Hoppa yfir valmynd
7. mars 2025 Heilbrigðisráðuneytið

Fjármagn verði aukið í áfengis- og fíkniefnameðferð á þessu ári

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra - mynd
Þörf er á auknu fjármagni til að efla áfengis- og vímuefnameðferð og ljóst að innviðaskuld er í þessum málaflokki, sagði Alma D. Möller heilbrigðisráðherra í sérstakri umræðu á Alþingi í gær. Í sáttmála ríkisstjórnarinnar er fjármögnun meðferðarúrræða vegna vímuefnavanda sérstakt áherslumál og sagði ráðherra stefnt að því að veita 350 milljóna króna viðbótarfjármagni inn í málaflokkinn strax á þessu ári. Heildarfjármagn til málaflokksins er nú rúmlega 3,2 milljarðar króna á ári en nauðsynlegt er að bæta þar við og stendur yfir vinna við greiningu á fjárþörfinni sagði ráðherra. Hún vísaði jafnframt til vinnu starfshóps sem vinnur að heildarstefnu í áfengis- og vímuvörnum sem taka mun til forvarna, meðferðar, eftirfylgni, endurhæfingar og lagaumhverfis.

Samráðsvettvangur meðferðaraðila settur á fót

Það eru ærin verkefni í málaflokknum sagði ráðherra þar sem forgangsverkefni sé að ljúka stefnumótun og tilheyrandi aðgerðaáætlun, og fjármagna verkefnin til samræmis það. Enn fremur leggi hún áherslu á að leiða saman hagsmunaaðila á sviði meðferðar til formlegs samstarfs með það að markmiði að samhæfa og samþætta þjónustuna til að koma til móts við einstaklinga og sérstaklega að auka bráðaþjónustu. Stofnaður verður stýrihópur undir forystu heilbrigðisráðuneytisins sem ætlað er að efla samskipti og samhæfingu þjónustuveitenda og stuðla að tímanlegri heilbrigðisþjónustu fyrir notendur. Stýrihópnum er ætlað að leiða vinnu til að skapa sameiginlegan skilning á hlutverki og ábyrgð aðila sem og veita aðilum vettvang til að vinna að lausnum mögulegra áskorana áður en þær verða að mun stærra vandamáli.  

Aðgerðir strax

Áformað 350 milljóna króna viðbótarframlag á þessu ári af fjáraukalögum, með fyrirvara um samþykki þingsins, er ætlað til að styrkja fyrirliggjandi úrræði, stytta bið eftir þjónustu og koma í veg fyrir að meðferðarstofnanir þurfi að grípa til sumarlokana. Sagði ráðherra ríkisstjórnina einhuga um þetta og að fjármunirnir muni renna til SÁÁ, Hlaðgerðarkots, Krýsuvíkur, göngudeildar og Laufeyjarteymis á Landspítala, Ylju – neyslurýmis og Frú Ragnheiðar. Ráðherra gat einnig um að nýlega úthlutaði hún 9,5 milljónum króna í styrki til verkefna tengdum vímuefnavanda, m.a. til Rótarinnar, Rauða krossins og Matthildar. Einnig að í liðinni viku var úthlutað úr lýðheilsusjóði tæpum 27 milljónum kr. m.a. til Foreldrahúss og SÁÁ vegna sálfræðiþjónustu barna.

Kynnti sér meðferðarstarfsemina hjá SÁÁ og í Krýsuvík

Einstaklingar með vímuefnavanda sækja að mestum hluta meðferð sína eða endurhæfingu til SÁÁ, Hlaðgerðarkots sem Samhjálp rekur, Meðferðarheimilisins Krýsuvíkur eða meðferðareiningar fíknisjúkdóma á Landspítala. Heilbrigðisráðherra heimsótti í liðinni viku Meðferðarheimilið Krýsuvík, Sjúkrahúsið Vog sem SÁÁ rekur, ásamt göngudeildina Von í Efstaleiti sem einnig er rekið af SÁÁ . „Það var mikils virði fyrir mig að heimsækja þessar stofnanir, fá vandaða kynningu á starfsemi þeirra, innsýn í verkefnin og helstu áskoranir og hvað stjórnendur og fagfólkið telur mikilvægast að gera til að efla og bæta meðferðarstarfið.“

SÁÁ sinnir um 3.200 einstaklingum á ári á starfsstöðvum sínum, veitir fjölbreytta og samfellda meðferð við vímuefnaröskun á öllum stigum og þar með er talinn stuðningur við fjölskyldur sjúklinga. Krýsuvík er með meðferðarpláss fyrir 29 einstaklinga en þeim var fjölgað um sex á síðasta ári. Í byrjun þessa árs færðist ábyrgð á samningi um langtímameðferð í Krýsuvík frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti til heilbrigðisráðuneytis. Með þeirri breytingu er stefnt að því að meðferðarheimilið verði hluti af viðurkenndri heilbrigðisþjónustu og uppfylli skilyrði þar að lútandi fyrir lok ársins og er unnið að því.

Í umræðunni á Alþingi nefndi ráðherra einnig nýsköpunarverkefni lækna og lyfjafræðinga, Prescriby um niðurtröppun m.a. ópíóíða sem hún kynnti sér í liðinni viku og einnig sérstakan vöktunarhóp sem skipaður var fyrir nokkru sem mun fylgjast með t.d. hvaða efni eru í notkun og upplýsa og vara notendur við eftir aðstæðum.

  • Frá heimsókn á SÁÁ - mynd
  • Anna Hildur Guðmundsdóttir formaður SÁÁ, Valgerður Rúnarsdóttir framkvæmdastjóri lækningasviðs, Ásgerður Th. Björnsdóttir framkvæmdastjóri rekstrarsviðs og Ingunn Hansdóttir framkvæmdastjóri sálfélagslegrar meðferðar tóku á móti gestunum ásamt fleira starfsfólki SÁÁ. - mynd
  • Frá heimsókn á SÁÁ - mynd
  • Frá heimsókn á SÁÁ - mynd
  • Frá heimsókn á SÁÁ - mynd
  • Fjármagn verði aukið í áfengis- og fíkniefnameðferð á þessu ári - mynd úr myndasafni númer 6
  • Frá heimsókn á SÁÁ. Valgerður Rúnarsdóttir framkvæmdastjóri lækningasviðs kynnir starfsemina - mynd
  • Frá heimsókn á SÁÁ - mynd
  • Frá heimsókn á SÁÁ - mynd
  • Frá Krýsuvík - mynd
  • Alma D. Möller ásamt Elíasi Guðmundssyni framkvæmdastjóra Krýsuvíkur, Láruwi Welding, formanni stjórnar Krýsuvíkursamtakanna, Vagnbjörgu Magnúsdóttur fíknifræðingi og Sigríði Jónsdóttur sérfræðingi í heilbrigðisráðuneytinu - mynd
  • Fjármagn verði aukið í áfengis- og fíkniefnameðferð á þessu ári - mynd úr myndasafni númer 12

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta