Ísland tilkynnir um 125 milljóna króna framlag til Jemen
Á framlagsráðstefnu til að tryggja lífsnauðsynlega mannúðaraðstoð fyrir almenna borgara í Jemen söfnuðust 1300 milljónir bandarískra dala eða tæplega þriðjungur þess fjár sem Sameinuðu þjóðirnar höfðu sett sér að markmiði. Utanríkisráðherra tilkynnti á fundinum um 125 milljóna króna framlag Íslands til Jemen. Alls tilkynntu 36 framlagsríki um fjárframlög á ráðstefnunni í gær.
Framlag Íslands skiptist milli áherslustofna í mannúðaraðstoð: Samræmingarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA), Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA), Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR).
Ráðstefnan, sem skipulögð var af stjórnvöldum í Svíþjóð og Sviss, í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar, hefur verið haldin ár hvert frá því að stríðið í Jemen braust út fyrir um sjö árum. Rúmlega 23 milljónir manna eru í brýnni þörf fyrir neyðaraðstoð og innviðir landsins eru fyrir löngu að hruni komnir.
„Mannúðarþörf fer vaxandi á ógnarhraða í heiminum, en samúð og samstaða dugar ekki til. Íbúar Jemen þurfa á aðstoð að halda. Í dag heyrðum við frá svo mörgum löndum að Jemen hefur ekki gleymst og ég þakka styrktaraðilum fyrir lífsbjargandi framlag þeirra," sagði Martin Griffiths mannúðarstjóri Sameinuðu þjóðanna á ráðstefnunni í gær.
Hann bætti við að ástæða væri til að óttast að innrás Rússa í Úkraínu gæti leitt til að torsóttara verði að afla fjár fyrir íbúa Jemen. Það væri því enn brýnna að leita lausna á styrjaldarástandinu sem ríkt hefur í sjö ár.
Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (WFP) neyddist til að skera niður matarskammta átta milljóna manna í upphafi þessa árs vegna fjárskorts. David Beasley framkvæmdastjóri WFP sagði á fundi Öryggisráðsins í vikunni að aðeins hefði tekist að afla 11 prósent þeirra 887,9 milljóna dala sem stofnunin þyrfti á að halda til að brauðfæða þrettán milljónir manna næsta hálfa árið.