Hoppa yfir valmynd
9. september 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið, Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Sköpun til heiðurs náttúrunni

Ungt fólk hefur staðið í stafni þeirrar vakningar sem orðið hefur í umhverfismálum á undanförnum misserum. Hinn 16. september nk. verður degi íslenskrar náttúru fagnað og eru skólar hvattir til þess að hafa daginn í huga í starfsemi sinni.

Af því tilefni hefur tillögu að skapandi verkefni verið miðlað til allra grunnskóla landsins en yfirskrift þess er „Náttúran í nærumhverfinu“. Verkefninu er ætlað að hvetja nemendur til að nota náttúruna sem innblástur listrænnar sköpunar og er það útfært sérstaklega fyrir hvert aldursstig. Viðfangsefni er hægt að vinna jafnt á skólalóð sem og í næsta umhverfi og er hvatt til þess að allir nemendur taki þátt. Það krefst lítils undirbúnings og skólagagna og tekur lengd þess mið af ólíkri getu og úthaldi nemenda. Hægt er að nálgast verkefnið hér.

Að verkefninu standa mennta- og menningarmálaráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti í samstarfi við Landvernd og Reykjavíkurborg.

Umhverfismennt og fræðsla um náttúruna tengist skólastarfi með fjölbreyttum hætti og hafa fjölmörg spennandi þróunar- og nýsköpunarverkefni á því sviði verið útfærð í grunnskólum landsins síðustu ár. Rúmlega 230 íslenskir skólar á öllum skólastigum taka þátt í alþjóðlega umhverfismenntaverkefninu Skólar á grænni grein (e. Eco-Schools) eða Grænfánaverkefninu. Landvernd hefur umsjón með verkefninu hér á landi en það miðar m.a. að því að efla sjálfbærnimenntun, umhverfisvitund og samfélagskennd, og veita nemendum menntun og færni til þess að fást við umhverfismál og styðja við umhverfisstefnur sinna skóla.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

15. Líf á landi
11. Sjálfbærar borgir og samfélög
4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta