Hoppa yfir valmynd
17. maí 2022 Utanríkisráðuneytið

Vilja útrýma barnaþrælkun fyrir árið 2025

Ljósmynd frá Úganda: gunnisal - mynd

Fulltrúar þjóða sem taka þátt í fimmtu alþjóðaráðstefnunni um útrýmingu barnaþrælkunar hvetja til þess að því takmarki verði náð fyrir árið 2025. Samkvæmt nýjustu tölum um barnaþrælkun er tíunda hvert barn í heiminum þvingað til líkamlegra starfa, eða um 160 milljónir barna.

Alþjóðaráðstefnan er að þessu sinni haldin í fyrsta sinn í Afríkuríki, í Suður-Afríku, en í þeirri álfu er barnaþrælkun útbreiddust og framfarir minnstar. Samhljómur er meðal allra þátttakenda um að herða sóknina gegn barnaþrælkun. Síðustu árin, í heimsfaraldri kórónuveirunnar, hefur hún aukist á ný, einkum meðal barna á aldrinum fimm til ellefu ára. Um sjötíu prósent allra barna í nauðungarvinnu starfa að landbúnaðarstörfum.

„Við erum hér vegna þess að við deildum sameiginlegri sannfæringu um að barnaþrælkun, í hvaða mynd sem hún birtist, er óvinur, sem dregur úr þroska barna okkar og hamlar framförum. Engin siðmenning, ekkert land og ekkert hagkerfi getur litið svo á að það sé í fararbroddi framfara ef árangur og auðævi byggjast á striti barna,“ sagði Cyril Ramaphosa forseti Suður-Afríku á ráðstefnunni.

Samkvæmt Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO) hefur í fyrsta sinn í tuttugu ár orðið bakslag í baráttunni gegn barnaþrælkun. „Einhverjir gætu sagt að barnaþrælkun sé óhjákvæmileg afleiðing fátæktar en það er rangt. Við getum aldrei sætt okkur við barnaþrælkun. Ráðast þarf að rótum vandans eins og fátækt en barnaþrælkun er brot á grundvallar mannréttindum og markmið okkar hlýtur alltaf að vera það að börn séu frjáls undan oki vinnuþrælkunar. Við getum ekki unnt okkur hvíldar fyrr en því marki er náð,“ sagði Guy Ryder framkvæmdastjóri ILO á ráðstefnunni.

Ráðstefnunni í Durban lýkur á föstudag.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta