Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 54/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 28. febrúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 54/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19010038

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I.             Málsatvik

Þann 13. nóvember 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar frá 27. ágúst 2018 um að synja […], kt. […], ríkisborgara Nígeríu (hér eftir nefndur kærandi), um endurnýjun á dvalarleyfi fyrir námsmenn, sbr. 65. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Þann 28. janúar 2019 barst kærunefnd beiðni frá kæranda um endurupptöku málsins, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með beiðni kæranda um endurupptöku fylgdi greinargerð ásamt fylgigögnum.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 484/2018 frá 13. nóvember 2018. Með þeim úrskurði hafi kærunefnd staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um endurnýjun dvalarleyfis fyrir námsmenn. Kærandi hafi haustið 2017 hafið nám í Háskóla Íslands á námsbrautinni „Icelandic Second Language“. Námið hafi hins vegar reynst honum ofviða og því hafi honum einungis tekist að ljúka 10 einingum frá hausti 2017 til vors 2018. Ástæður þess verði ekki raktar til vanrækslu hans sjálfs enda hafi hann lagt sig allan fram við námið og gengið fram svo fram af sér að hann hafi fyllst depurð og kvíða. Um vorið 2018 hafi kærandi ákveðið að skipta um námsbraut og innritast á brautina „English for Academic Purposes“. Hafi hann lokið 30 einingum um síðustu áramót og hyggist ljúka 35 einingum á vorönn 2019.

Kærandi byggir kröfu sína á endurupptöku á því að þegar hann hafi sótt um endurnýjun á dvalarleyfi hafi hann gert sér grein fyrir því að honum myndi ekki takast að ljúka við „Icelandic Second Language“ sem hann hefði byrjað á og því hefði hann skipt yfir í „English for Academic Purposes“, en það hafi Útlendingastofnun ekki vitað um. Telur kærandi að Útlendingastofnun hefði borið að upplýsa kæranda um réttarstöðu sína og leiðbeina honum jafnframt um að sækja um endurnýjun t.d. á grundvelli 5. mgr. 57. gr. laga um útlendinga. Síðar hafi komið í ljós að hann hafi lokið 30 ECTS-einingum haustið 2018 og stefni nú á að ljúka 35 ECTS-einingum vorið 2019. Vísar kærandi til þess að skilyrði þess að unnt sé að byggja kröfu um endurupptöku á 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga sé að stjórnvaldsákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik sem gætu haft þýðingu við úrlausn málsins.

Kærandi byggir kröfu sína í annan stað á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið sé í nánum tengslum við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Hafi aðstæður kæranda breyst svo til muna eftir að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp en kærandi hafi með dugnaði nú náð betri árangri en áskilið sé við endurnýjun dvalarleyfis.

III.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði nr. 484/2018 frá 13. nóvember 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar þess efnis að synja bæri kæranda um endurnýjun á dvalarleyfi fyrir námsmenn, sbr. 65. gr. laga um útlendinga. Í úrskurðinum tók kærunefnd m.a. fram á að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 6. mgr. 65. gr. laganna um viðunandi námsárangur vegna skólaársins 2017-2018. Þá væri ekki um óviðráðanlegar ytri aðstæður að ræða hjá kæranda í skilningi 3. málsl. 6. mgr. 65. gr. enda hefði kærandi hvorki lagt fram greinargerð í málinu né bentu gögn málsins til þess að skilyrði síðastnefnds ákvæðis væri uppfyllt.

Ljóst er af endurupptökubeiðni kæranda og þeim fylgigögnum sem kærunefnd hefur borist að kærandi lauk einungis 10 ECTS-einingum skólaárið 2017-2018 og uppfyllti því ekki skilyrði um viðunandi námsárangur sem er forsenda fyrir endurnýjun dvalarleyfis vegna náms, sbr. 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga. Í greinargerð byggir kærandi m.a. á því að hann hafi ekki lokið tilskildum einingum vegna depurðar og kvíða en engin frekari gögn hafa verið lögð fram til stuðnings þeim málsástæðum. Að mati kærunefndar bendir frásögn kæranda af andlegum erfiðleikum hvorki til þess að ákvörðun hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða atvik hafi breyst verulega að þessu leyti frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, enda þarf að jafnaði mun meira að koma til svo til greina komi að víkja frá kröfunni um fullnægjandi námsárangur vegna óviðráðanlegra ytri aðstæðna. 

Þá kemur námsárangur haustannar 2018 ekki til frekari skoðunar enda varð kærandi að uppfylla skilyrði um viðunandi námsárangur á haustönn 2017 og vorönn 2018 til að fá dvalarleyfi sitt á grundvelli náms endurnýjað, sbr. 6. mgr. 65. gr. laga um útlendinga. Kæranda er leiðbeint um að hann getur sótt um dvalarleyfi vegna náms með umsókn til Útlendingastofnunar. Kæranda er jafnframt leiðbeint um að þar sem umsókn kæranda um endurnýjun fyrra dvalarleyfis var ekki samþykkt fer um slíka umsókn eftir reglum 1. mgr. 51. gr. laga um útlendinga, en þar kemur m.a. sú almenna regla að útlendingur sem sækir um dvalarleyfi sé óheimilt að koma til landsins eða dvelja þar fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku máls síns því hafnað.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

The request of the appellant is denied.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                Anna Valbjörg Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta