Hoppa yfir valmynd
17. júlí 2019 Matvælaráðuneytið

Ákvörðun Fiskistofu annars vegar að svipta skipið [S] leyfi til veiða í atvinnuskyni í eina viku og hins vegar að draga 286 kg af þorski frá aflamarki skipsins.

I.    Stjórnsýslukæra.

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru [X hdl], f.h. [Y ehf.], dags. 12. mars 2018, sem barst ráðuneytinu þann 14. mars 2018, þar sem kærð ákvörðun Fiskistofu, dags. 21. febrúar 2018, um að svipta skipið [S], leyfi til veiða í atvinnuskyni í eina viku frá 24. febrúar 2018 og leiðrétting á aflaskráningu skipsins, þ.e. að 286 kg af þorski dragist að fullu frá aflamarki skipsins. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og 18. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar. Kærufrestur er einn mánuður frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun Fiskistofu, sbr. 18. gr. laga nr. 57/1996, um umgengi um nytjastofna sjávar.

 

II.  Kröfur kæranda.

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 21. febrúar 2018, um að svipta skipið [S] um leyfi til veiða í atvinnuskyni í eina viku frá 24. febrúar 2018. Jafnframt krefst kærandi að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 21. febrúar 2018, um að 286 kg af þorski dragist að fullu frá aflamarki skipsins en í stað þess dragist 286 kg af þorski að hálfu frá aflamarki, sbr. 6. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 607/2017 um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2017/2018. 

 

III. Málsatvik og málsmeðferð ráðuneytisins.

Í málinu er ágreiningur um málsatvik. Kærandi lýsir málsatvikum þannig að [S] hafi komið að landi um kl. 16:00, eftir veiðiferð, dags. 30. nóvember 2017. Veiðieftirlitsmaður Fiskistofu hafi tekið á móti skipstjóra skipsins á bryggjunni, og hafi hann viljað mæla undirmál í afla skipsins. Skipstjóri skipsins kveðst hafa treyst eftirlitsmanninum fyrir slíkri mælingu, þar sem oft hafi verið mælt undirmál í afla skipsins á undanförnum 15 árum, en þá hafi tveir eftirlitsmenn verið viðstaddir. Kærandi staðhæfir að þær mælingar hafi ætíð verið í lagi. Aflanum hafi verið landað og honum ekið á hafnarvog og þaðan upp í fiskvinnsluhús sem sé um 25-35 metra frá löndunarstað. Kærandi vísar til þess að í fiskvinnsluhúsinu sé jafnframt móttaka fyrir markaðsfisk, en að sögn kæranda hafi verið beðið eftir aflanum til að fara með hann suður til kaupanda. Kærandi staðhæfir að einni klukkustund eftir að [S] kom að landi hafi eftirlitsmaður Fiskistofu mætt í fiskvinnsluhúsið til að mæla undirmál í aflanum. Kærandi staðhæfir að beðið hafi verið eftir honum. Enginn í áhöfn skipsins eða annar aðili hafi verið viðstaddur mælingar eftirlitsmanns Fiskistofu á aflanum eða staðfest mælingar hans. Kærandi staðhæfir í stjórnsýslukæru að ekki liggi fyrir hvað veiðieftirlitsmaður Fiskistofu hafi mælt inni í fiskvinnsluhúsinu. Á meðan eftirlitsmaður Fiskistofu hafi mælt aflann hafi áhöfn skipsins ásamt skipstjóra verið að gera skipið klárt fyrir næstu veiðiferð. Sími skipstjórans hafi verið í stýrishúsi meðan á vinnu stóð og hafi skipstjóri því ekki heyrt í honum.

Kærandi segir að strax eftir mælingu eftirlitsmannsins hafi allur afli skipsins verið settur inn í flutningabifreið sem hafi án tafar lagt af stað suður með aflann. Kærandi segir að flutningsaðili hafði beðið eftir veiðieftirlitsmanni Fiskistofu. Kærandi telur ekki rétt, sem fram kemur í skýrslu eftirlitsmanns, að hann hafi komið á bryggjuna og boðið skipstjóranum að koma og skoða fiskinn þar sem eingöngu þrír fiskar úr karinu með undirmálinu hefðu verið undir mörkum og annar afli því yfir því sem leyfilegt er í undirmáli. Kærandi segir að ekki sé rétt að skipstjórinn hafi ekki viljað sjá fiskinn, þar sem hann hafi vitað hvað hafi verið í karinu. Jafnframt telur kærandi það rangt hjá eftirlitsmanni Fiskistofu að hann hafi sagt skipstjóra að skýrsla yrði gerð um málið. Kærandi telur rétt málsatvik koma fram í yfirlýsingu vitna, þar sem fram kemur að um það leyti sem búið hafi verið að færa skipið á annan stað við bryggjuna hafi þrír úr áhöfn skipsins, skipstjórinn og tveir hásetar mætt veiðieftirlitsmanni Fiskistofu. Eftirlitsmaðurinn hafi sagt þeim að undirmálið hafi verið of stórt en jafnframt tjáð þeim, svo allir heyrðu, að þar sem þetta væri fyrsta brot yrði ekkert meira gert úr þessu. Kærandi vísar til þess að þegar veiðieftirlitsmaður Fiskistofu hafi hitti áhöfnina á bryggjunni, þá hafi aflinn verið á leiðinni suður og því ekki hægt að skoða hann. Kærandi bendir jafnframt á að veiðieftirlitsmaður Fiskistofu hafi ekki látið skipstjórann skrifa undir mælingablaðið þegar þeir mættust en slíkt hafi jafnan verið gert þegar undirmál sé mælt.

Í ákvörðun Fiskistofu, dags. 21. febrúar 2018, er málsatvikum lýst með eftirfarandi hætti: „Eftirlitsmaður Fiskistofu lengdarmældi undirmálsþorsk, sem landað var af [S] þegar báturinn kom til Húsavíkur 30. nóvember 2017. Í skýrslu eftirlitsmanns dags. 1. desember 2017 segir m.a: „Hinn 30. nóvember 2017 var ég við eftirlit á höfninni á Húsavík þegar [S] var að landa. [S] er fiskiskip með krókaaflamarksleyfi gert út frá Húsavík af  [Y ehf.]. [S] var á línuveiðum. Ég ákvað að taka mælingu á undirmálinu og hringdi í skipstjórann...... og bauð honum að vera viðstöddum. Hann sagðist ekki komast strax en sagði mér að mæla, hann treysti mér fyrir því. Ég mældi allt undirmálið úr þessari veiðiferð, samtals 167 fiska og voru 98,2% eða 164 fiskar yfir 50 cm viðmiðunarmörkum. Þegar undirmálsmæling er framkvæmd er miðað við að fiskur sem er lengri eða jafnt og 51 cm sé yfir leyfilegum mörkum. Ég hringdi tvisvar í [A] til að tilkynna honum niðurstöðuna en hann svaraði ekki. Ég fór þá á bryggjuna og hitti hann þar og bauð honum að koma og skoða fiskinn þar sem eingöngu 3 fiskar úr undirmálinu hefðu verið undir mörkum og restin yfir því sem leyfilegt er í undirmáli. Hann vildi það ekki, sagðist vita hvað hefði verið í karinu“.

Fiskistofa mótmælir lýsingu málsatvika í stjórnsýslukæru sem ekki er í samræmi við lýsingu eftirlitsmanns og bendir á þversagnir í málavaxtalýsingu kæranda. Í fyrsta lagi sé það rangt að [S] hafi komið til hafnar kl. 16:00. Eins og fram komi á útprentun úr fjareftirliti, málskjali [….]. Hið rétta sé að [S] hafi siglt inn í Húsavíkurhöfn kl. 13:39. Fiskistofa bendir á að samkvæmt vigtarnótum,  málskjölum nr. 6 og 7 hafi aflinn verið veginn á hafnarvog á milli kl. 14:14 til 14:33 og undirmálskarið vegið um kl. 14:20. Í öðru lagi vísar Fiskistofa til þess að kærandi finni að því að hvorki skipstjóra né einhverjum úr áhöfninni hafi verið gefinn kostur á því að fylgjast með mælingunni. Fiskistofa bendir á að þessar aðfinnslur kæranda séu ekki í samræmi við málavaxtalýsingu kæranda en þar segir sem fram komi að veiðieftirlitsmaður hafi tekið á móti skipstjóra skipsins á bryggjunni og tjáð honum að hann vildi mæla undirmál afla skipsins og hafi skipstjórinn sagst treysta skipsstjóranum fyrir því. Þá segir í umsögn Fiskistofu að fram komi í málavaxtalýsingu kæranda að meðan á mælingu stóð hafi skipstjóri og áhöfn verið að störfum í bátnum. Þá staðhæfi kærandi sem ekki hafi verið viðstaddur, að einni klukkustund eftir að skipið hafi komið að landi, hafi eftirlitsmaður komið í hús [fiskverkandans]. Ennfremur staðhæfi kærandi að „ekki liggi fyrir hvað veiðieftirlitsmaður mældi“ í húsi [fiskverkandans] og ennfremur „strax eftir mælinguna“ hafi fiskurinn verið settur inn í flutningabifreið. Fiskistofa bendir á að í stjórnsýslukæru séu staðhæfingar um atvik og tímasetningar sem kærandi hafi ekki verið vitni að samkvæmt hans eigin sögn.  Í þriðja lagi bendir Fiskistofa á að kærandi staðhæfi að undanfarin 15 ár hafi aldrei verið fundið að mælingu á undirmáli. Þetta sé rangt og í því sambandi sé nægilegt að vísa til bréfs Fiskistofu, dags. 3. apríl 2014, málskjal nr. [….], þar sem fundið sé að undirmálsafla og að ekki hafi verið farið að reglum um hann. Í kjölfarið hafi aflaskráning verið leiðrétt og sá afli sem um ræddi að fullu dreginn frá aflamarki skipsins. Í fjórða lagi leggur Fiskistofa fram staðfestingar á símtölum veiðieftirlitsmanns við skipstjóra [S] í síma [skipstjórans], málskjal [….]. Hringt hafi verið í skipstjórann kl. 14:53 og rætt við hann í um það bil þrjár mínútur um fyrirhugaða mælingu og honum boðið að vera viðstaddur. Jafnframt hafi veiðieftirlitsmaður hringt tvisvar í skipstjórann, kl. 15:25 og 15:38, til að tilkynna skipstjóra um niðurstöðu mælinganna. Í  fimmta lagi vísar Fiskistofa til tölvubréfs frá Flytjanda um tímasetningar um brottför flutningabifreiða frá Húsavík þann dag sem löndun úr [S] átti sér stað. Fiskistofa vekur athygli á að mæling undirmáls hafi verið lokið kl. 15:25 samkvæmt símtalsskráningu. Það sé því rangt sem fram kemur í málavaxtalýsingu kæranda að eftir mælinguna hafi allur afli skipsins verið settur strax inn í flutningabifreið sem hefði beðið eftir veiðieftirlitsmanni og „Eftir mælinguna var allur afli skipsins settur strax inn í flutningabifreið sem hafði beðið eftir veiðieftirlitsmanni Fiskistofu er lagði strax suður til kaupanda hans“. Fiskistofa bendir jafnframt á að undirmálið og óslægð ýsa hafi ekki farið suður heldur til Þórshafnar, sbr. vigtarnótu. Í sjötta lagi bendir Fiskistofa á ósamræmi í stjórnsýslukæru. Í kærunni segi: „Ekki er rétt sem fram kemur í skýrslu veiðieftirlitsmanns ...  að hann hafi komið á bryggjuna og boðið [A] að koma og skoða fiskinn...“ en í vottorðum sem kærandi leggur fram segja „vitni“ að tveim tímum eftir löndun, um kl. 16:30, samkvæmt vigtarnótum eða a.m.k. einni klukkustund áður en fiskur fór frá Húsavík til Þórshafnar hafi veiðieftirlitsmaður tilkynnt um undirmálið.

 

Málsatvik skv. athugasemdum kæranda við umsögn Fiskistofu.

Í athugasemdum við umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæru [Y ehf.], felst kærandi á með Fiskistofu að [S] hafi komið að landi um kl. 13:40 en ekki kl. 16:00.  Kærandi áréttar að annað í umsögn Fiskistofu sé hins vegar mótmælt sem röngu og/eða stangist á við málavaxtalýsingu skipstjóra [S] og skipverja bátsins.

     Í athugasemdum segir kærandi um málsatvik að undirmálsaflinn hafi farið þaðan fljótlega upp í flutningabifreið sem staðsett hafi verið við hús [….], en bifreiðin hefi verið að safna saman vörum m.a. hjá Eimskip og fleirum sem áttu að fara suður og hafi aflinn átt að sendast suður til kaupandans [B ehf.], sem í Hafnarfirði, en einhvers misskilnings hafi gætt hjá Fiskistofu um að aflinn hafi farið til Þórshafnar sem sé rangt. Bifreiðin hafi beðið eftir eftirlitsmanni Fiskistofu og þegar hann kom á staðinn um kl. 15:30 hafi karið verið tekið úr bifreiðinni og eftirlitsmaður Fiskistofu mælt aflann án þess að hafa neinn til að votta um stærð hans.  

     Í athugasemdum kæranda kemur nú einnig fram að kærandi viti ekki hvenær nákvæmlega bifreiðin hafi lagt af stað suður, hvort sem það hafi verið kl. 16 eða 17:30, sem breyti ekki öllu þar sem hún hafi farið strax frá [….] og bryggjunni eftir mælingu veiðieftirlitsmanns. Því sé rangt sem fram hafi komið í umsögn Fiskistofu að karið hafi ekki farið til Reykjavíkur og nægur tími hafi verið til að skoða undirmálið.  Aflinn (undirmálið) hafi verið seldur frá Fiskmarkaði Þórshafnar til [fyrirtækis], í Hafnarfirði.

 

Stjórnsýslukæra barst ráðuneytinu með bréfi, dags. 12. mars 2018, þar sem ákvörðun Fiskistofu um að svipta [S] um leyfi til veiða í atvinnuskyni í eina viku var kærð. Með tölvupósti, dags.  13. apríl 2018, óskaði ráðuneytið umsagnar Fiskistofu um framkomna stjórnsýslukæru.  Jafnframt var óskað allra gagna málsins. Umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna og umbeðin gögn bárust ráðuneytinu þann 18. júní 2018, og voru send lögmanni kæranda með tölvupósti 22. júní 2018, og kæranda boðið að koma fram með athugasemdir við umsögn Fiskistofu. Athugasemdir kæranda bárust ráðuneytinu 19. júlí 2018. Ekki þótti tilefni til að senda Fiskistofu athugasemdir kæranda og er málið tekið til úrskurðar á grundvelli framangreindra gagna.

 

IV. Sjónarmið kæranda.

Kærandi vísar til þess að eftir að veiðieftirlitsmaður Fiskistofu átti samtal við skipstjórann við löndun aflans hafi liðið u.þ.b. ein og hálf klukkustund áður en veiðieftirlitsmaðurinn hafi átt að mæla aflann inni á starfsstöð fiskvinnslunnar. Því sé með ólíkindum að kar hafi beðið í u.þ.b. eina og hálfa klukkustund eftir veiðieftirlitsmanni með undirmálsafla sem síðar hafi komið í ljós að hafi ekki verið undirmálsafli. Annað hvort hafi veiðieftirlitsmaðurinn mælt rangt eða um hafi verið að ræða afla í vitlausu kari, eða að veiðieftirlitsmaður hafi ekki skráð hjá sér á staðnum undirmálið, sem einhver gat staðfest að rétt væri.  

    Kærandi bendir á að engin úr áhöfn skipsins hafi verið viðstaddur mælingu veiðieftirlitsmannsins á aflanum eða hafi komið til að staðfesta mælingar hans. Enginn hafi verið kallaður til af starfsfólki í umræddri fiskvinnslu. Þegar eftirlitsmaður Fiskistofu hafi hitt áhöfnina eftir mælinguna hafi eftirlitsmaðurinn ekki látið skrifa undir mælingarblaðið ef til var, en slíkt sé iðulega gert við svipaðar aðstæður til að tryggja sönnun á mældum afla sem sérstök nauðsyn er á þegar einn veiðieftirlitsmaður hefur mælt aflann. 

    Kærandi telur ljóst að mælingar framkvæmdar af einum veiðieftirlitsmanni rýri stórlega sönnunargildi þeirra og ekki verði séð að hægt sé að byggja á því í málinu að þarna hafi eitthvað óeðlilegt eða ámælisvert farið fram, sérstaklega í ljósi þessi hvernig framkvæmd mælingar hafi verið háttað hjá veiðieftirlitsmanni, bæði fyrir og eftir mælingu. 

     Kærandi bendir á að mælingar á undirmálsafla geti haft í för með sér refsi- og viðurlagaákvörðun þ.e. sviptingu veiðileyfis, sektir og breytingu á aflaskráningu skips. Verði því slíkar mælingar að vera hafnar yfir allan vafa, framkvæmdar af tveimur veiðieftirlitsmönnum og staðfestar af brotaþola ef kostur er. Svo hafi ekki verið í þessu tilviki.

     Kærandi vísar til þess að landaður afli hafi verið nettó 4.242 kg., eingöngu þorskur. Hinn meinti undirmálsafli hafi verið 286 kg og því undir 7% af veiddum afla, en engin þörf hafi verið af hálfu kæranda að hafa rangt við, þar sem nægar aflaheimildir hafi verið til staðar á skipinu í samræmi við framlagt skjal um aflamarksstöðu [S] þann 30. nóvember 2017. Kærandi bendir ennfremur á að lítill sem enginn hagnaður hafi verið af brotinu.  

    Kærandi telur að ljósmyndir sem kærandi fékk frá Fiskistofu séu ógreinilegar um málið og felst engin sönnun í þeim og ekki ljóst hvaðan fiskurinn á myndunum komi sem er í viðkomandi kari eða hvenær hann var settur í karið og hvaðan karið komi o.s.frv. Byggist því mál þetta eingöngu á vitnisburði og mælingum eins veiðieftirlitsmanns sem engin annar sá til.

Kærandi telur sig ekki hafa haft rangt við, aflinn hafi verið um og undir 50 cm. og hafi kærandi ekki vitað annað en að um væri að ræða undirmálsafla í viðkomandi kari. Samkvæmt því sé mælingum veiðieftirlitsmanns alfarið hafnað sem ósönnuðum.

    Í bréfi Fiskistofu, dags. 27. desember 2017, sé vísað til 6. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 607/2017. Telur kærandi sig hafa farið að fyrirmælum reglugerðarinnar og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996, þar sem undirmálsafla hafi verið haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins og veginn sérstaklega af löggiltum vigtarmanni á hafnarvog. Kærandi hafnar því að brotið hafi verið gegn ákvæði 1. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, sbr. framangreint og því beri að fella ákvörðun Fiskistofu, dags. 21. febrúar 2018, úr gildi.

Þá bendir kærandi á að í bréfi Fiskistofu, dags. 27. desember 2017, hafi verið vísað til IV. kafla laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, varðandi áminningu og veiðileyfasviptingu auk refsinga vegna hins meinta brots. Við skoðun á IV. kafla laganna sem beri heitið „Þorsksígildi“ sé að mati kæranda ekki heimild til viðurlaga, áminninga eða refsinga. Þrátt fyrir þetta hafi Fiskistofa í ákvörðun, dags. 21. febrúar 2018, beitt kæranda viðurlögum á grundvelli annarra refsiviðurlaga en fram komu í bréfi stofnunarinnar, dags. 27. desember 2017, þ.e. að beita 24. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskiveiða, sbr. 1. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, án þess að kærandi hafi fengið tækifæri á að tjá sig um tilvísun til þeirra lagaákvæða í andmælabréfi sínu. Kærandi telur að þessi ákvörðun Fiskistofu sé ekki í samræmi við tilganginn andmælabréfa og sé því brot á 13. gr. andmælareglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í þessu sambandi vísar kærandi einnig til ákvörðunar Fiskistofu, dags. 21. febrúar 2018, þar sem fram komi að andmælabréf sé ritað til að gefa viðkomandi kost á að koma með sínar athugasemdir, bæði varðandi málsatvik og heimfærslu til lagaákvæða. Kærandi telur að lögfræðingur Fiskistofu hafi ekki farið eftir þessum forsendum andmælabréfs. Þegar af þeim sökum beri að fella niður ákvörðun Fiskistofu.

Kærandi áréttar að í  ákvörðun Fiskistofu, dags. 21. febrúar 2018, sé vísað til  8. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sem hafi að geyma heimild fyrir ráðherra til að ákveða að fiskur undir tiltekinni stærð teljist aðeins að hluta til aflamarks skips. Jafnframt sé í ákvörðunarbréfi Fiskistofu vísað til þess að sömu heimild sé að finna í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar. Kærandi áréttar að ákvæði 9. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006 sé heimildarákvæði um að hluti aflans reiknist ekki til aflamarks og sé heimildin háð skilyrðum, m.a. að aflanum sé haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins og veginn sérstaklega. Kærandi telur að allt þetta hafi skipstjóri skipsins framkvæmt.

Kærandi vísar til þess að Fiskistofa staðhæfi að undirmálsfiskar hafi ekki verið aðskildir frá fiskum lengri en 50 cm um borð í [S] í umrætt sinn. Kærandi telur þessa fullyrðingu í bréfi Fiskistofu ekki rétta. Undirmálsfiskar hafi verið í kari sem fór á hafnarvog til vigtunar eins og gögn málsins beri með sér og hafi þeir því verið aðskildir frá öðrum stærri fiskum. Eftir standi því einungis sönnun um stærð undirmálsfiska sem kærandi gerir alvarlegar athugasemdir við og hafnar mælingum veiðieftirlitsmanns sem ósönnuðum.

    Í kæru segir að Fiskistofa telji að hið meinta brot falli undir ákvæði 1. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996 en ekki undir ákvæði laga nr. 116/2006. Í því ákvæði koma fram skýrar reglur um aðkomu skipstjóra um að tryggja að réttar og fullnægjandi  upplýsingar um aflann berist vigtarmanni. Af því leiði að vísa verður til viðurlagaákvæðis í lögum nr. 57/1996 (15.gr.), þ.e. sömu laga og brotalýsing sé tilgreind í. Kærandi telur því ekki rétt af hálfu Fiskistofu að vísa um grundvöll viðurlaga til viðurlagaákvæðis í öðrum lögum þ.e. til 24. gr. laga nr. 116/2006, en fyrrnefnd 8. mgr. 11. gr. þeirra laga er heimildarákvæði um undirmálsafla þar sem engin brotalýsing skipstjóra komi fyrir. Breyti engu þótt síðar segi í ákvörðun Fiskistofu á bls. 3: „Þá er í 1. mgr. 15. gr.  laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, mælt fyrir um að Fiskistofa skuli svipta skip leyfi til veiða í atvinnu skyni o.s.frv. Þá er vísað í ákvörðunarbréfi Fiskistofu til 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996 um tímalengd veiðileyfissviptingar, og til 3. mgr. 15. gr.  er varðar minni háttar brot.

     Af ákvörðun Fiskistofu megi ráða að hið meinta brot gegn 1. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996, hafi átt undir viðurlagaákvæði 24. gr. laga nr. 116/2006 eða VI. kafla laga nr. 116/2006.  Fiskistofa hafi jafnframt vísað til 15. gr. laga nr. 57/1996, í ákvörðun sinni sem stofnunin hafi ekki gert í fyrra bréfi sínu og hafi því kærandi ekki fengið tækifæri á að tjá sig um með andmælum. Heimvísun um grundvöll viðurlaga til 24. gr. laga nr. 116/2006 vegna brots á 1. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996, standist ekki eðlilegar lögskýringarreglur. Ákvörðun Fiskistofu sé því ruglingsleg og óskýr og því verði af þeim sökum að ógilda ákvörðunina.

     Þá telur kærandi að alltof harkalega hafi verið gengið að sér með veiðileyfissviptingu vegna þessa meinta brots. Hér hafi verið um meint fyrsta brot að ræða sem hafi orkað tvímælis um sönnun á mælingum og því hefði hið meinta brot í versta falli átt að sæta áminningu ef málið hefði ekki verið fellt niður. Kærandi leggur fram yfirlýsingar tveggja háseta á [S], þar sem fram kemur að veiðieftirlitsmaður Fiskistofu hafi sagt að ekki yrði gert meira í málinu.

Kærandi telur ekki liggja fyrir sönnun þess að um sé að ræða ásetningsbrot sem er úr lausu lofti gripið af hálfu lögfræðings Fiskistofu. Að áliti kæranda sé um að ræða geðþóttaákvörðun sem standist ekki meginreglur stjórnsýsluréttar.

 

V.  Sjónarmið Fiskistofu.

Fiskistofa telur að tímalína eða sá tími sem leið frá löndun og þar til eftirlitsmaður Fiskistofu mældi undirmál hafi enga efnislega þýðingu fyrir úrlausn málsins eins og kærandi lætur í veðri vaka. Fiskistofa bendir á auk þess hafi liðið mjög skammur tími frá löndun á hafnarvog og þar til undirmálið hafið verið að fullu athugað og skráð eða frá kl.14:20 til kl.15:25. Fiskistofa bendir á í þessu samhengi að um var að ræða 286 kg og 167 fiska.

     Þá er því hafnað af hálfu Fiskistofu, sem órökstuddum getgátum kæranda, að eftirlitsmaður Fiskistofu hafi ekki skráð undirmálið rétt eða að hann hafi mælt rangt. Í þessu sambandi sé rétt að benda á hreyfimynd á málskjali [….]. Enn fremur telur Fiskistofa rétt að benda á að bretti þau sem notuð eru við mælinguna gefa 1 cm frávik frá nákvæmlega réttu máli til hagsbóta fyrir þann sem sætir mælingu, þannig að fiskur sem mælist á bretti 50 cm er í raun 49 cm.

     Hvað varðar staðhæfingar kæranda að enginn hafi verið viðstaddur mælinguna telur Fiskistofa það alfarið hafa verið ákvörðun skipstjóra, þar sem honum hafi tvívegis verið gefinn kostur á kanna málið. Fyrst að vera viðstaddur og síðar að skoða undirmálsaflann eins og fram kemur í gögnum málsins. Fiskistofa áréttar að eftirlitsmaður Fiskistofu er opinber starfsmaður og hefur enga hagsmuni aðra en að sinna starfi sínu lögum samkvæmt.

     Fiskistofa telur að málatilbúnaður kæranda er því miður tómur tilbúningur eða getgátur og að engu er hafandi. Að mati Fiskistofu sé kæran uppfull röngum atvikalýsingum, þversögnum og aðdróttunum í garð eftirlitsins, sbr. 2. mgr. á bls. 3 í kærunni og sé slíkur málatilbúnaður ósæmandi.

     Fiskistofa vísar til þess að í bréfi stofnunarinnar, sem hafi verið sent var kæranda, dags. 27. desember 2017, hafi kæranda verið gefinn kostur á að koma með athugasemdir varðandi málsatvik og heimvísun til lagaákvæða. Fiskistofa bendir á að kærandi hafi strax þá falið lögmanni sínum að grípa til andmæla en augljóst hafi verið að í bréfi Fiskistofu hafði orðið misritun með tilvísun til kafla laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Ritast hafði IV. í stað VI. Það hafi verið augljóst á efni andmælabréfsins að átt hafi verið við VI. kafla. Fiskistofa telur að þegar um augljósar misritanir séu að ræða eins og í þessu tilfelli og efni beri slíkt með sér, þá sé það viðtekin venja að textinn sé lesinn á þann hátt að breyttu breytanda.

     Þá er því hafnað af Fiskistofu sem að kærandi hafi ekki fengið að tjá sig um 1. og 2. mgr. 15. gr. laga nr.  57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Kæranda hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um heimvísun til lagákvæða. Þá verði að hafa í huga að til andmæla var lögmaður og verður almennt að gera aðrar kröfur til málefnalegrar lögfræðilegra rökræðu en ef leikmaður ætti í hlut.

     Fiskistofa vísar til þess að lögmaður kæranda telji að óheimilt hafi verið að vísa til viðurlaga og refsiákvæða laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, þegar brotalýsing eigi heima undir. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Fiskistofa telur hér vera misskilning hjá lögmanni kæranda. Andmælabréfið, dags 27. desember 2017, sé ritað til að gefa viðkomandi kost á að koma með sínar athugasemdir, bæði varðandi málsatvik og heimfærslu til lagaákvæða. Vandséð sé hvernig það geti verið óheimilt að upplýsa um slík atvik eða lagatilvitnanir sem stofnunin telur að atvikin falli undir. Fiskistofa bendir á í þessu sambandi að 6. mgr. 9. gr. laga nr. 116/2006 veiti ráðherra heimild til ákveðinnar ívilnunar með reglugerð til að hvetja sjómenn til að koma með afla að landi þótt um smáfisk sé að ræða. Í reglugerð nr. 607/2017 sé þessi ívilnun nánar útfærð. Þá segi m.a. í 18. gr. reglugerðarinnar að brot á henni varði viðurlögum skv. ákvæðum laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Fiskistofa hafnar því lagaútlistunum lögmanns útgerðarinnar. Fiskistofa vísar til þess að í skýrslu eftirlitsmanns sé um mjög greinargóða lýsingu á aðdraganda lengdarmælingarinnar. Þar sé meðal lýsing á að hann hafi hringt í skipstjóra og tilkynnt honum um væntanlega mælingu, en sá síðarnefndi sá sér ekki fært að vera viðstaddur. Að mælingu lokinni bauð eftirlitsmaður skipstjóra að koma og skoða mælinguna. Skipstjóri hafnaði því. Fiskistofa bendir á að þessari atvikalýsingu er ekki mótmælt í andmælabréfinu. Fiskistofa leggur því til grundvallar ákvörðun sinni lýsingu eftirlitsmanns og hafnar sjónarmiðum kæranda um að mælingar hans séu undirorpnar einhverjum vafa.        

     Fiskistofa vísar til þess að lögð sé fram yfirlýsing tveggja háseta. Fiskistofa telur að í yfirlýsingunum séu veigamiklar staðreyndavillur. Sú fyrsta og mikilvægasta sé að ekki hafi verið hægt að sjá undirmálskarið. Þetta sé beinlínis rangt því ef miðað sé við lok löndunar skv. vigtarnótum kl. 14:20 og að viðkomandi hafi verið á heimleið u.þ.b. 2 klst. eftir löndun eða kl. 16:20. Þá hafi liðið a.m.k. 1 kst. og 10 mínútur eða jafnvel allt að rúmlega 3 klst þangað til að flutningsbílar hafi farið með afla frá Húsavík. Nægur tími hafi verið fyrir kæranda til að skoða undirmálskarið. Fiskistofa telur framangreindar yfirlýsingar vera tilbúning af hálfu kæranda og vísar til 147. gr. almennra hegningarlaga,  nr. 19/1940 en þar segir að „Ef maður annars lætur uppi ranga skriflega yfirlýsingu eða gefur skriflegt vottorð um eitthvað, sem honum er ekki kunnugt um, og það er ætlað til notkunar í dómsmálum, öðrum málefnum, sem varða hið opinbera eða gerðardómsmálum, þá skal hann sæta sektum … eða fangelsi allt að 4 mánuðum.“  Að mati Fiskistofu sé það ábyrgðarhluti að leggja fram slík vottorð manna sem eigi afkomu sína undir þeim sem nýti slíkar yfirlýsingar. Þá þyki Fiskistofu rétt að upplýsa að þótt málinu sé lokið að hálfu Fiskistofu á stjórnsýslustigi sé ekki loku fyrir það skotið að málið verði kært til lögreglu.    

     Fiskistofa vísar um lagarök til þess að 6. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 607/2017, mæli fyrir um þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að undirmálsþorskur teljist aðeins að hluta til aflamarks skips. Í fyrsta lagi þurfi þorskurinn að vera styttri en 50 cm og í öðru lagi þurfi þorskurinn að vera aðskilinn frá öðrum afla. Í því felist að undirmálsfiskarnir þurfi að vera aðskildir frá fiskum sem eru 50 cm eða lengri. Svo hafi ekki verið var ekki um borð í  [S], í umrætt sinn. Skipið hafi landað  286  kg af þorski (nettó) sem skipstjóri hafi gefið upp sem undirmálsþorsk, þrátt fyrir að 98,2,% aflans væri fiskur sem hafi verið 50 cm á lengd eða lengri. Með þessu hafi verið brotið gegn 1. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996 sem mæli fyrir um að skipstjóri skuli tryggja að réttar og fullnægjandi upplýsingar berist til vigtarmanns og eins því skilyrði til að njóta ívilnunar að telja undirmálið eingöngu að hálfu til aflamarks. Brot gegn ákvæðum þessum varði viðurlögum samkvæmt ákvæðum 24. gr. laga nr. 116/2006, þar sem mælt sé fyrir um að Fiskistofa skuli veita áminningar og svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni, eða eftir atvikum leyfi til strandveiða, fyrir brot á lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim, sbr. reglugerð nr. 602/2017, eftir því sem nánar sé fyrir mælt í lögum um umgengni um nytjastofna sjávar. Þá sé í 1. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, mælt fyrir um að Fiskistofa skuli svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa hafa brotið gegn ákvæðum laga þessara eða reglum settum samkvæmt þeim. Í 2. mgr. 15. gr. sé mælt fyrir um tímalengd veiðileyfissviptinga, en í 3. mgr. sé mælt fyrir um að við fyrsta minniháttar brot skuli, þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr., veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu. Engin fyrri brot hafi áhrif á ákvörðun viðurlaga í þessu máli. Brotið verði hins vegar að teljast eindregið ásetningsbrot að mati Fiskistofu og því sé ekki um minniháttar brot að ræða í skilningi 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996.

 

VI. Rökstuðningur.

a.   Mæling á undirmáli í afla.

Kærandi telur að ábyrgðin á mælingu undirmáls í afla skipsins [S] sé alfarið á ábyrgð eftirlitsmanns Fiskistofu en veiðieftirlitsmaðurinn þurfi að tryggja sér sönnun fyrir því sem hann er að gera. Eins og segir í athugasemdum kæranda við umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna. Kærandi telur þannig ekki sannað að veiðieftirlitsmaður hafi mælt undirmál í aflanum með réttum hætti Þannig að varði viðurlögum gegn ákvæði 1. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar. Kærandi lýsir málsatvikum í stjórnsýslukæru þannig að veiðieftirlitsmaður Fiskistofu hafi viljað mæla undirmál í afla skipsins og kvaðst skipstjórinn treysta honum fyrir því þar sem á undanförnum 15 árum hafi oft verið mælt undirmál í afla skipsins en þá verið tveir eftirlitsmenn við þá iðju og ætíð verið í lagi. Jafnframt segir í  athugasemdum kæranda við umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna að á þeim tíma hafi skipstjórinn verið upptekinn við löndun og að gera bátinn klárann fyrir næstu veiðiferð en hafi sagt veiðieftirlitsmanninum að mæla undirmálið. Það er því óumdeilt samkvæmt gögnum málsins að eftirlitsmaður Fiskistofu bauð skipstjóra [S] að vera viðstaddan mælingu aflans áður en niðurstaða eftirlits lá fyrir. Skipstjórinn þáði hins vegar ekki það boð. Ráðuneytið telur að málsgögn sýni að kærandi hafi samþykkt að veiðieftirlitsmaðurinn myndi mæla undirmál í afla skipsins án viðveru skipstjórans enda kvaðst skipstjórinn treysta eftirlitsmanni Fiskistofu fyrir mælingunni. Samkvæmt framansögðu einskorðaðist samþykkið ekki við að niðurstaða mælingar á aflanum væri lögum samkvæmt heldur mátti eftirlitsmaðurinn treysta því að mæling yrði ekki rengd af kæranda ef niðurstaða mælingarinnar kallaði á viðbrögð af hálfu Fiskistofu.

     Ráðuneytið telur að málsgögn sýni að framangreint samþykki hafi verið án fyrirvara um staðfestingu skipstjórans eða annara áhafnarmeðlima á framkvæmdum mælingum og því hafi samskipti eftirlitsmanns Fiskistofu eftir mælinguna ekki þýðingu fyrir niðurstöðu málsins að lögum. 

     Ráðuneytið telur þannig í ljósi framangreindra samskipta eftirlitsmanns Fiskistofu við skipstjóra [S] að eftirlitsmaður Fiskistofu hafi verið í góðri trú um að samþykki lægi fyrir um að hann einn mældi undirmál í aflanum og ekki væri nauðsynlegt að skipstjórinn eða einhvern úr áhöfn skipsins væri viðstaddur meðan á mælingu stóð til að staðreyna mælingar á aflanum eða þyrfti að staðfesta hana eftir á.

     Ráðuneytið vekur jafnframt athygli á að atvikalýsing kæranda í stjórnsýslukæru hefur breyst við meðferð kærumálsins auk þess sem kærandi lýsir málsatvikum í stjórnsýslukæru, sem hann var ekki vitni að, enda ekki á staðnum þegar undirmál var mælt. Þessir þættir rýra áreiðanleika frásagnar kæranda af málsatvikum.

     Ráðuneytið telur því í ljósi málsatvika að kærandi eigi að bera hallan af því að vera ekki viðstaddur mælingar eftirlitsmanns Fiskistofu. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að eftirlitsmaður Fiskistofu er opinber starfsmaður og hefur enga aðra hagsmuni en að sinna starfi sínu lögum samkvæmt. Ráðuneytið telur þannig í ljósi málsatvika að kærandi beri sönnunarbyrðina fyrir staðhæfingum sínum um ranga mælingu undirmálsafla. Í ljósi alls framangreinds tekur ráðuneytið undir með Fiskistofu um að staðhæfingar kæranda um ranga mælingu á undirmáli séu órökstuddar og ósannaðar.

 

b.   Réttur afli mældur.

Kærandi staðhæfir í stjórnsýslukæru að mögulega hafi eftirlitsmaður Fiskistofu mælt afla í röngu fiskkari. Í stjórnsýslukæru segir að það hafi legið fyrir hvað veiðieftirlitsmaður Fiskistofu hafi mælt inn í fiskvinnsluhúsi og ennfremur að annað hvort hafi veiðieftirlitsmaðurinn mælt rangt eða um sé að ræða afla í vitlausu kari, eða að veiðieftirlitsmaður hafi ekki skráð hjá sér á staðnum undirmálið, sem einhver gat staðfest að væri rétt. Kærandi telur upplýsingar frá Fiskistofu vera ógreinilegar um málið og að í þeim felist engin sönnun og ekki sé ljóst hvaðan fiskurinn á myndunum komi sem sé í viðkomandi kari eða hvenær fiskurinn hafi verið settur í karið og hvaðan karið komi. Kærandi virðist falla frá framangreindu í athugasemdum við umsögn Fiskistofu vegna þess að bifreiðin hafi beðið eftir eftirlitsmanni Fiskistofu og loks þegar hann hafi komið á staðinn um kl. 15:30 hafi karið verið tekið úr bifreiðinni og eftirlitsmaður Fiskistofu mælt aflann án þess að hafa neinn til að votta um stærð aflans. Þessi málatvik eins og þeim er lýst í athugasemdum kæranda við umsögn Fiskistofu eru í samræmi við framlagða yfirlýsingu starfsmanns á lyftara hjá fiskverkandanum sem staðfestir að umrætt undirmálskar hafi verið tekið úr bifreiðinni og afli þess mældur af eftirlitsmanni Fiskistofu.

     Í ljósi framangreindra staðhæfinga kæranda og framlagðrar yfirlýsingar starfsmanns hjá fiskverkandanum telur ráðuneytið að réttur afli hafi verið mældur af eftirlitsmanni Fiskistofu, enda var umrætt fiskkar tekið sérstaklega úr bifreiðinni af þriðja aðila sem þekkti til eins og málsatvikum er lýst og eftirlitsmaðurinn mældi aflann í framhaldinu.

     Ráðuneytið telur í öllu falli, í ljósi framangreindra málsatvika, að staðhæfingar kæranda um að rangur afli hafi verið mældur séu órökstuddar og ósannaðar og í ljósi málsatvika eigi kærandi að bera hallan af því að vera ekki viðstaddur mælingar eftirlitsmanns Fiskistofu á undirmálsaflanum.

 

c.   Lagatilvísanir í andmælabréfi.

Kærandi vísar til þess að í bréfi Fiskistofu, dags. 27. desember 2017, þar sem óskað var andmæla kæranda, hafi ranglega verið vísað til IV. kafla laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, um brot kæranda, en sá kafli fjallar um þorskígildi í stað VI. kafla sömu laga, sem fjallar um viðurlög ofl. Jafnframt hafi Fiskistofa ekki vísað til  15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, í umræddu bréfi til kæranda eins og síðar varð raunin. Tilvísun laga um viðurlög vegna brots kæranda hafi því vantað í umrætt andmælabréf. Telur kærandi að þessi annmarki valdi ógildingu á ákvörðun Fiskistofu, dags. 21. febrúar 2018, þar sem um er að ræða brot á andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ráðuneytið bendir á að í bréfi Fiskistofu til kæranda. dags. 27. desember 2017, er greinargóð lýsing á aðdraganda lengdarmælingarinnar, greint frá hinu meinta broti og vísað með ítarlegum hætti til efnis 6. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 607/2017, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2017/2018,  en sú reglugerð er sett með heimild í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar auk annara laga. Skýrt er kveðið á um í 18. gr. reglugerðarinnar að brot á reglugerðinni varða viðurlögum skv. ákvæðum laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Jafnframt segir í 18. gr. reglugerðarinnar að um áminningar og sviptingu veiðileyfa vegna brota á ákvæðum reglugerðarinnar fari meðal annars skv. ákvæðum laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Jafnframt vísar Fiskistofa í framangreindu bréfi til kæranda til 1. mgr. 9. gr. nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar en framangreind reglugerð er sett með stoð í þessu lagaákvæði.

     Ráðuneytið áréttar að enda þótt ranglega sé vísað til IV. kafla laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða í bréfi Fiskistofu, er réttilega tilgreint að brot gegn framangreindu reglugerðarákvæði og lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, varði áminningu eða veiðileyfasviptingu auk refsinga. Í niðurlagskafla bréfsins segir jafnframt að Áður en ákvörðun verður tekin um hvort aflinn sem um ræðir í málinu verði færður að fullu til aflamarks [S] eða gripið til annarra viðurlaga svo sem veiðileyfissviptingar..“ 

     Í svarbréfi kæranda vegna andmælabréfs Fiskistofu, dags. 15. febrúar 2018, sem ritað er af lögmanni hans vekur lögmaðurinn athygli á misritunni og kýs að vísa til þess að IV. kafli laganna, sem beri heitið “Þorskígildi“, hafi ekki að geyma heimildir til viðurlaga, áminninga eða refsinga og þegar af þeirri ástæðu sé ekki heimilt að beita umbjóðanda hans neinu slíku.  Í samræmi við þennan lagaskilning kýs lögmaðurinn ekki að andmæla viðurlögum.

     Ráðuneytið telur samkvæmt framansögðu að enda þótt skort hafi tilvísun í viðurlagaákvæði 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar og framangreind tilvísun í IV. sé óheppileg valdi slík vöntun á tilvísun eða augljós misritun í andmælabréfi Fiskistofu ekki ógildingu ákvörðunar Fiskistofu. Ráðuneytið telur að kæranda hafi mátt vera ljóst af lestri andmælabréfs Fiskistofu að meint brot gæti varðað áminningu, veiðileyfasviptingu eða refsinga samkvæmt viðurlagaköflum laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og/eða laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Í þessu sambandi verður jafnframt að horfa til þess að kærandi naut aðstoðar löglærðs aðila, sem hafði tækifæri til að kynna sér og  andmæla meintum viðurlögum samkvæmt framangreindum lögum við upphaf málsmeðferðar.

     Skilja má málatilbúnað kæranda þannig að Fiskistofu hafi verið óheimilt að vísa til viðurlaga og refsiákvæða laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, þegar brotalýsing falli undir 1. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Í þessu sambandi ítrekar ráðuneytið að ekki liggi fyrir í málsgögnum að Fiskistofa hafi brotið gegn kæranda enda hafi kærandi haft tök á að andmæla málsatvikum, málsástæðum og lagarökum Fiskistofu við lestur bréfsins Fiskistofu. dags. 27. desember 2017.

 

d.   Meiriháttar brot.

Kærandi telur of harkalega hafi verið gengið fram með veiðileyfissviptingu vegna hins meinta brots.  Um sé að ræða meint fyrsta brot sem orki tvímælis vegna sönnun á mælingum og því hefði hið meinta brot í versta falli átt að sæta áminningu ef málið hefði ekki verið fellt niður. Kærandi vísar til yfirlýsinga háseta á [S], þar sem fram kemur að eftirlitsmaður Fiskistofu hafi sagt að ekki yrði gert meira í málinu sem síðar reyndist ekki rétt. Kærandi mótmælir þannig að um ásetningsbrot hafi verið að ræða af hálfu skipstjóra [S], enda engin ástæða til slíks þar sem nægar aflaheimildir hafi verið á bátnum og því engin ástæða eða ásetningur að skrá undirmálsafla með röngum hætti.

    Ráðuneytið vísar til þess að 6. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 607/2017, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2017/2018, mæli fyrir um þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að undirmálsþorskur sem er styttri en 50 cm (27 cm hausaður) teljast að hálfu til aflamarks. Skilyrði er að afli sé undir áðurgreindum stærðarmörkum, að umræddur undirmálsafli fari ekki yfir 10% af viðkomandi tegund í veiðiferð og að undirmálsafli sé aðgreindur frá öðrum afla.

     Skipið [S] landaði 286 kg. af þorski (nettó) sem skipstjóri gaf upp sem undirmálsþorsk þrátt fyrir að 98,2% aflans væri fiskur sem væri 50 cm eða lengri. Þegar undirmálsmæling er framkvæmd er miðað við að fiskur, sem er 51 cm eða lengri, sé yfir leyfilegum mörkum. Samkvæmt þessu var uppgefinn undirmálsafli yfir þeim stærðarmörkum sem reglur mæla fyrir um, sbr. 6. mgr. 9. gr. reglugerðar nr.  607/2017.

    Í greinargerð frumvarps sem síðar varð að lögum nr. 163/2006, um breytingu á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar hvað varðar viðurlagaákvæði segir í athugasemdum við breytingar á 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. „Við ákvörðun þess hvort um minni háttar brot telst vera að ræða, í skilningi þessara lagaákvæða, er eðlilegt að litið verði m.a. til þess hvort ætla megi að brot hafi í för með sér umtalsverðan ávinning fyrir hlutaðeigandi útgerð og/eða tengda aðila, hversu mikilvægum hagsmunum brot ógnar og hvort það hefur verið framið af ásetningi eða gáleysi.“

    Ráðuneytið telur að framangreint brot varði mikilvæga hagsmuni. Brotið felur í sér ranga aflaskráningu [S]. Þannig felur brotið í sér aukningu á úthlutuðu aflamark skipsins andstætt lögum þar sem skráður undirmálsþorskur upp á 286 kg. var ranglega skráður að hálfu til aflmarks skipsins enda þótt stærstur hluti þess afla hafi átt að skrást að fullu til aflamarks skipsins. Í ljósi málsatvika og þess að nánast allur afli skipsins sem skráður var og vigtaður á hafnarvog sem undirmálsafli eða 98,2%, var fiskur sem var 50 cm eða lengri verður að líta svo á að um ásetningbrot hafi verið að ræða sem hafi haft það markmið að afla útgerðinni fjárhagsleugum ávinningi. Í ljósi alls þessa telur ráðuneytið að um meiriháttar brot hafi verið að ræða sem leiði til sviptingar leyfis til veiða í atvinnuskyni en ekki áminningar.

    

VII.           Niðurstaða.

Ráðuneytið telur ljóst að 286 kg. af þorski hafi verið skráð sem undirmál sbr. 6. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 607/2017, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2017/2018, þrátt fyrir að aflinn hafi ekki staðist þau skilyrði sem mælt er fyrir um í ákvæðinu varðandi stærðarmörk þorsks sem heimilt er að skrá sem undirmál. Varðar slíkt brot gegn 1. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

Ráðuneytið telur að af málavaxtalýsingu megi ráða að kærandi hafi samþykkt að veiðieftirlitsmaðurinn myndi mæla undirmál í afla skipsins án viðveru skipstjórans, enda kvaðst skipstjórinn treysta eftirlitsmanni Fiskistofu fyrir mælingunni. Telja verður atvikalýsingu kæranda mjög á reiki sem rýrir áreiðanleika frásagnar kæranda af málsatvikum.  Ráðuneytið telur því í ljósi málsatvika að kærandi eigi að bera hallan af því að vera ekki viðstaddur mælingar eftirlitsmanns Fiskistofu. Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að eftirlitsmaður Fiskistofu er opinber starfsmaður og hefur enga aðra hagsmuni en að sinna starfi sínu lögum samkvæmt. Ráðuneytið telur þannig í ljósi málsatvika að kærandi beri sönnunarbyrðina fyrir staðhæfingum sínum um ranga mælingu undirmálsafla. Í ljósi alls framangreinds tekur ráðuneytið undir með Fiskistofu um að staðhæfingar kæranda um ranga mælingu á undirmáli séu órökstuddar og ósannaðar.

     Ráðuneytið telur að málsgögn sýni að réttur afli hafi verið mældur. Í öllu falli beri kærandi ljósi málsatvika sönnunarbyrðina fyrir staðhæfingum sínum um að rangur afli hafi verið mældur. Ráðuneytið áréttar í þessu sambandi að eftirlitsmaður Fiskistofu er opinber starfsmaður og hefur enga aðra hagsmuni en að sinna starfi sínu lögum samkvæmt.

     Samkvæmt framansögðu hafa samskipti eftirlitsmanns Fiskistofu við kæranda eftir mælingu aflans ekki þýðingu fyrir niðurstöðu málsins að lögum, enda hafi legið fyrir samþykki skipstjóranas að eftirlitsmaður Fiskistofu myndi mæla undirmál í afla skipsins án viðveru skipstjórans.      

     Ráðuneytið telur að enda þótt skort hafi tilvísun í viðurlagaákvæði 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar og framangreind tilvísun í IV. kafla sé óheppileg, valdi slík vöntun á tilvísun eða augljós misritun í andmælabréfi Fiskistofu ekki ógildingu ákvörðun stofnunarinnar, enda hafði kærandi, sem naut aðstoðar löglærðs aðila, tækifæri til að andmæla tilgreindum viðurlögum í andmælabréfi Fiskistofu við meðferð málsins.

     Ráðuneytið telur að framangreint brot varði mikilvæga hagsmuni, þar sem brotið felur í sér ranga aflaskráningu skipsins [S]. Líta verður svo á að um ásetningbrot hafi verið að ræða sem hafi haft það markmið að afla útgerðinni fjárhagslegs ávinnings. Í ljósi alls þessa telur ráðuneytið að um meiriháttar brot hafi verið að ræða sem leiði til sviptingar leyfis til veiða í atvinnuskyni, sbr. 1. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

     Með vísan til framangreinds staðfestir ráðuneytið ákvörðun Fiskistofu, dags. 21. febrúar 2018.

 

ÚRSKURÐARORÐ

     Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 21. febrúar 2018, annars vegar um að svipta skipið [S] leyfi til veiða í atvinnuskyni í eina viku frá og með 24. febrúar 2018, skv. 1. og 2. mgr. laga nr. 57/1996, um umgengi um nytjastofna sjávar, vegna brots á 1. mgr. 9. gr. laganna og 6. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 607/2017, um veiðar í atvinnuskyni á fiskveiðiárinu 2017/2018 og hins vegar um að leiðrétta aflaskráningu skipsins þannig að 286 kg af þorski dragist að fullu frá aflamarki skipsins.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta