust verði ekki hægt að verða við þessum kröfum nema að litlu leyti eins og staðan er í samfélaginu núna, er engu að síður gott fyrir mig að þekkja vilja Landssambands eldri borgara og félagsmanna sem standa að baki því, enda þurfum við öll að horfa til lengri tíma, þótt nú sé hart í ári.“