Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 59/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 59/2024

Mánudaginn 29. apríl 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 2. febrúar 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. janúar 2024, vegna greiðslna atvinnuleysisbóta á tímabilinu 1. til 9. janúar 2024.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 29. september 2023 og var umsóknin samþykkt 16. október 2023 með 100% bótarétti. Þann 8. janúar 2024 upplýsti kærandi Vinnumálastofnun að hann hefði axlarbrotnað 30. desember 2023. Þann 9. janúar 2024 upplýsti kærandi Vinnumálastofnun að hann væri í atvinnuleit en gæti ekki unnið á næstunni vegna brotsins. Kærandi var þann 10. janúar 2024 upplýstur um að hann ætti ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta á meðan hann væri ekki vinnufær og að hann þyrfti að leggja fram læknisvottorð um starfshæfni. Kærandi afskráði sig af atvinnuleysisskrá þann sama dag. Kærandi fékk sendan greiðsluseðil, dags. 30. janúar 2024, þar sem fram kom að hann fengi ekki greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. til 9. janúar 2024.  

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. febrúar 2024. Með bréfi, dags. 6. febrúar 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð 7. mars 2024. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 14. mars 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. mars 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi lent í slysi þann 30. desember 2023 og axlarbrotnað illa. Kærandi hafi ekki vitað að hann þyrfti að afskrá sig af atvinnuleysisbótum. Hann hafi verið í 10 daga að afla gagna og sækja um sjúkradagpeninga en vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar hafi hann misst laun á tímabilinu 30. desember 2023 til 10. janúar 2024. Kærandi hafi fengið greidda sjúkradagpeninga frá Eflingu að upphæð 213.798 kr. en það hafi farið í að greiða húsaleigu, internet og spítalareikninga, en þó hafi það ekki dugað til þess þar sem upphæðin hafi verið svo lág. Þegar kærandi hafi verið búinn að greiða allt sem hann hafi getað hafi rúmar 11.000 kr. staðið eftir sem hafi átt að duga fyrir mat út mánuðinn. Hver heilvita manneskja viti að 11.000 kr. dugi ekkert fyrir matarkaupum. Kærandi telji að hann eigi rétt á að fá þessa 10 daga greidda því hann hafi verið á skrá hjá Vinnumálastofnun til 10. janúar 2024. Kærandi óski eftir að mál hans verði skoðað en hann eigi engan pening og brátt bætist við lækniskostnaður vegna axlarbrotsins.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 29. september 2023. Með erindi, dags. 16. október 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.

Þann 8. janúar 2024, kl. 09:07 hafi kærandi verið boðaður á kynningarfund á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar þann 9. janúar 2024 kl. 09:30. Athygli kæranda hafi verið vakin á því að skyldumæting væri á fundinn og að öll forföll bæri að tilkynna án ástæðulausrar tafar. Sömuleiðis hafi kæranda verið tjáð að ótilkynnt forföll kynnu að leiða til þess að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans yrðu stöðvaðar. Boðunin hafi verið send á „Mínar síður“ kæranda, með tilkynningu í farsíma og á uppgefið netfang hans. Þann sama dag, kl. 16:30 hafi Vinnumálastofnun borist tölvupóstur frá kæranda þar sem fram hafi komið að kærandi gæti ekki mætt í viðtal þar sem hann ætti bókaðan tíma hjá Landspítala í röntgenmyndatöku kl. 9:30 í kjölfar axlarbrots þann 30. desember 2023. Meðfylgjandi hafi verið afrit sjúkraskýrslu frá bráðamóttöku, dags. 30. desember 2023, þar sem tilgreint hafi verið að um axlarbrot væri að ræða.

Þann 9. janúar 2024 hafi Vinnumálastofnun óskað eftir frekari upplýsingum frá kæranda til að hægt væri að leggja mat á það hvort hann gæti talist í virkri atvinnuleit að teknu tilliti til upplýsinga um slys. Kæranda hafi verið tilkynnt að greiðslum til hans yrði frestað þar til að umbeðin gögn bærust. Kærandi hafi svarað erindi stofnunarinnar samdægurs þar sem hann hafi greint frá því að hann væri í atvinnuleit en hann gæti ekki unnið á næstunni vegna axlarbrots. Þann 10. janúar 2024 hafi kærandi verið upplýstur um að hann ætti ekki rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga á meðan hann væri ekki vinnufær og að leggja þyrfti fram læknisvottorð um starfshæfni. Kærandi hafi afskráð sig þann sama dag.

Með erindi þann 11. janúar 2024 hafi kærandi óskað eftir staðfestingu á afskráningu vegna óvinnufærni þar sem hann þyrfti að senda vottorð þess efnis til Eflingar vegna umsóknar um sjúkradagpeninga. Staðfesting á afskráningu vegna óvinnufærni hafi verið send þann sama dag.

Þann 2. febrúar 2024 hafi einnig borist erindi frá kæranda þar sem segi meðal annars að hann hefði afskráð sig 11. janúar 2024 og því teldi hann að hann ætti rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga fyrir þá 11 daga. Erindi kæranda hafi verið svarað samdægurs þar sem segi að samkvæmt læknisvottorði væri hann óvinnufær frá 30. desember 2023. Hann ætti því ekki rétt á greiðslum eftir þann dag. Kærandi hafi svarað erindi stofnunarinnar þann 5. febrúar 2024 þar sem hann hafi greint frá því að hann hefði talið sig eiga rétt fram að afskráningardegi þann 10. janúar 2024. Kærandi hafi óskað eftir upplýsingum um kærurétt. Erindi kæranda hafi verið svarað samdægurs þar sem tilgreint hafi verið að umsókn hans hefði verið frestað þann 9. janúar 2024 og að óskað hefði verið eftir starfshæfnivottorði. Ef mat læknis væri að kærandi hefði verið vinnufær frá 30. desember 2023 til 10. janúar 2024 gæti hann lagt fram vottorð þess efnis.

Framangreind málsmeðferð hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 2. febrúar 2024. Í kæru sé að finna kröfur kæranda um greiðslur á tímabilinu 30. desember 2023 til 10. janúar 2024.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Eitt af almennum skilyrðum greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að vera í virkri atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. Í 14. gr. laganna sé kveðið á um hvað felist í virkri atvinnuleit, en samkvæmt [h.] lið 1. mgr. 14. gr. felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er standi til boða. Í 13. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir komi einnig fram skylda þess sem teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun ákveði. Ákvæði 13. gr. sé svo hljóðandi:

„Atvinnuleitandi skal fylgja eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum skv. 11. gr. og gera það sem í hans valdi stendur til að bæta vinnufærni sína til þess að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Þar á meðal skal atvinnuleitandi ávallt mæta í viðtöl til ráðgjafa Vinnumálastofnunar skv. 14. gr. og taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum er standa honum til boða. Atvinnuleitandi skal jafnframt tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar.“

Þá sé í 1. mgr. 14. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir kveðið á um að ráðgjafar Vinnumálastofnunar skuli hafa eftirlit með því að atvinnuleitendur fylgi eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum.

Það sé ljóst að kærandi hafi ekki að eigin frumkvæði haft samband við Vinnumálastofnun til að upplýsa um vinnufærni sína eftir umrætt óhapp. Í skilmálum sem umsækjendur um atvinnuleysisbætur samþykki þegar þeir sæki um komi fram að viðkomandi sé upplýstur um að honum sé skylt að mæta í þau viðtöl, þá fundi, námskeið og önnur úrræði sem Vinnumálastofnun boði hann til og að upplýsa um allar breytingar sem verði á högum hans sem geti haft áhrif á rétt hans til atvinnuleysisbóta og getu hans til atvinnuþátttöku.

Kærandi hafi skilað inn læknisvottorði þann 8. janúar 2024 vegna kynningarfundar sem hann hafi verið boðaður á. Þá hafi kæranda verið gefið færi á að skila inn frekari gögnum og afstöðu sinni til að meta mætti rétt hans til atvinnuleysisbóta.

Í 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög við brotum á upplýsingarskyldu hins tryggða:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. h-lið 1. mgr. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur vísvitandi látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Ljóst sé að læknaskýrsla sú sem hafi borist Vinnumálastofnun í byrjun janúar 2024 hafi vakið vafa um fulla getu kæranda til atvinnuleitar eða þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum á umræddu tímabili, eða 30. desember 2023 til 10. janúar 2024.

Kröfum kæranda um greiðslur atvinnuleysistrygginga hafi verið synjað 6. mars 2024 þar sem kærandi teljist óvinnufær með öllu frá 30. desember 2023. Samkvæmt þeim gögnum sem kærandi hafi skilað sé stofnuninni óheimilt að verða við öllum kröfum um greiðslur frá þeim tíma, sbr. b. lið 1. mgr. 14. gr. Vinnumálastofnun hafi vakið athygli kæranda á því að ef vottorð læknis berist stofnuninni sem staðfesti að hann hafi verið vinnufær á þeim tíma er um ræði muni stofnunin taka málið fyrir að nýju.

Með vísan til alls framangreinds sé ljóst að kærandi eigi ekki rétt á greiðslum á því tímabili sem hann sé óvinnufær samkvæmt læknisvottorði, á grundvelli 1. mgr. 59. gr., sbr. 4. mgr. sömu greinar laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að greiða kæranda ekki atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. til 9. janúar 2024 með vísan til þess að hann hefði ekki verið í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. Í 1. mgr. 14. gr. segir að sá teljist vera í virkri atvinnuleit sem uppfylli eftirtalin skilyrði:

  1. er fær til flestra almennra starfa,
  2. hefur heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó 5. mgr.,
  3. hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga,
  4. hefur vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,
  5. er reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi,
  6. er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu,
  7. á ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við,
  8. hefur vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, og
  9. er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.

Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga nr. 54/2006 segir meðal annars svo:

„Enn fremur þykir ástæða til að taka fram að umsækjandi teljist vera í virkri atvinnuleit þegar hann, frá því að umsókn um atvinnuleysisbætur barst, hefur bæði vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara. Að öðrum kosti verður ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit.“

Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 skal hinn tryggði tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr., þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar.

Fyrir liggur læknisvottorð, dags. 17. janúar 2024, þar sem fram kemur að kærandi hafi verið óvinnufær með öllu á tímabilinu 30. desember 2023 til 22. mars 2024 vegna axlarbrots. Er því ljóst að kærandi var hvorki fær til flestra almennra starfa né hafði heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum á tímabilinu 1. til 9. janúar 2024 eins og skylt er samkvæmt a. og b. lið 1. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006. Með vísan til þess er ákvörðun Vinnumálastofnunar um greiða kæranda ekki atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil, staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 30. janúar 2024, um að greiða ekki A, atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. til 9. janúar 2024, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta