Hoppa yfir valmynd
24. maí 2023 Utanríkisráðuneytið

Nemendur GRÓ tóku á móti bókagjöf frá Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO

GRÓ nemendur ánægðir með bókagjöfina. - mynd

Vegleg bókagjöf með alls tæplega fjörutíu þýddum bókum eftir íslenska rithöfunda var afhent nemendum Landgræðsluskóla GRÓ nýlega. Gefandinn var Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og verða bækurnar varðveittar í húsnæði GRÓ að Grensásvegi þar sem nemendur Jarðhitaskólans, Landgræðsluskólans og Sjávarútvegsskólans búa á meðan á dvöl þeirra á Íslandi stendur.

Hugmyndin með bókasafninu er að þangað geti nemendur sótt sér afþreyingu og um leið kynnst íslenskri menningu, sögu og bókmenntahefð. Bækurnar eru af ólíkum toga, er þar m.a. um að ræða fornsögur, nýjar og gamlar fagurbókmenntir, glæpasögur, vísindaskáldsögur og  fræðabækur. Hugmyndin er að bækurnar geti gefið nemendum GRÓ, sem koma einkum frá lágtekjuríkjum í Afríku, Asíu og S- Ameríku, nýja sýn á landið og lífið á Íslandi, til viðbótar við þann fróðleik sem þau afla sér á sínum sérfræðisviðum.

GRÓ starfar undir merkjum UNESCO og er því einkar ánægjulegt að taka á móti svo veglegri bókagjöf frá Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO. Áður hafði GRÓ fengið bækur að gjöf frá Miðstöð íslenskra bókmennta og starfsmönnum utanríkisráðuneytisins og því er kominn ágætis vísir að bókasafni í GRÓ húsið.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta