Hoppa yfir valmynd
13. júní 2024 Forsætisráðuneytið

1200/2024. Úrskurður frá 13. júní 2024

Hinn 13. júní 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1200/2024 í máli ÚNU 23010004.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 11. janúar 2023, kærði […] synjun embættis ríkislögmanns á beiðni um gögn.
 
Aðdragandi málsins er sá að 31. október 2022 sendi kærandi bréf til ríkislögmanns og krafðist viður­kenn­ing­ar á bótaskyldu vegna miska sem hann og dóttir hans hefðu orðið fyrir vegna meðferðar Sýslu­manns­ins á höfuðborgarsvæðinu á kröfu hans um umgengni við dóttur sína samkvæmt samkomulagi. Ríkis­lögmaður sendi bréf til dómsmálaráðuneytis og Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 8. nó­vem­ber 2022. Í bréfunum gerði ríkislögmaður grein fyrir framkominni kröfu kæranda og óskaði eftir um­sögnum viðkomandi stjórnvalda um kröfuna og málatilbúnað kæranda og að aflað yrði þeirra gagna sem kynnu að varða málið og ekki fylgdu bréfi kæranda. Umsagnir bárust frá Sýslumanninum á höfuð­borg­arsvæðinu 2. desember 2022 og dómsmálaráðuneyti 13. sama mánaðar. Ríkislögmaður svaraði í kjölfarið kæranda með bréfi 21. desember 2022 þar sem kröfu um viðurkenningu á bótaskyldu var hafn­að.
 
Með tveimur tölvupóstum 27. desember 2022 til ríkislögmanns krafðist kærandi „gagna vegna um­rædds máls“ og „umsagna DMR og Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu“ með vísan til 14. gr. upp­lýs­ingalaga, nr. 140/2012. Ríkislögmaður svaraði beiðni kæranda 5. janúar 2023 og synjaði honum um aðgang að umsögnunum tveimur með vísan til þess að réttur til aðgangs að gögnum tæki ekki til „bréfaskipta við sérfróða aðila í tengslum við réttarágreining eða til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað“, sbr. 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 14. gr. lag­anna. Hvað varðaði beiðni kæranda að öðru leyti tók ríkislögmaður fram að þau gögn sem lægju fyrir væru gögn úr tilteknu stjórnsýslumáli sem leitt hefði verið til lykta með úrskurði dóms­mála­ráðu­neyt­isins 8. desember 2022. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. upplýsingalaga væri „mælt fyrir um að þegar farið er fram á aðgang að gögnum í máli þar sem taka á eða tekin hefur verið stjórnvaldsákvörðun“ skyldi beina beiðni um aðgang að gögnum til þess sem tekið hefur eða muni taka ákvörðun í málinu. Í sam­ræmi við þetta og 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, yrði beiðni kæranda um aðgang að gögn­um, að þessu leyti, framsend dómsmálaráðuneytinu til afgreiðslu.
 
Í framhaldinu af þessari synjun vísaði kærandi málinu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sem fyrr greinir. Í kæru málsins kemur m.a. fram sú afstaða kæranda að undantekningin um bréfaskipti við sér­fróða aðila samkvæmt 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga eigi ekki við þar sem sérfróðir aðilar hafi ekki fjall­að efnislega um málið. Brýnir almannahagsmunir með tilliti til upplýsingaréttar almennings og trausts á stjórnsýslunni varði þetta mál, annars vegar hvort sérfróðir aðilar hafi yfirleitt fjallað um málið og hins vegar sé með öllu óljóst hvað ríkislögmaður eigi við með réttarágreiningi og sé það ekki rökstutt í svari embættisins. Loks krefst kærandi lista frá ríkislögmanni yfir gögn málsins, með málsnúmerum og heitum gagna.
 

Málsmeðferð

Kæran var kynnt ríkislögmanni þann 12. janúar 2023 og embættinu veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að ríkislögmaður léti úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál í té afrit af þeim gögnum sem kæran lyti að.
 
Umsögn ríkislögmanns barst úrskurðarnefndinni 23. janúar 2023. Í umsögninni kemur fram að emb­ætt­ið telji að beiðni kæranda hafi verið afgreidd lögum samkvæmt. Í samhengi við afgreiðslu á beiðni kær­anda um aðgang að umsögnum hafi þó láðst að greina frá afstöðu ríkislögmanns til aukins aðgangs sam­kvæmt 2. mgr. 11. gr. upplýsingalaga og leiðbeina honum um rétt til kæru samkvæmt 20. gr. sömu laga, sbr. 19. gr. laganna, og verði framvegis gætt að því.
 
Í því skyni að bæta úr framangreindu er þess getið í umsögninni að það sé afstaða embættisins að ekki sé ástæða til að neyta heimildar 11. gr. upplýsingalaga til að veita aðgang að þeim gögnum sem falli und­ir ákvæði 3. tölul. 6. gr. laganna. Loks er til þess vísað að í kærunni sé krafist gagnalista frá ríkis­lög­manni. Þótt þessi beiðni hafi ekki áður borist embættinu og því ekki hlotið afgreiðslu þess sé vakin at­hygli á að fyrirliggjandi gögn í málinu séu eftirtalin:
 

  1. Erindi kæranda til ríkislögmanns 31. október 2022 og 23 fylgiskjöl sem talin eru upp í niðurlagi erind­isins.
  2. Umsagnarbeiðnir embættis ríkislögmanns 8. nóvember 2022 til ráðuneytis og sýslumanns.
  3. Tölvupóstsamskipti vegna frestbeiðna ráðuneytis og sýslumanns
  4. Umsögn sýslumanns til embættis ríkislögmanns 2. desember 2022
  5. Úrskurður sýslumanns 11. maí 2022
  6. Umsögn ráðuneytisins til embættis ríkislögmanns 13. desember 2022
  7. Úrskurður ráðuneytisins 8. desember 2022
  8. Bréf embættis ríkislögmanns til kæranda 21. desember 2022
  9. Tölvubréf 21. desember 2022 til 5. janúar 2023.

 
Umsögn ríkislögmanns var kynnt kæranda með bréfi, dags. 23. janúar 2023, og honum veittur kostur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum sem hann og gerði með tölvupósti 24. sama mánaðar.
 
Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga. Úr­skurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess og sjón­ar­miðum kær­anda.
 

Niðurstaða

1.

Í málinu hefur kærandi krafist aðgangs að gögnum máls hjá ríkislögmanni sem varðar afgreiðslu og með­ferð ríkislögmanns á kröfu kæranda sjálfs um viðurkenningu bótaskyldu.
 
Gögn þess máls sem beiðni kæranda lýtur að eru í fyrsta lagi krafa kæranda um viðurkenningu bóta­skyldu, dags. 31. október 2022, og 23 fylgigögn með kröfunni. Kærandi hefur þegar aðgang að þessum gögn­um.
 
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að ákvæði upplýsingalaga, nr. 140/2012, bæði þau ákvæði sem varða upplýsingarétt almennings, sbr. 5. gr. laganna, og rétt aðila til aðgangs að upplýs­ing­um sem varða hann sjálfan, sbr. 14. gr. laganna, byggjast á því að hægt sé að óska aðgangs að fyrir­liggj­andi gögn­um hjá stjórnvöldum með þeim takmörkunum sem leiða af lögum. Í því efni skiptir al­mennt ekki máli hvort umbeðin gögn hafa í upphafi borist stjórnvöldum frá þeim sem óskar aðgangs að þeim, enda getur það verið þáttur í upplýsingarétti að fá staðreynt hvaða gögn liggja fyrir hjá stjórn­völd­um.
 
Þegar litið er til beiðni kæranda um aðgang að gögnum og þegar kæra málsins til úrskurðarnefndarinnar er virt heildstætt verður kæruefni málsins þó afmarkað þannig að í því felist ekki krafa um afhendingu þess­ara tilteknu gagna frá ríkislögmanni. Fellur því álitaefni um rétt kæranda til aðgangs að þeim utan við viðfangsefni þessa úrskurðar.
 

2.

Fyrirliggjandi gögn eru í öðru lagi tvö bréf ríkislögmanns til dómsmálaráðuneytis annars vegar og til Sýslu­mannsins á höfuðborgarsvæðinu hins vegar, bæði dags. 8. nóvember 2022, þar sem óskað er um­sagna þessara stjórnvalda um bótakröfu kæranda, og svör stjórnvalda við þeim erindum, þ.e. umsögn Sýslu­mannsins á höfuðborgarsvæðinu til ríkislögmanns, dags. 2. desember 2022, og umsögn dóms­mála­ráðuneytis til ríkislögmanns, dags. 13. desember 2022. Þessi fjögur gögn hefur kærandi ekki fengið af­hent.
 
Synjun ríkislögmanns hvað þessi gögn varðar byggist á 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt því ákvæði nær réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til bréfaskipta við sérfróða aðila í tengslum við réttarágreining eða til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað. Ákvæð­ið á einnig við þegar réttur til aðgangs að gögnum er byggður á III. kafla upplýsingalaga um aðgang aðila að upplýsingum um hann sjálfan, enda segir í 1. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna að aðgangur aðila að upplýsingum samkvæmt 14. gr. nái ekki til gagna sem talin séu í 6. gr. laganna. Heimildir til beitingar 3. tölul. 6. gr. eru því hinar sömu hvort sem réttur til aðgangs er byggður á 5. gr. eða 14. gr. upp­lýs­inga­laga, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 870/2020.
 
Í athugasemdum við 3. tölul. 6. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012, segir:
 

Hér að baki býr það sjónarmið að hið opinbera geti, á sama hátt og hver annar aðili að dóms­máli, leitað ráðgjafar sérfróðra aðila án þess að þær upplýsingar sem þannig er aflað kom­ist til vitundar gagnaðila. Ber að túlka ákvæðið þannig að það tryggi að hið opinbera standi ekki vegna upplýsingalaga höllum fæti í dómsmálum. Undanþágunni verður aðeins beitt um gögn sem verða til eða aflað er gagngert í þessu skyni og tekur því t.d. ekki til álits­gerða eða skýrslna sérfræðinga sem aflað er við meðferð stjórnsýslumála almennt. Hlið­stæð undanþága frá upplýsingarétti aðila máls er í stjórnsýslulögum.

 
Orðalag ákvæðisins og athugasemdir þar að lútandi í greinargerð benda ekki til þess að gerð sé krafa um að bréfaskipti eigi sér stað eftir að dómsmál er höfðað eða beinlínis í tilefni af ákvörðun um að höfða eða taka til varna í slíku máli. Samkvæmt sjónarmiðum sem fram koma í bréfi umboðsmanns Al­þingis frá 13. desember 2002, í máli nr. 3643/2002, sem lýtur að skýringu sambærilegs ákvæðis í stjórn­sýslulögum, nr. 37/1993, og þeim athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga ber að skýra ákvæðið með það fyrir augum að tryggja jafnræði á milli aðila máls og viðkomandi stjórnvalds ef til dómsmáls kemur. Í fyrrgreindu bréfi umboðsmanns sagði enn fremur að nægilegt væri að beiðni stjórn­valds um álit sérfróðs aðila væri sett fram í tilefni af framkominni kröfu aðila máls um skaðabætur þar sem lagt er til grundvallar að leitað verði til dómstóla fallist stjórnvald ekki á kröfuna.
 
Með hliðsjón af framangreindu verður ekki talið að nauðsynlegt sé að bréfaskipti stjórnvalds við sér­fróð­an aðila standi í beinum tengslum við mál sem þegar hefur verið höfðað eða þegar hefur verið tekin ákvörðun um að höfða. Undir undanþáguna falla einnig bréfaskipti sem til koma vegna könnunar stjórn­valds á réttarstöðu sinni í tengslum við nærliggjandi möguleika á slíkri málshöfðun, enda lúti þau ekki með beinum hætti að meðferð stjórnsýslumála. Þá tekur undanþágan samkvæmt framansögðu einn­ig til réttarágreinings sem lagður er í annan farveg, t.d. fyrir sjálfstæðri úrskurðarnefnd, eða þegar til greina kemur að leggja ágreining í slíkan farveg.
 
Samkvæmt 1. og 2. mgr. 2. gr. laga um ríkislögmann, nr. 51/1985, fer hann með uppgjör bótakrafna sem beint er að ríkissjóði og með vörn þeirra einkamála fyrir dómstólum og gerðardómum sem höfðuð eru á hendur ríkinu og sókn þeirra einkamála sem ríkið höfðar á hendur öðrum. Samkvæmt leið­bein­ing­um forsætisráðuneytisins fyrir ráðuneyti og stofnanir frá desember 2019, um verklag í samskiptum við embætti ríkislögmanns, kemur fram að allar bótakröfur sem beinast að ríkinu fari annaðhvort beint til ríkislögmanns eða til viðkomandi ráðuneytis eða stofnunar sem framsendi kröfu til hans, sjá kafla 3.2 í leiðbeiningunum. Í sama kafla kemur fram að ríkislögmaður fái fram afstöðu hlutaðeigandi ráðu­neyt­is eða stofnunar áður en hann ákveður að fallast á bótakröfu, eða annars konar kröfu, eða hafna henni í heild eða hluta nema framkvæmd sé skýr og ótvíræð.
 
Ríkislögmaður er samkvæmt framansögðu sérfróður aðili sem fer með uppgjör bótakrafna sem beint er að ríkissjóði og sér um sókn eða vörn annarra ríkisaðila í dómsmálum. Af því leiðir að samskipti stjórn­valds við ríkislögmann vegna könnunar þess á réttarstöðu sinni eða vegna dómsmáls, falla undir undan­þáguákvæði 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Skiptir þar ekki máli hvort viðkomandi stjórnvald eða ríkis­lögmaður eigi frumkvæði að samskiptunum, sbr. úrskurði nefndarinnar í málum nr. 828/2019, 870/2020, 882/2020, 901/2020 og 958/2020.
 
Ríkislögmaður aflaði þeirra tveggja umsagna sem um ræðir í tilefni þess að embættinu barst bréf frá kær­anda 31. október 2022. Með bréfinu fór kærandi meðal annars fram á að viðurkenndur yrði réttur hans til miskabóta og var þess getið í bréfinu að mál yrði höfðað fyrir dómstólum ef ekki yrði tekin af­staða til kröfunnar innan tiltekins frests. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér efni um­beðinna umsagna en þar kemur fram afstaða dómsmálaráðuneytis og Sýslumannsins á höfuð­borg­ar­svæðinu til krafna og röksemda kæranda. Þrátt fyrir að ekki liggi fyrir í málinu hvort kærandi hafi eða muni höfða dómsmál telur úrskurðarnefndin að leggja verði til grundvallar að umbeðnar um­sagn­ir hafi lotið að könnun á réttarstöðu hlutaðeigandi stjórnvalda vegna nærliggjandi möguleika á slíkri máls­höfð­un.
 
Úrskurðarnefndin telur samkvæmt framangreindu að framangreind gögn falli undir undanþágu 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Verður synjun ríkislögmanns á afhendingu þessara gagna því staðfest, eins og grein­ir í úrskurðarorði.
 

3.

Í þriðja lagi eru fyrirliggjandi í málinu tölvupóstssamskipti milli ríkislögmanns og Sýslumannsins á höfuð­borgarsvæðinu vegna umsagnarbeiðni ríkislögmanns. Um er að ræða tölvupóst frá starfsmanni sýslu­mannsins 29. nóvember 2022 þar sem óskað er eftir fresti til 2. desember til að skila um­beð­inni umsögn og tölvupóst starfsmanns ríkislögmanns sama dag þar sem á það er fallist. Þessi gögn hefur kærandi ekki fengið afhent.
 
Þá eru í fjórða lagi fyrirliggjandi í málinu tölvupóstssamskipti milli ríkislögmanns og dómsmála­ráðu­neyt­is vegna umsagnarbeiðni ríkislögmanns. Um er að ræða tölvupóst frá starfsmanni dóms­mála­ráðu­neyt­is 29. nóvember 2022 þar sem óskað er eftir fresti til að skila umbeðinni umsögn til 13. desember, tölvu­póst starfsmanns ríkislögmanns sama dag þar sem á það er fallist og enn tölvu­póst frá starfsmanni dóms­málaráðuneytis 30. nóvember 2022 þar sem staðfest er að umsögn verði send í síðast lagi 13. de­sem­ber. Þessi gögn hefur kærandi ekki fengið afhent.
 
Úrskurðarnefndin hefur yfirfarið efni þessara tölvupóstssamskipta. Efni þeirra getur ekki talist geyma nein­ar upplýsingar sem setja má í tengsl við réttarágreining né heldur kemur neitt í þeim fram sem telst til afnota í dómsmáli eða til afnota við athugun á því hvort dómsmál skuli höfðað. Í því ljósi, og með vísan til sjónarmiða sem rakin eru undir lið 2 hér að framan, teljast þessi gögn ekki falla undir undan­þágu frá upplýsingarétti samkvæmt 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Þau falla heldur ekki undir aðrar undan­þágur upplýsingaréttar sem ríkislögmaður hefur vísað til í málinu. Verður því lagt fyrir ríkis­lög­mann að afhenda kæranda þessi gögn.
 

4.

Meðal gagna málsins eru í fimmta lagi fylgigögn sem bárust ríkislögmanni með áðurnefndum um­sögn­um Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og dómsmálaráðuneytis. Með umsögn sýslumannsins, dags. 2. desember 2022, fylgdi afrit af úrskurði sýslumannsins í máli kæranda frá 11. maí 2022. Með um­sögn dómsmálaráðuneytis fylgdu afrit af umræddri umsögn sýslumannsins 2. desember 2022 og jafn­framt afrit af úrskurði dómsmálaráðuneytis í máli kæranda, dags. 8. desember 2022.
 
Hér að framan hefur þegar verið tekin afstaða um rétt kæranda til aðgangs að umsögn Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu til ríkislögmanns, dags. 2. desember 2022. Telst kærandi ekki eiga rétt á aðgangi að henni, sbr. 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga.
 
Í afgreiðslu sinni á beiðni kæranda um aðgang að gögnum vísaði ríkislögmaður til þess með almennum hætti að önnur gögn en þær umsagnir sem honum höfðu borist frá dómsmálaráðuneyti og Sýslu­mann­inum á höfuðborgarsvæðinu í málinu teldust gögn úr stjórnsýslumáli sem verið hefði til með­ferð­ar í dómsmálaráðuneyti, og hefði beiðni kæranda að því leyti verið framsend til þess ráðuneytis, sbr. 1. mgr. 16. gr. upplýsingalaga og 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin skilur afstöðu ríkislög­manns svo að þessi afgreiðsla taki til hinna tveggja tilgreindu úrskurða sem voru fylgigögn umsagnanna frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og dómsmálaráðuneyti hins vegar.
 
Í 1. mgr. 16. gr. upplýsingalaga kemur fram að þegar farið sé fram á aðgang að gögnum í máli þar sem taka á eða tekin hefur verið stjórnvaldsákvörðun skuli beiðni beint til þess sem tekið hefur eða taka mun ákvörðun í málinu. Annars skuli beiðni beint til þess aðila sem hafi gögnin í vörslu sinni.
 
Hin tilvitnuðu fylgigögn eru annars vegar úrskurður Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 11. maí 2022, í stjórnsýslumáli sem kærandi var aðili að og hins vegar úrskurður dómsmálaráðuneytis í tilefni af sama máli, dags. 8. desember 2022. Í því ljósi verður úrskurðarnefndin að fallast á að þessi gögn tilheyra stjórnsýslumáli sem rekið var í dómsmálaráðuneyti og það ráðuneyti tók stjórn­valds­ákvörðun í. Beiðni kæranda að þessu leyti féll ekki undir upplýsingalög og var réttilega framsend dóms­málaráðuneyti til afgreiðslu. Verður afgreiðsla ríkislögmanns á beiðni kæranda að þessu leyti stað­fest.
 

5.

Í sjötta lagi bárust úrskurðarnefndinni frá ríkislögmanni afrit af tölvupóstssamskiptum embættisins við kær­anda frá 27. desember 2022 til 5. janúar 2023. Þessir tölvupóstar varða allir samskipti ríkislögmanns og kæranda vegna kröfu þess síðarnefnda um aðgang að gögnum. Þessi gögn geyma annars vegar beiðni kær­anda um þann aðgang sem deilt er um í þessu máli, sbr. tölvupóst hans til ríkislögmanns 27. de­sem­ber og hins vegar upplýsingar um afgreiðslu ríkislögmanns á gagnabeiðninni. Þessir tölvupóstar urðu með öðrum orðum til í tengslum við framlagningu þeirrar gagnabeiðni sem hér er til afgreiðslu ann­ars vegar og eftir að hún var lögð fram hins vegar.
 
Þessi gögn voru ekki fyrirliggjandi hjá ríkislögmanni þegar kærandi lagði þar fram beiðni sína um að­gang að gögnum sem tengdust afgreiðslu á kröfu hans um viðurkenningu bótaskyldu. Bendir úr­skurð­ar­nefndin af því tilefni á að réttur samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga, sem kærandi byggir rétt sinn á, trygg­ir rétt til aðgangs að þeim gögnum sem eru fyrirliggjandi þegar beiðni um aðgang að gögnum er lögð fram. Umræddir tölvupóstar falla því eðli málsins samkvæmt ekki undir beiðni kæranda um aðgang að gögnum, dags. 27. desember 2022, og teljast því ekki heldur til þeirra gagna sem kæra málsins lýtur að.
 

6.

Í kæru málsins var þess að lokum krafist að ríkislögmaður legði fram lista yfir gögn málsins, með máls­númerum og heitum gagna. Í umsögn ríkislögmanns, sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál kynnti fyrir kæranda, er að finna lista yfir öll gögn sem eru skráð undir tiltekið málsnúmer í málaskrá ríkis­lögmanns. Gögnin eru jafnframt listuð upp í þessum úrskurði. Hins vegar kom þessi krafa ekki fram fyrr en í kæru málsins, og liggur því ekki fyrir formleg synjun á þessari beiðni sem nefndinni er fært að taka afstöðu til í úrskurði, sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga. Verður því að vísa frá þeim þætti í kær­unni sem lýtur að afhendingu umrædds lista.
 

Úrskurðarorð

Kærandi, […], á ekki rétt á aðgangi að bréfum ríkislögmanns til dómsmála­ráðu­neyt­is annars vegar og til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu hins vegar, dags. 8. nóvember 2022, þar sem óskað er umsagna þessara stjórnvalda um bótakröfu kæranda. Kærandi á hvorki rétt á aðgangi að umsögn Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu til ríkislögmanns, dags. 2. desember 2022, né umsögn dómsmálaráðuneytis til ríkislögmanns, dags. 13. desember 2022.
 
Staðfest er ákvörðun ríkis­lögmanns að framsenda til dómsmálaráðuneytis beiðni kæranda um aðgang að úrskurðum Sýslu­manns­ins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 11. maí 2022, og dómsmálaráðuneytis, dags. 8. desember 2022.
 
Ríkislögmanni ber að afhenda kæranda, […], tölvupóst frá Sýslumanninum á höfuð­borgarsvæðinu 29. nóvember 2022, og tölvupóst með svari ríkislögmanns við honum sama dag. Ríkis­lögmanni ber einnig að afhenda tölvupóst frá dómsmálaráðuneyti til ríkislögmanns 29. nó­vem­ber 2022, tölvupóst með svari ríkislögmanns sama dag og tölvupóst með svari dómsmála­ráðu­neytis til ríkislögmanns 30. nóvember 2022.
 
Kæru málsins er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
 
 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta