Auglýsing um niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga nr. 13/2011
Í samræmi við lög um þjóðaratkvæðagreiðslu nr. 91/2010 hefur innanríkisráðuneytið nú auglýst niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem fram fór 9. apríl síðastliðinn. Ráðuneytinu ber að auglýsa niðurstöðuna í útvarpi og Lögbirtingablaðinu í kjölfar þess að landskjörstjórn upplýsir ráðuneytið um niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar.
Auglýsingin er svofelld:
Þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram laugardaginn 9. apríl 2011 þar sem lögð var fyrir kjósendur spurning um hvort lög nr. 13/2011, um heimild til handa fjármálaráðherra til að staðfesta samninga, sem áritaðir voru í London 8. desember 2010, um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins á kostnaði af greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi og greiðslu eftirstöðva og vaxta af þeim skuldbindingum, sem forseti Íslands hafði synjað staðfestingar, ættu að halda gildi eða hvort þau ættu að falla úr gildi.
Á kjörskrá voru 232.422 kjósendur. Atkvæði greiddu 175.114 kjósendur eða 75,3% kjósenda. Atkvæði féllu þannig að af gildum atkvæðaseðlum, sem voru 172.669, sögðu 69.462 kjósendur já, eða 40,23% en nei sögðu 103.207 kjósendur, eða 59,77%. Ógildir atkvæðaseðlar voru 2.445 talsins, þar af voru 2.039 auðir og 406 ógildir af öðrum ástæðum, alls 1,4%.
Samkvæmt þessum niðurstöðum eru lög nr. 13/2011 fallin úr gildi.
15. apríl 2011.