Samstarfssamningur um aðgang að hugbúnaði
Microsoft og mennta- og menningarmálaráðuneytið hafa gert með sér samstarfssaming til þriggja ára sem tryggir íslenskum menntastofnunum aðgang að hugbúnaði frá Microsoft á hagstæðum kjörum. Samningurinn tryggir kennurum og nemendum jafnframt aðgang að Office hugbúnaði og skýjalausnum Microsoft til uppsetningar á einkatölvur sínar án endurgjalds.
Öll helstu forritin sem tilheyra Office hugbúnaði Microsoft, til dæmis Word, OneNote, Excel, PowerPoint og Outlook, eru í boði á íslensku. Í frétt frá Microsoft á Íslandi segir meðal annars að Microsoft leggi mikla áherslu á þýða þennan hugbúnað á íslensku til að tryggja að allir geti nýtt sér hann og til að viðhalda íslenskunni í hinum stafræna heimi. "Microsoft er virkur þáttakandi í þeirri byltingu sem nú stendur yfir á kennsluháttum með aukinni hagnýtingu upplýsingatækni. Microsoft á í góðu samstarfi við kennara, nemendur og menntastofnanir um allan heim við þróun hugbúnaðar sem sérsniðinn er að skólastarfi. Þannig hefur Microsoft tryggt að hugbúnaðurinn uppfyllir ávallt þær kröfur sem sífelld þróun á kennsluháttum gerir."
„Íslenskir kennarar hafa sýnt gríðarlegan áhuga á að nota hugbúnaðarlausnir Microsoft í sínu starfi og mun samningurinn gera þeim auðveldara nýta þær en verið hefur. Samningurinn veitir kennurum og nemendum einnig gjaldfrjálsan aðgang að Office hugbúnaðinum sem getur sparað íslenskum heimilum umtalsverðar fjárhæðir,“ segir Heimir Fannar Gunnlaugsson, framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi. „Við erum stolt af því að bjóða upp á hugbúnað okkar á íslensku og þannig leggja okkar að mörkum við að bæta stöðu íslenskunnar í hinum stafræna heimi.“
„Þetta er miklvægur samningur því hann tryggir skólum og menntastofnunum aðgang að mikilvægum hugbúnaði á hagstæðum kjörum. Þá skiptir einnig miklu máli að hann veitir kennurum, nemendum og fjölskyldum þeirra endurgjaldslausan aðgang að hugbúnaði sem nýtist vel í námi, leik og starfi,“ segir Ásta Magnúsdóttir, ráðuneytisstjóri Menntamálaráðuneytisins. „Við leggjum mikla áherslu á að íslenska sé í hvívetna notuð í upplýsingatækni. Þar höfum við átt gott samstarf við Microsoft enda flestar þær lausnir sem þessi samningur nær til á íslensku.“