Hoppa yfir valmynd
30. janúar 2025 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 54/2025 Úrskurður

Hinn 30. janúar 2025 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 54/2025

í stjórnsýslumáli nr. KNU24080134

 

Kæra [...]

á ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 20. ágúst 2024 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Palestínu (hér eftir kærandi), ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 17. ágúst 2024, um frávísun frá Íslandi.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði heimiluð koma til landsins.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, ákvæði laga um landamæri nr. 136/2022, reglugerð um för yfir landamæri nr. 866/2017, reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins 2016/399 um för yfir landamæri (Schengen-landamærareglurnar), stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom til landsins með flugi frá Brussel í Belgíu, 17. ágúst 2024. Með ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 17. ágúst 2024, var kæranda vísað frá landinu.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að kæranda hafi verið frávísað frá Íslandi á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Ákvörðuninni fylgdu þær viðbótarathugasemdir að kærandi hefði ekki sýnt fram á næga fjármuni til dvalar á Íslandi og heimfarar að nýju. Samkvæmt skýrslu lögreglu, dags. 26. ágúst 2024, ætlaði kærandi að dvelja til 29. ágúst 2024. Hann kvaðst ætla að hitta vin sinn en gat ekki greint frá nafni hans, heimilisfangi eða símanúmeri. Hann hafi sýnt fram á 415 evrur í reiðufé en auk þess kvaðst kærandi vera með 50 evrur á greiðslukorti sem hann hafi þó ekki getað sýnt fram á. Kærandi kvaðst óviss hvar hann ætlaði sér að gista og gat ekki greint frá því með nánari hætti, hvorki um heimilisfang, bæjarfélag né landshluta. Í skýrslunni kom fram að kærandi hefði átt í samskiptum við umræddan vin á tilteknu samskiptaforriti en gat þó ekki greint frá nafni hans með fullnægjandi hætti. Samkvæmt framansögðu átti hann eftir að greiða fyrir hótel og gistingu og annan kostnað af fyrirhugaðri dvöl. Því tók lögregla ákvörðun um frávísun kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kærði ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum til kærunefndar útlendingamála 20. ágúst 2024. Með bréfi Útlendingastofnunar, dags. 17. október 2024, var kæranda skipaður talsmaður. Hinn 26. nóvember 2024 lagði kærandi fram greinargerð vegna málsins.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í kæru vísar kærandi m.a. til þess að hann hafi haft farmiða til dvalarríkis að nýju, en að tilgangur með stuttri dvöl hans hafi verið heimsóknir til ættingja og vina. Um fjármuni sína kveðst kærandi hafa haft tæpar 1400 evrur til ráðstöfunar. Þá kveðst kærandi hafa orðið fyrir illri meðferð og kynþáttahatri af hálfu lögreglu.

Í röksemdum kæranda kemur fram ákvörðun lögreglu sé mótmælt en kærandi kveðst hafa haft tryggt húsnæði og uppihald hér á landi, ásamt samgöngum innanlands. Kærandi kveðst hafa gert skýra grein fyrir gestgjafa sínum, sem hann hafði átt í samskiptum við á tilteknum samfélagsmiðli. Ekkert í gögnum málsins bendi til þess að lögregla hafi reynt að setja sig í samband við gestgjafann, t.a.m. með milligöngu kæranda, til þess að sannreyna frásögn hans. Þar að auki hafi lögregla ekki rannsakað hvort greiðslukort hans hafi verið nothæft, en eingöngu hafi verið vísað til reiðufjár í hans vörslu.

Kærandi vísar til lagaskilyrða fyrir frávísun, sbr. d-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga og telur lögreglu ekki hafa rannsakað með fullnægjandi hætti hvort ferðatékkar eða greiðslukort hafi haft nægar úttektarheimildir né hvort kærandi hefði tryggan dvalarstað og uppihald á meðan á fyrirhugaðri dvöl stæði. Kærandi hafði farmiða til heimferðar og telur ekki hægt að fallast á lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar. Í ljósi annmarka á rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum telur kærandi að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi og heimila komu kæranda til landsins í heimsókn til vinar síns sem sé tilbúinn að taka á móti honum.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Kærandi er ríkisborgari Palestínu sem hefur stöðu flóttamanns og gilda dvalarheimild í Belgíu og þarf ekki vegabréfsáritun til landgöngu, sbr. 1. tölul. II. liðar viðauka 9 við reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 795/2022. Með vísan til þess má hann dvelja hér á landi í 90 daga á hverju 180 daga tímabili.

Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum um frávísun kæranda, dags. 17. ágúst 2024, byggir á d-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. reglugerð um för yfir landamæri nr. 866/2017. Samkvæmt 1. mgr. 106. gr. a laga um útlendinga tekur lögreglustjóri ákvörðun um frávísun við komu til landsins. Útlendingastofnun tekur ákvörðun um frávísun eftir komu til landsins og aðrar ákvarðanir samkvæmt XII. kafla laganna.

Samkvæmt d-lið 1.mgr. 106. gr. laga um útlendinga er heimilt að frávísa útlendingi ef hann getur ekki sýnt fram á að hann hafi eða eigi tryggð nægileg fjárráð til dvalar hér á landi og til heimferðar. Fram kemur í athugasemdum við ákvæðið að meta þurfi hverju sinni hvenær útlendingur telst hafa nægileg fjárráð til framfærslu og til heimferðar. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 866/2017 um för yfir landamæri skal við mat á því hvort útlendingur teljist hafa nægileg fjárráð m.a. tekið mið af lengd og tilgangi dvalar. Mat á fjárráðum megi byggja á reiðufé, ferðatékkum og greiðslukortum sem útlendingur sé handhafi að.

Í skýrslu lögreglu, dags. 27. ágúst 2024, eru málsatvik og afskipti lögreglu af kæranda rakin. Í skýrslunni kemur m.a. fram að kærandi hafi sýnt fram á farmiða af landi brott að dvöl lokinni. Hann hafi þó ekki sýnt fram á gistingu. Um fjármuni til dvalar hafi kærandi sýnt fram á 415 evrur í reiðufé og ekki tekist að sýna fram á fjármuni á greiðslukorti en kærandi bar fyrir sig að hafa haft aðgengi að 50 evrum. Þá hafi kærandi ekki kunnað deili á vini sínum nema að takmörkuðu leyti og ekki upplýst lögreglu um auðkenni hans, aðsetur eða tengiliðaupplýsingar. Kærandi hafi jafnframt ekki getað greint frá því hvar hann hygðist gista. Með nákvæmari upplýsingagjöf um framangreind atriði hefði lögregla getað haft samband við umræddan vin með það að markmiði að sannreyna framburð kæranda. Framburður kæranda á kærustigi er í töluverðu ósamræmi við skýrslu lögreglu og kveðst kærandi allt að einu hafa tryggt sér húsnæði, uppihald og samgöngur innanlands auk þess að eiga hér á landi ættingja og vini sem hann hafi ætlað að heimsækja. Þá kemur fram í greinargerð að lögregla hafi ekki reynt að setja sig í samband við vin hans, sem hann lýsir sem gestgjafa, eða óskað eftir því með milligöngu kæranda.

Með hliðsjón af 5. gr. laga um landamæri annast lögregla landamæragæslu á landamærastöðvum og sinnir auk þess almennri löggæslu á Keflavíkurflugvelli. Samkvæmt 5. gr. reglugerðar um för yfir landamæri ber einstaklingum að veita tilteknar upplýsingar og leggja fram gögn þegar eftir því er óskað af lögreglu, þ. á m. gögn sem sýna fram á tryggt húsnæði og nægileg fjárráð. Eðli málsins samkvæmt ber einstaklingum að greina lögreglu satt og rétt frá, og dregur það úr trúverðugleika þeirra geti þeir ekki veitt lögreglu skýrar upplýsingar um fyrirhugaða dvöl.

Aðspurður gat kærandi ekki greint lögreglu frá fyrirhugaðri gistingu og þá gat hann ekki greint með fullnægjandi hætti frá auðkenni vinar síns. Greindi kærandi frá því að hafa yfir að ráða talsverðum fjármunum í kæru sinni til kærunefndar en lagði ekki fram gögn til þess að styðja við þá staðhæfingu. Bar kæranda að greina lögreglu frá því fé sem hann hafði yfir að ráða vegna ferðalags hingað til lands. Málsástæður sem lagðar eru fram á síðari stigum málsmeðferðar hafa takmarkaða þýðingu séu þær ekki beinlínis til þess fallnar að sýna fram á stöðu málsaðila við komu til landsins og að rannsókn eða mat lögreglu hafi á þeirri stundu að einhverju leyti verið áfátt. Líkt og að framan greinir er framburður kæranda á kærustigi í nokkru ósamræmi við skýrslu lögreglu sem dregur úr trúverðugleika frásagnar hans, enda hefur kærandi ekki lagt fram nein haldbær gögn sem renna stoðum undir breytta frásögn hans á kærustigi. Er frásögnin þannig ekki til þess fallin að bæta úr ágöllum málatilbúnaðar hans hjá lögreglu á Keflavíkurflugvelli eða sýna fram á að mat lögreglu á fjárhagsstöðu hans hafi verið rangt.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á nægileg fjárráð til dvalar hér á landi til 13 daga með tilliti til framfærslu og þess að hann ætti eftir að greiða fyrir gistingu.

Er hin kærða ákvörðun um frávísun kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga staðfest.

Athugasemdir við störf lögreglu og Útlendingastofnunar

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum tók hina kærðu ákvörðun 17. ágúst 2024 en hún var kærð til kærunefndar 20. ágúst 2024. Ákvörðunin var framkvæmd 18. ágúst 2024, sbr. til hliðsjónar 1. málsl. 1. mgr. 103. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd óskaði eftir afhendingu gagna málsins af hálfu lögreglustjórans á Suðurnesjum með tölvubréfi, dags. 21. ágúst 2024, og lét lögregla nefndinni gögn málsins í té 28. ágúst 2024. Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 6. janúar 2025, óskaði nefndin eftir frumskýrslu málsins. Hinn 8. janúar 2025 bárust frekari gögn frá lögreglu, en gagnasendingin innihélt skjal, sem nefnt var samantekt. Af skjalinu verður þó ráðið að um skýrslu lögreglu vegna frávísunar kæranda sé að ræða, skýrslan er dagsett 26. ágúst 2024 og inniheldur upplýsingar um afskipti af kæranda og frekari skýringar fyrir ákvörðun um frávísun.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. upplýsingalaga nr. 40/2012 ber stjórnvöldum, við meðferð stjórnsýslumála, að skrá upplýsingar um málsatvik sem veittar eru munnlega eða viðkomandi fær vitneskju um með öðrum hætti ef þær hafa þýðingu fyrir úrlausn máls og er ekki að finna í öðrum gögnum þess. Sama á við um helstu ákvarðanir um meðferð máls og helstu forsendur ákvarðana, enda komi þær ekki fram í öðrum gögnum málsins. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga kemur fram að skráning upplýsinga í samræmi við umrætt lagaákvæði skuli gera eins fljótt og unnt er svo skráning upplýsinganna verði bæði nákvæm og rétt. Þá er haft í huga að oft er ekki fyrirséð á þeim tíma sem upplýsingar koma fram hvort þær hafi þýðingu fyrir málið sem ætti að leiða til þess að meira sé skráð en minna, þó ekki svo langt að það standi nauðsynlegri skilvirkni stjórnsýslunnar fyrir þrifum.

Framangreind skráningarskylda á við án tillits til þess hvort mál hefur sætt kæru til æðra stjórnvalds. Þrátt fyrir þetta verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að farist hafi fyrir að skrá formlega niður þau atvik sem lágu til grundvallar hinni kærðu ákvörðun og að það hafi ekki verið gert fyrr en níu dögum eftir að ákvörðunin var tekin. Verður því ekki annað séð en að við meðferð lögreglu í máli kæranda hafi skráningarskylda 1. mgr. 27. gr. upplýsingalaga verið vanrækt, enda upplýsingarnar ekki skráðar eins fljótt og unnt var. Kærunefnd beinir því til lögreglu að gæta að framangreindu við meðferð mála um frávísun.

Í kæru kveðst kærandi hafa orðið fyrir illri meðferð og kynþáttafordómum af hálfu lögreglu. Kæranda er bent á að athugasemdir eða umkvartanir vegna starfa lögreglu er unnt að bera undir nefnd um eftirlit með lögreglu eða héraðssaksóknara eftir ákvæðum VII. kafla lögreglulaga nr. 90/1996.

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun lögreglustjórans á Suðurnesjum er staðfest.

The decision of the Police Commissioner of Suðurnes District is affirmed.

 

 

 

Valgerður María Sigurðardóttir                                                                 Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta