Hægt verði að nýta rafræn skilríki þvert á landamæri Norðurlanda og Eystrasaltsríkja
Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin ætla að vinna saman að tæknilegum innviðum fyrir íbúa til að nota eigin rafræn skilríki til auðkenningar í öðrum löndum. Þetta segir í yfirlýsingu ráðherranefndar um stafræna, opinbera þjónustu ríkjanna en nefndin fundaði í Reykjavík í dag.
Ríkin eru leiðandi á heimsvísu á sviði opinberrar, stafrænnar þjónustu og hafa einsett sér að viðhalda þeirri stöðu og sækja enn frekar fram. Notkun rafrænna skilríkja er afar útbreidd á svæðinu en ráðherrarnir telja tímabært að auka möguleika til að nýta þau þvert á landamæri ríkjanna.
Á fundinum ræddu ráðherrarnir jafnframt leiðarljós í samstarfi ríkjanna um stafræn málefni fyrir árin 2025-2030, m.a. hvernig tryggja megi enn frekar aðgengi að stafrænni þjónustu fyrir alla, samræma reglur og fyrirbyggja öryggisógnir. Þessar aðgerðir styðja við stefnu landanna um græn, samkeppnisfær og sjálfbær samfélög.
Í opnunarávarpi Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, rakti hann góðan árangur Stafræns Íslands undanfarin ár, stafvæðingu fjölda þjónustuleiða hér á landi með árlegum ávinningi upp á milljarða króna – og tækifærin í áframhaldandi þróun á þessu sviði.
Sjá einnig: Ísland hækkar mest allra landa
Þá nefndi hann sérstaklega gott samstarf við einkamarkaðinn, sem væri grundvallaratriði í árangri Íslands – og hefði m.a. stuðlað að því að íslenska varð annað tungumál veraldar sem notað er af spjallmenninu ChatGPT. Þá fjallaði ráðherra sérstaklega um netöryggi, sem hann sagði að yrði æ brýnna að tryggja – en í þeim efnum væri samstarf við þjóðir sem við treystum lykilatriði.
Tveir sérfræðingar um stafræn málefni fluttu erindi á fundinum. Anne Marie Engtoft Larsen, sendiherra tæknimála í Danmörku, fjallaði um sterka stöðu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í stafrænni þróun og mögulega þeirra á að miðla reynslu sinni til annarra Evrópuríkja og víðar. Clare Martorana, yfirmaður upplýsingatæknimála hjá bandarísku alríkisstjórninni , flutti erindi um þá sýn bandarískra yfirvalda að netöryggi sé forsenda framfara í upplýsingatækni og mikilvægi þess að þróa hugbúnað þar sem öryggi er innbyggt (secure-by-design). Í kjölfar erindanna tveggja spunnust umræður um þau á fundi ráðherranna.
Engtoft Larsen og Martorana fluttu sambærileg erindi síðar sama dag á árlegri ráðstefnu Stafræns Íslands, Tengjum ríkið.