Starfshópur um langvinna verki
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp til að afla upplýsinga um fjölda, aldur og kyn þeirra sem eiga við langvinna verki að stríða, kortleggja þær meðferðir sem standa til boða og hvar slík meðferð er veitt. Hópurinn á jafnframt að gera tillögur að úrbótum þjónustu við þennan hóp, m.a. með skipulagi sem auðveldar aðgengi fólks að þjónustunni og einfaldar ferli sjúklinga með langvinna verki innan heilbrigðiskerfisins.
Í skipunarbréfi segir að hópurinn skuli í störfum sínum taka mið af þrískiptingu heilbrigðisþjónustunnar eins og henni er lýst í heilbrigðisstefnu til ársins 2030, lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 og reglugerð nr. 1111/2020 um heilbrigðisumdæmi og hlutverk, starfsemi og þjónustu heilsugæslustöðva, heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa. Enn fremur skal taka mið af tillögum sem fram koma í skýrslu með tillögum að endurhæfingarstefnu sem birt var á vormánuðum 2020. Stöðuskýrsla og tillögur skulu liggja fyrir eigi síðar en 1. apríl 2021.
Formaður starfshópsins er Magnús Ólafsson endurhæfingarlæknir. Aðrir í hópnum eru Sigurður Ásgeir Kristinsson, bæklunarlæknir, Jón Steinar Jónsson, heilsugæslulæknir, Berghildur Ásdís Stefánsdóttir, sjúkraþjálfari og Sigríður Zoëga, hjúkrunarfræðingur.