Hoppa yfir valmynd
29. mars 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fyrsta fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar kynnt: Framfarir og kraftmikil verðmætasköpun í framsæknu samfélagi

Bjarni Benediktsson kynnir fjármálaáætlun fyrir árin 2023-2027 - myndArnaldur

Staða íslenskra heimila og fyrirtækja er sterk og skuldahorfur hins opinbera hafa stórbatnað. Með hóflegum útgjaldavexti og áframhaldandi sókn í vaxandi útflutningsgreinum eru tækifæri til að treysta grunninn á ný og stuðla að enn sterkara samfélagi. Áfram verður staðinn vörður um velferðina og fjárfest í félagslegum innviðum. Þetta kemur fram í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2023-2027 sem kynnt er í dag.

Staðan er sterk

Umfangsmestu efnahagsaðgerðir sögunnar vegna heimsfaraldursins grundvölluðust á sterkri stöðu ríkissjóðs og skiluðu ótvíræðum árangri, kaupmáttur hefur aldrei verið meiri og vex áfram. Þá hefur fjárhagur heimila aldrei verið sterkari, að því er fram kemur í áætluninni.

Árangurinn endurspeglast skýrt í sterkri stöðu íslenskra heimila og fyrirtækja. Hlutfall atvinnulausra náði hæst 11,6% í janúar 2021, en dróst hratt saman eftir því sem leið á árið. Það er nú 5,2% og er þannig á svipuðum slóðum og fyrir faraldurinn.  Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi lækki enn hraðar en áður var talið og verði um 4% á tíma fjármálaáætlunar.

 
Verðbólga hefur hækkað að undanförnu en hún er þó mun minni hér á landi en í mörgum samanburðarríkjum. Verðbólga er nú 4,4% á Íslandi, samkvæmt samræmdri vísitölu neysluverðs, en um 6,2% í ríkjum Evrópusambandsins. Gert er ráð fyrir að verðbólga taki að lækka með ábyrgri hagstjórn á sviði ríkisfjármála, peningamála og á vinnumarkaði, en sú stefna sem birtist í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar stuðlar að því.
 
Árið 2021 keyptu um 7.000 manns sína fyrstu íbúð og hafa ekki verið fleiri frá upphafi mælinga. Þrátt fyrir að vextir hafi hækkað eru þær hækkanir frá sögulega lágu stigi. Eignastaða heimila er almennt sterk og uppsafnaður sparnaður mikill. Hlutfall heimila í vanskilum hefur aldrei verið lægra en árið 2021, en það nam 0,9% í lok ársins.
 

Ríkissjóður hefur á undanförnum árum stutt við uppbyggingu félagslegs leiguhúsnæðis í gegnum almenna íbúðakerfið. Meiri stöðugleiki á húsnæðismarkaði með aðkomu sveitarfélaga, aðila vinnumarkaðarins og ríkissjóðs er brýnt verkefni á áætlunartímabilinu, og munu stjórnvöld leggja sitt af mörkum hvað það varðar.

Sjálfbærni ríkisfjármálanna endurheimt

Það verður viðvarandi verkefni næstu ára að standa vörð um afkomu ríkissjóðs og endurheimta sjálfbærni ríkisfjármálanna í kjölfar heimsfaraldurs. Halli á ríkissjóði og hinu opinbera í kjölfar faraldursins reynist þó mun minni en áður var talið.

Nú þegar faraldurinn er í rénun hérlendis hverfist umræðan um efnahagsleg áhrif innrásar Rússa í Úkraínu. Til þessa hafa þau ekki síst birst í verðhækkunum á hrávörumörkuðum, sem leggjast við misvægi framboðs og eftirspurnar eftir faraldurinn. Miklir fólksflutningar og enn meiri óvissa í alþjóðamálum geta svo skapað aðrar áskoranir þegar fram líður.
Skuldastaða hins opinbera var ekki fyrirstaða í baráttunni við efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldursins þar sem nægt svigrúm var til skuldaaukningar. Samfélagið stóð á traustum grunni ábyrgrar hagstjórnar árin áður. Nú skiptir miklu máli að treysta grunninn á nýjan leik. Markmið stjórnvalda miðast við að draga jafnt og þétt úr afkomuhalla og stöðva hækkun skulda hins opinbera í hlutfalli af VLF eigi síðar en árið 2026. Þannig er grunnurinn treystur á ný og samfélagið betur í stakk búið til að takast á við óvænt áföll framtíðar.
 

Áhersla á tæknilausnir, samlegð og stafvæðingu

Útgjaldaáætlun ríkissjóðs á áætlunartímabilinu grundvallast á markmiðum fjármálastefnu 2022–2026 og ákvörðunum sem teknar voru í fyrri fjármálaáætlunum á síðasta kjörtímabili og fjárlögum fyrir árið 2022. Má þar nefna ýmis áherslumál stjórnvalda, svo sem aukin framlög til fjárfestingaverkefna, heilbrigðismála, nýsköpunar og loftslagsmála.

Bætt opinber þjónusta snýst ekki aðeins um aukin fjárútlát. Veruleg tækifæri liggja í nýtingu tæknilausna, fjarþjónustu og stafvæðingu, sameiningu stofnana og aukinni samlegð í innkaupum og rekstri kerfa.

Á Ísland.is er nú hægt að nálgast yfir 900 þjónustuferli ríkisins, stafrænt pósthólf og fjölda sjálfsafgreiðsluumsókna, m.a. um fæðingarorlof, sakavottorð, sjúkratryggingu og ýmsa þjónustu sýslumanna. Haldið verður áfram að efla stafvæðingu og gera opinbera þjónustu einfaldari og skilvirkari á áætlunartímabilinu.

Alls hefur áætlaður ávinningur stafvæðingar í formi hagræðingar og aukinnar skilvirkni í ríkisrekstri verið metinn 9,6 milljarðar króna á ári í kjölfar fimm ára fjárfestingarátaks sem nú stendur yfir. Þá er gert ráð fyrir að óbeinn ávinningur samfélagsins alls, s.s. í formi styttri málsmeðferða hjá opinberum stofnunum auk tímasparnaðar fólks og fyrirtækja gæti numið allt að 20 milljörðum króna.

Velferðin varin

Opinber þjónusta og tilfærslukerfi voru efld samhliða skattalækkunum og stórum fjárfestingarverkefnum á nýliðnu kjörtímabili og á tímum faraldursins. Á áætlunartímabilinu verður staðinn vörður um þessa uppbyggingu og haldið áfram að fjárfesta í enn sterkara samfélagi.

Á tímabili fjármálaáætlunarinnar vega útgjöld til heilbrigðismála þyngst, eða 31% - en útgjöld til félags-, húsnæðis- og tryggingarmála nema 27%. Alls eru tæplega 60% heildarútgjalda vegna þessara tveggja málaflokka. Þriðju veigamestu útgjöldin eru til mennta- og menningarmála, eða 12% af heildinni. Alls er gert ráð fyrir að uppsöfnuð aukning rammasettra útgjalda nemi 69 milljörðum króna frá fjárlögum 2022 til ársins 2027, eða sem nemur 7% aukningu á föstu verðlagi ársins 2022.

 

Efling geðheilbrigðisþjónustu hefur verið forgangsmál ríkisstjórnarinnar og er í fjármálaáætlun lagt til að auka enn frekar framlög til geðheilbrigðismála á tímabilinu. Gert er ráð fyrir sérstakri varanlegri aukningu framlaga til geðheilbrigðismála sem nemur 500 m.kr. á fyrsta ári áætlunarinnar, en 100 m.kr. hækkun á ári næstu tvö ár eftir það. Framlög til málaflokksins hafa verið aukin verulega undanfarin ár, en varanleg heildaraukning til geðheilbrigðismála nemur 1.650 m.kr. á tímabilinu 2019–2025.

Þá má nefna að á tímabili fjármálaáætlunar er gert ráð fyrir auknum framlögum til endurskoðunar á örorkulífeyrishluta almannatrygginga þar sem áhersla verður lögð á bætt kjör, starfsendurhæfingu og frekari vinnumarkaðsúrræði. Strax á næsta ári verður tekið fyrsta skrefið í átt að nýju og sanngjarnara kerfi með 430 m.kr. framlagi sem varið verður til ýmissa verkefna sem eiga að stuðla að fjölbreyttari starfstækifærum fyrir fólk með skerta starfsgetu.

Af fleiri áherslumálum sem endurspeglast í nýju fjármagni á árunum 2023-2027 má nefna:

  • 25 ma.kr. til að viðhalda stuðningi við rannsóknir og nýsköpun
  • 22 ma.kr. aukning til verkefna tengdum byggingu nýs Landspítala, m.a. vegna tækjakaupa
  • 3,2 ma.kr. aukning til geðheilbrigðismála
  • 3,0 ma.kr. til að vinna gegn félagslegum- og heilsufarslegum langtímaáhrifum kórónuveirufaraldursins
  • 2,2 ma.kr. aukning í varnarmál, m.a. vegna netöryggis og fjölþáttaógnar
  • 1,2 ma.kr. aukning vegna aðgerða gegn kynferðisbrotum
  • 900 m.kr. aukning vegna nýrrar menntastefnu
  • 600 m.kr. aukning vegna stofnunar Tónlistarmiðstöðvar Íslands
  • 260 m.kr. vegna fjölgunar nema í lögreglunámi

Styrkum stoðum fjölgað

Á tímabili fjármálaáætlunarinnar verður áfram fjárfest í öflugra samfélagi og stutt við áframhaldandi sókn vaxandi útflutningsgreina. Fjárfesting hins opinbera mun að meðaltali nema 3,6% af landsframleiðslu á tímabilinu, en m.a. verður stutt við grænar fjárfestingar í gegnum skattkerfið og auknum stuðningi við rannsóknir og þróun viðhaldið. Þá er gert ráð fyrir 90 milljarða króna fjárfestingu í áframhaldandi framkvæmdir við byggingu Landspítalans við Hringbraut, en 24,4 milljarðar króna voru lagðir til verkefnisins á nýliðnu kjörtímabili.

Útflutningstekjur hugverkaiðnaðar eru nú áætlaðar um 10% af útflutningi Íslands, en þær hafa tvöfaldast frá árinu 2014 og aukist um 50% frá 2018. Þá hefur launagreiðendum í tækni- og hugverkaiðnaði, hátækniþjónustu, upplýsingatækni og fjarskiptum fjölgað um ríflega 300 á þremur árum og nema nú ríflega 18% af öllum laungreiðendum í viðskiptahagkerfinu. Til samanburðar nema launagreiðendur í ferðaþjónustu 12%.

Ísland mælist nú í 17. sæti af 132 þjóðum hvað varðar nýsköpunarvirkni (WIPO global innovation index) og hefur hækkað úr 23. sæti á fjórum árum. Vöxtur hugverkaiðnaðar leggst við bætta afkomu stóriðju og sjávarútvegs. Þá hefur fiskeldi vaxið hraðar en aðrar greinar og hafa útflutningstekjur greinarinnar þrefaldast frá árinu 2018.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra


„Með hóflegum útgjaldavexti en sókn í opinberri fjárfestingu, öflugum stuðningi við nýsköpun, rannsóknir og þróun og hagfelldu umhverfi fyrir vaxtarsprota samfélagsins leggjum við grunn að nýju hagvaxtarskeiði. Á grundvelli þessarar fjármálaáætlunar höldum við áfram að fjárfesta í öflugu samfélagi, en treystum á sama tíma grunninn til að mæta óvæntum áföllum framtíðar.

Áhersla verður lögð á að koma böndum á verðbólgu, tryggja stöðugleika í hagkerfinu og stuðla þannig að hóflegu vaxtastigi fyrir heimili og fyrirtæki. Þar gegnir gott samspil ríkisfjármála, peningastefnu og vinnumarkaðar lykilhlutverki.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta