Hoppa yfir valmynd
3. júní 2019 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Starf sem eflir menningu, rannsóknir og nýsköpun

Stjórn Landsbókasafns Íslands ásamt Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra. - mynd
Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn er þjóðabókasafn landsmanna og safnar öllum íslenskum gögnum, varðveitir þau, skráir og flokkar. Safnið sinnir þjónustu við kennslu og rannsóknarstarfsemi Háskóla Íslands og heldur uppi bókasafns- og upplýsingaþjónustu í þágu atvinnuvega, stjórnsýslu og rannsókna á Íslandi. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra fundaði með stjórn safnsins á dögunum og kynnti sér starfsemi þess.

„Starfsemi Landsbókasafnsins er bæði fjölþætt og mikilvæg, en sumir hlutar hennar eru lítt sýnilegir daglegum gestum eða fjölmörgum notendum vefja safnsins. Þessi starfsemi eflir menningu okkar, rannsóknir og nýsköpun og snertir fortíð, samtíð og framtíð. Á fundi okkar ræddum við áherslumál stjórnar sem tengjast meðal annars endurskoðun laga um skylduskil, málefnum bókasafnsráðs og áætlun um stafræna endurgerð íslensks prentmáls,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra sem einnig rifjaði upp fyrri kynni sín af safninu. „Mér þykir mjög vænt um Þjóðarbókhlöðuna því ég varði miklum tíma hér á meðan ég var í námi. Aðstaðan hér er jafnan vel nýtt af bæði skólafólki og fræðimönnum, enda er hér góður andi.“

Safnkostur Landsbókasafnsins telur nú rúmlega 930.000 einingar (bækur og önnur gögn), skráðir notendur safnsins voru 12.500 árið 2018 en meginhluti efnis safnsins er opinn fyrir alla. Um 85.000 útlán voru á vegum safnsins á liðnu ári og 3 milljónir heimsókna á vefi safnsins en þeirra vinsælastir eru meðal annars tímarit.is og skemman.is.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta