Sigurður Ingi sótti fund norrænna fjármálaráðherra
Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra sótti dagana 3.-4. júní fund norrænna fjármálaráðherra í Stokkhólmi.
Á fundinum ræddu ráðherrarnir þær áskoranir sem blasa við á Norðurlöndum varðandi framleiðni. Einnig var farið yfir reynslu Norðurlanda af efnahagsstjórn á tímum heimsfaraldurs, þá orkukreppu sem fylgdi í kjölfarið sem og þann vanda sem hefur fylgt hærri verðbólgu í ríkjunum.
Enn fremur var rætt um horfur í norrænum ríkisfjármálum til lengri tíma í ljósi lýðfræðilegrar þróunar á Norðurlöndum. Ráðherrarnir voru sammála um mikilvægi þess að nýta þann lærdóm sem fengist hefði á síðustu árum til að aðlaga hagkerfi ríkjanna og gera þau betur í stakk búin fyrir áskoranir framtíðarinnar.
„Það var gagnlegt og ánægjulegt að hitta samráðherrana á hinum Norðurlöndunum, bera saman bækur og heyra reynslusögur um áskoranir í efnahags- og ríkisfjármálum,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Nánari upplýsingar um fundinn er að finna í fréttatilkynningu á vef Norrænu ráðherranefndarinnar.