Hoppa yfir valmynd
17. ágúst 2022 Utanríkisráðuneytið

Góð þátttaka á námskeiði um heimsmarkmiðin

Þátttakendur á námskeiðinu. Ljósmynd: Félag SÞ á Íslandi. - mynd

,,Námskeiðið gekk frábærlega og það var gaman að sjá þennan mikla og aukna áhuga á heimsmarkmiðunum,‘‘ segir Kristrún María Heiðberg, verkefnastjóri UNESCO skóla á Íslandi. Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi stóð fyrir námskeiði fyrir kennara um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun í Salaskóla í Kópavogi á dögunum. 

,,Þetta er í annað sinn sem við höldum þetta námskeið og það var fljótt að fyllast og við þurftum í raun að loka fyrir skráningu. En við ætlum að halda svona námskeið aftur því eftirspurnin er greinilega mikil.‘‘

Á námskeiðinu var meðal annars farið í merkingu og markmið heimsmarkmiðanna og hvernig þau eru hugsuð út frá kennslu. Þátttakendur á námskeiðinu fengu í hendur tæki og tól til að nýta með markvissum hætti. Kennarar voru ánægðir með námskeiðið og fannst gott að fá betri innsýn og skilning á heimsmarkmiðunum.

,,Námskeiðið var mjög fræðandi og flott, vel skipulagt. Ég fer með innblástur inn í kennsluna í haust,‘‘sagði einn þátttakandi.  Annar sagði: ,,Það var uppbyggjandi að sjá ýmsa möguleika sem hægt er að nýta til að kenna nemendum um heimsmarkmiðin.‘‘

Fyrirlesari á námskeiðinu var Eva Harðardóttir, sem er uppeldis- og menntunarfræðingur og stundar doktorsnám við Háskóla Íslands. Rannsóknaráhersla hennar í doktorsnámi snýr að ungu flóttafólki og alþjóðlegri borgaravitund. Eva hefur starfað sem aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og hefur kennt fjölmörg námskeið m.a. um lýðræði, mannréttindi og borgaravitund ungs fólks. Eva starfaði sem menntunarsérfræðingur á vegum UNICEF í Malaví frá 2013-2016.

Kristrún sagði frá UNESCO skólum og kynnti skólanet UNESCO skóla. ,,Við sjáum aukinn áhuga hjá skólum að verða UNESCO skólar, en þar eru áherslurnar einmitt á heimsmarkmiðin, einnig menntun, vísindi, frið og mannréttindi. Skólanetið, sem er öllum opið, hefur að geyma fjölbreytt námsefni sem fellur vel að grunnþáttum aðalnámskráa grunn- og framhaldsskóla.‘‘

Skólar sem hafa áhuga á að gerast UNESCO skólar geta haft samband við Kristrúnu, [email protected]

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta