Hoppa yfir valmynd
17. júlí 2013 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ríkisreikningur 2012

Reikninginn í heild sinni með þeim sundurliðunum og skýringum sem honum fylgja má finna á vef Fjársýslunnar.

Ríkisbúskapurinn hefur búið við verulegan halla allt frá efnahagshruni. Uppsafnaður halli ríkissjóðs á árabilinu 2008-2012 nemur alls 604 milljörðum króna. Í árslok 2007 voru heildarskuldir ríkissjóðs að meðtöldum lífeyrisskuldbindingum 542 milljarðar króna eða 42,3% af landsframleiðslu samanborið við 1.890 milljarða króna eða 110,6% í árslok 2012. Enn frekar má nefna að vaxtagjöld ríkissjóðs námu 22 milljörðum króna árið 2007 en voru 76 milljarðar króna á árinu 2012.

Ríkisreikningur fyrir árið 2012 liggur nú fyrir og er ljóst að markmið endurskoðaðra áætlana gengu ekki eftir. Helstu niðurstöður reikningsins eru að tekjujöfnuðurinn varð neikvæður um 36 milljarða króna en endurskoðaðar áætlanir gerðu ráð fyrir að hann yrði neikvæður um 26 milljarða. Raunútkoman varð því 10 milljörðum króna lakari en fyrirséð var við afgreiðslu fjáraukalaga í desember sl. Tekjuhallinn svarar til 7% af heildartekjum ríkissjóðs á árinu eða 2% af landsframleiðslunni.

Frumjöfnuður ársins 2012 var jákvæður um 18 milljarða króna en gert var ráð fyrir að hann yrði jákvæður um 30 milljarða króna. Mestu munar um niðurfærslu á bókfærðum eignarhluta ríkissjóðs í Íbúðalánasjóði um 7 milljarða króna.

Tekjur voru 3,4 milljörðum króna lægri en gert var ráð fyrir og gjöldin 6,6 milljörðum króna hærri. Þrátt fyrir lakari tekjuafkomu en að var stefnt þá var hún mun hagstæðari en árið 2011 þegar tekjuhallinn var 89 milljarðar króna. Hins vegar var ríkissjóður með lánsfjárþörf sem nam 3,6% af landsframleiðslu á árinu 2012 samanborið við 3,5% lánsfjárafgang á árinu 2011.

Greiðslustaða ríkissjóðs er enn sterk. Handbært fé ríkissjóðs á innlendum reikningum nam 143 milljörðum króna í árslok í stað 155 milljarða króna í lok árs 2011. Þá námu gjaldeyrisinnstæður ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands, sem styrkja gjaldeyrisforðann, 338 milljörðum króna og höfðu lækkað um 38 milljarða frá fyrra ári.

Yfirlit 1. Fjármál ríkissjóðs 2012 og 2011

 

Í millj. kr. Reikningur
2012
Fjárlög/
Fjáraukalög
2012
Frávik
fjárhæð
Frávik,
%
Reikningur
2011
Tekjur samtals 525.876 529.231 -3.355 -0,6 486.526
Gjöld samtals 561.721 555.074 6.647 1,2 575.950
Tekjur umfram gjöld -35.845 -25.843 -10.002 . -89.424
   
Frumjöfnuður 18.011 30.062 -12.051 . -43.204
   
Lánsfjárafgangur/lánsfjárþörf, nettó  (+/-) -61.787 -49.836 -11.951 . 57.747
   
Tekin lán, nettó -8.822 -5.000 -3.822 . 146.783
Innlend lán 30.602 . 62.316
Erlend lán -39.424 . 84.467
   
Breyting á handbæru fé -70.609 -54.836 -15.773 . 204.530
   
Hlutfall af vergri landframleiðslu, %
Tekjur samtals 30,8 31,0 . . 29,8
Gjöld samtals 32,9 32,5 . . 35,3
Tekjur umfram gjöld -2,1 -1,5 . . -5,5
   
Frumjöfnuður 1,1 1,8 . . -2,6
   
Lánsfjárafgangur/lánsfjárþörf, nettó  (+/-) -3,6 -2,9 . . 3,5

Horfur um afkomu ríkissjóðs á árinu 2013 benda ótvírætt til að hún verði umtalsvert lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir og því ljóst að þær þurfa gagngera endurskoðun. Mikilvægt er að ná tökum á ríkisrekstrinum og tryggja að markmið um jákvæðan heildarjöfnuð náist sem fyrst. Nauðsynlegt er að hlúa að undirstöðum atvinnulífsins sem leiðir af sér vöxt efnahagslífsins svo hægt verði að greiða niður ríkisskuldir í stað þess að auka við þær. Á árinu 2012 var lítilsháttar hagvöxtur á Íslandi þar sem landsframleiðsla jókst um 1,6%, skv. bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Áframhaldandi hagvöxtur og aukin eftirspurn í efnahagslífinu eru lykilþættir í því að bæta afkomu ríkissjóðs og skiptir höfuðmáli nú að leggja fram trúverðugar áætlanir um aðgerðir til næstu ára sem undirbyggja þá þætti.

Lögð verður áhersla á að ríkisútgjöld verði endurskoðuð kerfisbundið til að auka hagkvæmni. Auka þarf samhæfni og skilvirkni stjórnsýslunnar þannig að hún standist nútíma kröfur og viðmið um starfshætti og skipulag. Mikilvægt er að bæta þjónustu ríkisins, m.a. með rafrænni stjórnsýslu, hagnýtingu upplýsingatækni í samskiptum við íbúa og með auknu samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Þá verður unnið að því að styrkja umgjörð ríkisfjármálanna þar sem áhersla er á langtímastefnumörkun í opinberum fjármálum og tengsl þeirra við stefnumótun í efnahagsmálum. Stefnt er að framlagningu frumvarps að nýrri heildarlöggjöf um opinber fjármál á komandi haustþingi.

Um ríkisreikning 2012

Ríkisreikningur er settur fram í tveimur hlutum. Annars vegar er vísir að samstæðureikningi um fjármál A-hluta ríkissjóðs. Hins vegar eru reikningar einstakra stofnana í A-hluta, ríkisfyrirtækja í B-hluta, lánastofnana í C-hluta, fjármálastofnana í D-hluta og hlutafélaga og sameignarfélaga sem eru að meira en hálfu leyti í eigu ríkisins í E-hluta.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta