Hoppa yfir valmynd
11. júní 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 213/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 11. júní 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 213/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20050004

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 5. maí 2020 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. apríl 2020, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Þess er krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og 3. mgr. 36. gr., sbr. 42. gr. laganna.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 8. febrúar 2020. Þar sem kærandi hafði fengið útgefna vegabréfsáritun til Þýskalands var þann 17. febrúar 2020 beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Þýskalandi, sbr. 2. eða 3. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá þýskum yfirvöldum, dags. 4. mars 2020, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 17. apríl 2020 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 21. apríl 2020 og kærði kærandi ákvörðunina þann 5. maí 2020 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 19. maí 2020 ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að þýsk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Þýskalands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Þýskalands.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að í viðtölum hjá Útlendingastofnun hafi hann m.a. verið spurður út í líkamlegt og andlegt heilsufar sitt. Kærandi greindi frá því að hann ætti erfitt með svefn m.a. vegna þess að faðir hans hafi horfið. Faðir hans hafi farið til [...] til að heimsækja fjölskyldu sína en aldrei komið til baka og kvaðst kærandi ekki vita hvar hann væri niðurkominn. Móðir kæranda hafi orðið áhyggjufull og sent kæranda í burtu af ótta við að hann yrði tekinn í burtu líkt og faðir hans. Kærandi greindi frá því að þetta hafi haft áhrif á andlega heilsu hans. Kærandi hafi jafnframt greint frá því að hann vilji ekki vera sendur aftur til Þýskalands en móðir hans viti af honum hér á landi þar sem að Ísland hafi átt að vera lokaáfangastaður hans.

Í greinargerð kæranda eru gerðar athugasemdir við hina kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar. Kærandi gerir m.a. athugasemd við þá staðhæfingu Útlendingastofnunar að umsækjendum um alþjóðlega vernd í Þýskalandi sé tryggð endurgjaldslaus lögfræðiþjónusta. Vísar kærandi m.a. til nýjustu skýrslu AIDA (e. Asylum Information Database) en þar komi fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Þýskalandi njóti takmarkaðrar lögfræðiaðstoðar á meðan á umsóknarferlinu standi. Í skýrslu AIDA komi jafnframt fram að aðgengi umsækjenda um alþjóðlega vernd að lögfræðiaðstoð til að kæra neikvæða niðurstöðu sé erfiðleikum bundið. Þá vísar kærandi til gagnrýni frjálsra félagasamtaka á framkvæmd viðtala við umsækjendur um alþjóðlega vernd í Þýskalandi en viðtölin séu yfirborðskennd og ekki til þess fallin að varpa ljósi á raunverulegar aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd. Auk þess sé reyndin sú að viðtöl eigi sér oft stað áður en umsækjendur hafi fengið tækifæri til þess að hafa samband við lögfræðing.

Hvað varðar aðstæður og réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd í Þýskalandi vísar kærandi til greinargerðar sinnar til Útlendingastofnunar þar sem þeim hafi verið gerð ítarleg skil, m.a. m.t.t. aðgengis að lögfræðiþjónustu, mismununar og ofbeldis í garð flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd og gagnrýni frjálsra félagasamtaka á framkvæmd viðtala og ákvarðanir þýskra stjórnvalda varðandi umsóknir um alþjóðlega vernd.

Kröfu sína um efnismeðferð byggir kærandi í fyrsta lagi á því að ótækt sé að beita heimild c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og að taka skuli mál hans til efnismeðferðar í ljósi sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi áréttar að íslenskum stjórnvöldum beri að leggja heildstætt mat á einstaklingsbundnar aðstæður umsækjanda og þær afleiðingar sem endursending gæti haft í för með sér fyrir hann, bæði líkamlegar og andlegar, auk þess að meta hvort umsækjandi sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, sbr. 25. gr. sömu laga. Þá gerir kærandi athugasemd við beitingu reglugerðar nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga. Kærandi gerir fyrirvara við lagastoð reglugerðarinnar auk þess sem hann bendir á að þau viðmið sem sett séu fram í ákvæði 32. gr. a reglugerðarinnar séu nefnd í dæmaskyni og því sé þar ekki að finna tæmandi talningu á þeim þáttum sem taka beri tillit til við mat á því hvort sérstakar ástæður séu til staðar. Útlendingastofnun hafi því borið að framkvæma heildarmat á einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda og þeim aðstæðum sem kærandi muni standa frammi fyrir í Þýskalandi komi til endursendingar. Með hliðsjón af þeim heimildum sem kærandi hafi vísað til varðandi erfiðar aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Þýskalandi, reynslu kæranda og andlegrar vanlíðunar byggir kærandi á því að fyrir hendi séu slíkar sérstakar ástæður sem skyldi íslensk stjórnvöld að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.

Krafa kæranda er í öðru lagi reist á því að ótækt sé að beita heimild c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þar sem taka skuli mál hans til efnismeðferðar á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. 42. gr. sömu laga, þar sem kveðið sé á um grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement. Vísar kærandi m.a. til þess að ástæða þess að hann hafi flúið frá heimaríki sínu sé sú að hann hafi þurft að sæta ofsóknum vegna þjóðernis síns. Heimildir beri með sér að fólk sem tilheyri tilteknum þjóðernishópi verði fyrir ofsóknum í [...] og að yfirvöld í [...] fylgi skipunum [...] yfirvalda með því að kúga þennan tiltekna hóp og hafa aukið eftirlit með þeim. Kærandi tekur fram að þrátt fyrir að heimildir beri með sér að þýsk yfirvöld veiti þessum hópi fólks vernd þá séu einungis til heimildir sem lúti að einstaklingum með [...] ríkisfang. Engar heimildir séu um meðhöndlun umsókna ríkisborgara [...] vegna þessarar málsástæðu og verði kærandi sendur aftur til Þýskalands sé alls óljóst hvað verði um hann. Telur kærandi að endursending hans til Þýskalands myndi fela í sér brot á 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga auk ákvæða stjórnarskrárinnar og alþjóðlegra mannréttindasamninga sem íslensk stjórnvöld séu bundin af. Því beri að fara fram á einstaklingsbundna tryggingu fyrir því að kærandi verði ekki sendur áfram til heimaríkis en að öðrum kosti taka mál hans til efnislegrar meðferðar hér á landi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Þýskalands á umsókn kæranda er byggð á 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi hafi fengið útgefna vegabréfsáritun til Þýskalands. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja þýsk stjórnvöld um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður í Þýskalandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Þýskalandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • 2019 Human Rights Report – Germany (United States Department of State, 11. mars 2020);
  • Amnesty International Report 2017/18 - Germany (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Asylum Information Database, Country Report: Germany (European Council on Refugees and Exiles, 16. apríl 2019);
  • Asylum Information Database, Housing out of reach. The reception of refugees and asylum seekers in Europe (European Council on Refugees and Exiles, 29. maí 2019);
  • Conclusions on Germany (European Commission against Racism and Intolerance, 28. febrúar 2017);
  • Freedom in the World 2020 – Germany (Freedom House, 4. mars 2020);
  • Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council Of Europe Following his Visit to Germany on 24th April and from 4 to 8 May 2015 (Council of Europe: Commissioner for Human Rights, 1. október 2015);
  • Upplýsingar af heimasíðu þýsku útlendingastofnunarinnar (www.bamf.de) og
  • World Report 2020 – European Union (Human Rights Watch, 14. janúar 2020).

Í ofangreindum gögnum kemur fram að einstaklingar skuli sækja um alþjóðlega vernd í Þýskalandi hjá þýsku útlendingastofnuninni (þ. Bundesamt für Migration und Flüchtlinge). Lögum samkvæmt eiga umsækjendur rétt á gistirými í móttökumiðstöðvum (þ. Aufnahmeeinrichtung) frá því að þeir leggja fram umsókn sína og þar til niðurstaða liggur fyrir. Í skýrslu Asylum Information Database kemur fram að árið 2018 hafi meðalmálsmeðferðartími útlendingastofnunar á umsóknum um alþjóðlega vernd verið um átta mánuðir. Umsækjendur um alþjóðlega vernd í Þýskalandi eiga rétt á viðtali með aðstoð túlks, áður en ákvörðun er tekin í máli þeirra hjá þýsku útlendingastofnuninni. Í ofangreindum gögnum kemur fram að umsækjendur sem fengið hafa synjun á umsókn sinni hjá þýsku útlendingastofnuninni (þ. Bundesamt für Migration und Flüchtlinge) geta kært niðurstöðuna til sérstaks stjórnsýsludómstóls (þ. Verwaltungsgericht). Fái umsækjendur synjun á umsókn sinni hjá útlendingastofnun eða stjórnsýsludómstól eiga þeir möguleika á því að leggja fram viðbótarumsókn (þ. Folgeantrag) um alþjóðlega vernd hjá útlendingastofnun. Ef nýjar upplýsingar eða gögn liggja fyrir í máli umsækjanda, aðstæður hafa breyst í máli hans eða verulegir annmarkar voru á fyrri málsmeðferð, geta skilyrði viðbótarumsóknar verið uppfyllt. Umsækjendur geta borið mál sitt undir þýska dómstóla sé viðbótarumsókn þeirra synjað. Jafnframt eiga umsækjendur þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem brýtur í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

Þýskaland er aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir sambandsins vegna meðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Þýskalandi kemur fram að umsækjendum séu tryggð búsetuúrræði og mataraðstoð. Þó hafa þýsk yfirvöld sætt gagnrýni frjálsra félagasamtaka vegna yfirfullra móttökumiðstöðva og búsetuúrræða en vegna þess hve verulega hefur dregið úr umsóknum á síðustu árum hefur ástandið batnað til muna. Þá verður ráðið af framangreindum gögnum að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Þýskalandi eiga rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt dómaframkvæmd þýskra dómstóla felur orðalagið „nauðsynleg heilbrigðisþjónusta“ ekki einvörðungu í sér bráðaþjónustu. Þá geta umsækjendur um alþjóðlega vernd sem glíma við sálræn áföll fengið aðgang að þjónustu sérfræðilækna og annarra meðferðaraðila. Þó eru dæmi um að umsækjendur hafa átt í erfiðleikum með að nálgast slíka þjónustu, m.a. vegna fjarlægða milli búsetu- og meðferðarúrræða.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér verður talið að þýsk stjórnvöld uppfylli skyldur sínar varðandi lögfræðiaðstoð til handa umsækjendum um vernd skv. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 32/2013 um málsmeðferð við veitingu og afturköllun alþjóðlegrar verndar, sbr. 19. og 20. gr. hennar. Þýsk yfirvöld tryggja umsækjendum ekki lögfræðiaðstoð endurgjaldslaust við meðferð máls á fyrsta stjórnsýslustigi en frjáls félagasamtök veita almennt gjaldfrjálsa lögfræðiaðstoð á fyrsta stigi málsmeðferðar. Á kærustigi eiga umsækjendur kost á lögfræðiráðgjöf og fyrir dómstólum geta þeir sótt um aðstoð lögmanns á kostnað þýskra yfirvalda. Umsækjendur um alþjóðlega vernd fá ekki endurgjaldslausa aðstoð lögfræðings við að leggja fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd í Þýskalandi eða við að bera synjun á viðbótarrannsókn undir dómstóla.

Í framangreindum gögnum kemur fram að glæpum gegn innflytjendum í Þýskalandi hefur fækkað á undanförnum árum. Stjórnarskrá Þýskalands og annarri löggjöf sé ætlað að tryggja jafnræði meðal allra auk þess sem í þeim er að finna ákvæði sem leggja bann við mismunum á grundvelli uppruna, trúar og annarra ástæðna. Þá er í gildi í Þýskalandi aðgerðaráætlun gegn kynþáttafordómum sem hefur það m.a. að markmiði að vernda þolendur mismununar. Í Þýskalandi er einnig starfrækt stofnun gegn mismunun (e. Anti-Discrimination Agency) sem einstaklingar sem telja sig hafa orðið fyrir mismunun geta leitað til. Hlutverk stofnunarinnar er fyrst og fremst að veita þolendum mismununar leiðbeiningar og aðstoð um það í hvaða farveg sé best að leggja mál þeirra. Starfsemi stofnunarinnar hefur verið gagnrýnd vegna skorts á úrræðum til að veita þolendum mismununar frekari vernd. Til viðbótar við framangreint hafa þýsk stjórnvöld gripið til ýmissa aðgerða gegn kynþáttafordómum sl. ár. Í því sambandi má nefna að nýlega var þýskum hegningarlögum breytt á þann veg að metið skal til refsiþyngingar ef afbrot eru framin vegna kynþáttahaturs.

Samkvæmt skýrslu Asylum Information Database eru ákvarðanir um varðhald umsækjenda um alþjóðlega vernd í Þýskalandi teknar af dómstólum. Meðal annars má setja umsækjendur í varðhald ef þeim hefur verið vísað brott frá landinu á tilteknum grundvelli eða að líklegt sé að þeim verði synjað um inngöngu í landið. Ákvarðanir um varðhald eru endurskoðaðar reglulega af dómstólum og ekki sjaldnar en á fjögurra vikna fresti. Við meðferð slíkra mála hjá dómstólum eiga einstaklingar rétt á tiltekinni aðstoð túlka og geta kallað til lögmann sér til aðstoðar gegn greiðslu.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi [...] ára gamall karlmaður. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi m.a. frá því að líkamleg og andleg heilsa hans væri góð en hann ætti við svefnerfiðleika að stríða auk þess sem að atburðir í heimaríki hefðu haft áhrif á hann. Í framlögðum heilsufarsgögnum kemur fram að kærandi sé almennt hraustur. Í samskiptaseðli Göngudeildar sóttvarna, dags. 12. mars 2020, kemur fram að kærandi hafi fundið fyrir svima og hafi fengið heilsufarsráðleggingar hjá hjúkrunarfræðingi vegna þessa. Þá liggja fyrir samskipti Rauða kross Íslands við Útlendingastofnun, dags. 14. maí 2020, sem bera með sér að kærandi hafi óskað eftir tíma hjá lækni vegna þess að hann sé með verk fyrir brjósti.

Með tölvupósti, dags. 2. júní 2020, leiðbeindi kærunefnd kæranda um að leggja fram frekari og uppfærð heilsufarsgögn. Engin frekari gögn bárust og ekki var óskað eftir frekari fresti til að leggja fram gögn. Kærunefnd tekur fram að kæranda var leiðbeint í viðtali hjá Útlendingastofnun, þann 24. febrúar 2020, um mikilvægi öflunar gagna um heilsufar, sem kærandi telji hafa þýðingu fyrir mál sitt, og um að afla skriflegra upplýsinga og leggja fram við meðferð máls hans hjá Útlendingastofnun. Með vísan til fyrrgreindrar málsmeðferðar og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu telur kærunefnd að mál kæranda sé nægjanlega upplýst hvað varðar heilsufar kæranda og aðra þætti varðandi einstaklingsbundnar aðstæður hans. Þá er ekkert sem bendir til þess að frekari gögn um heilsufar hans geti haft áhrif á niðurstöðu málsins.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda hefur þegar verið lýst og telur kærunefnd að þær séu ekki þess eðlis að þær teljist til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eða samkvæmt þeim viðmiðum sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Í því sambandi hefur nefndin m.a. litið til þess að heilsufar kæranda sé ekki með þeim hætti að hann teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, eins og segir í 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar. Þá telur nefndin að heilbrigðisaðstæður kæranda geti ekki talist til ástæðna sem séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Þá benda framangreind gögn til þess að kærandi komi til með að hafa fullnægjandi aðgang að heilbrigðisþjónustu í Þýskalandi.

Þá telur kærunefnd gögn málsins ekki bera með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að hann geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. áðurnefnd viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda m.a. til þess að telji kærandi sér mismunað eða óttist hann um öryggi sitt að einhverju leyti geti hann leitað aðstoðar hjá þar til bærum stjórnvöldum.

Við mat á því hvort sérstakar ástæður mæli með því að umsókn kæranda hljóti efnismeðferð hér á landi hefur kærunefnd litið til þeirra aðstæðna sem nú eru uppi vegna Covid-19 faraldursins. Fjölmörg ríki hafa gripið til umfangsmikilla aðgerða til þess að sporna gegn útbreiðslu veirunnar. Felast aðgerðirnar m.a. í ferðatakmörkunum og ferðabönnum. Í því sambandi hafa mörg aðildarríki Dyflinnarsamstarfsins lokað tímabundið fyrir endursendingar einstaklinga á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og liggur ekki fyrir hvenær endursendingar muni hefjast að nýju. Á þetta við um Ísland og ríkir því ákveðin óvissa hér á landi um það hvenær framkvæmd á endursendingum hefjist að nýju. Yfirvöld í Þýskalandi hafa jafnframt gripið til umfangsmikilla aðgerða til þess að sporna við útbreiðslu veirunnar, m.a. með lokun landamæra, útgöngutakmörkunum, samkomubanni auk þess sem skólahald lagðist af. Þá hefur verklag varðandi móttöku og afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd verið aðlagað að smitvörnum en t.a.m. er einungis tekið við umsóknum skriflega og hefur einhver töf verið á framkvæmd viðtala. Kærunefnd hefur ekki forsendur til annars en að líta svo á að þær takmarkanir sem við líði eru vegna Covid-19 faraldursins séu tímabundnar. Aflétting vissra takmarkana er hafin í Þýskalandi og hafa þýsk stjórnvöld t.a.m. hafið vinnu við að opna landamæri sín í skrefum. Með fyrirvara um að ekki komi bakslag vegna Covid-19 faraldursins ætla þýsk stjórnvöld að leyfa ferðalög til og frá ríkjum innan Evrópusambandsins, ásamt Íslandi, Noregi, Sviss, Liechtenstein og Bretlandi þann 15. júní næstkomandi.

Af skýrslum er ljóst að viðtökuríkið býr við stöðuga stjórnarhætti og sterka innviði. Að mati kærunefndar er því ekkert sem bendir til þess að það tímabundna ástand sem nú ríki komi til með að hafa teljandi áhrif á getu eða vilja viðtökuríkisins til að taka á móti og afgreiða mál kæranda þar í landi þegar takmörkunum verður aflétt og veita honum nauðsynlegan stuðning og viðeigandi aðbúnað á meðan mál hans er þar til meðferðar.

Í því sambandi er rétt að árétta að Dyflinnarreglugerðin gerir ráð fyrir því að samstarfsríkin hafi almennt sex mánuði frá því að lokaákvörðun var tekin um kæru umsækjanda um alþjóðlega vernd til að flytja umsækjanda til viðtökuríkis, sbr. 1. mgr. 29. gr. reglugerðarinnar. Kærunefnd hefur ekki forsendur til að álykta að endursendingar til viðtökuríkisins verði ekki hafnar áður en umræddur frestur rennur út.

Þá lítur kærunefnd einnig til þess að skv. 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga er Útlendingastofnun heimilt að fresta flutningi á umsækjanda ef það telst nauðsynlegt vegna sérstakra aðstæðna hans eða ómögulegt er að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Er það mat kærunefndar að tímabundnar takmarkanir á endursendingum til Þýskalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar geti ekki, eins og hér stendur á, leitt til þess að sérstakar ástæður mæli með því að umsókn kæranda verði tekin til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í því sambandi hefur kærunefnd sérstaklega litið til sterkra innviða viðtökuríkisins og þess frests sem aðildarríki Dyflinnarsamstarfsins hafa til að endursenda umsækjendur til viðtökuríkis og fjallað var um hér að framan.Það er jafnframt mat kærunefndar að málsástæður kæranda að öðru leyti verði ekki taldar til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendingalaga.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda og á grundvelli heildarmats á áhrifum Covid-19 faraldursins á aðstæður hans er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 24. febrúar 2020 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 8. febrúar 2020.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið byggt á því að sú meðferð sem einstaklingur á von á við brottvísun eða frávísun verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til að ákvörðunin verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars. Við mat á umræddu alvarleikastigi hefur dómstóllinn jafnframt litið til annarra þátta, t.d. hvort einstaklingurinn er í viðkvæmri stöðu, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Khlaifia o.fl. gegn Ítalíu (nr. 16483/12) frá 15. desember 2016. Í því sambandi hefur dómstóllinn lagt ákveðna áherslu á að umsækjendur um alþjóðlega vernd tilheyri jaðarsettum og viðkvæmum þjóðfélagshóp sem þurfi sérstaka vernd, sbr. t.d. dóm í máli Tarakhel gegn Sviss (nr. 29217/12) frá 4. nóvember 2012. Þrátt fyrir það verði 3. gr. mannréttindasáttmálans ekki túlkuð á þann hátt að í greininni felist skylda aðildarríkja til að sjá umsækjendum um alþjóðlega vernd fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum, sbr. dóm í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011.

Með vísan til umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði umsækjenda um alþjóðlega vernd í Þýskalandi er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins jafnframt með sér að í Þýskalandi sé veitt raunhæf vernd gegn því að fólki sé vísað brott eða endursent til ríkja þar sem það eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum eða þar sem líf þess og frelsi er ógnað. Í því sambandi hefur kærunefnd einkum litið til þess að gögnin benda til þess að meðferð þýskra stjórnvalda á umsóknum um alþjóðlega vernd sé með þeim hætti að lagt sé einstaklingsbundið mat á aðstæður þeirra. Þá benda öll gögn til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði í Þýskalandi, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem tryggja að hann verði ekki sendur til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Athugasemdir kæranda við hina kærðu ákvörðun

Svo sem að framan hefur komið gerir kærandi athugasemdir við hina kærðu ákvörðun, m.a. við mat Útlendingastofnunar á aðstæðum í viðtökuríki og við beitingu reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 með áorðnum breytingum.

Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt einstaklingsbundið mat á umsókn kæranda og komist að niðurstöðu um að taka umsókn hans ekki til efnismeðferðar með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Er niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg en áður hefur komið fram í úrskurðum kærunefndar að reglugerðina skorti ekki lagastoð.

Vegna athugasemdar kæranda í greinargerð um beitingu á ákvæða 32. gr. a reglugerðar um útlendinga tekur kærunefnd sérstaklega fram að hún telji ljóst að það leiði bæði af orðalaginu „viðmið“ og tilvísun í reglugerðinni um að þau séu í „dæmaskyni“ að ekki sé um að ræða tæmandi upptalningu á þeim sjónarmiðum sem komið geta til greina við mat á því hvort sérstakar ástæður eru fyrir hendi í máli. Kærunefnd áréttar í þessu samhengi að við meðferð mála hjá kærunefnd er ávallt horft til einstaklingsbundinna aðstæðna einstaklingsins við mat á því hvort sérstakar ástæður mæli með því að mál verði tekið til efnismeðferðar, í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, þ.m.t. heilsufars hans og annarra þátta sem benda til viðkvæmrar stöðu einstaklingsins. Kærunefnd leggur því áherslu á að heildarmat sé lagt á atvik í hverju máli fyrir sig á grundvelli einstaklingsbundinna aðstæðna einstaklingsins og aðstæðna í viðtökuríki.

Kærunefnd hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun að öðru leyti og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við hana. Hefur kærunefnd skoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.

Frávísun

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd þann 8. febrúar 2020. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda bendir allt til þess að hann hafi verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi skal fluttur til Þýskalands eins fljótt og unnt er, nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í máli þessu hafa þýsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Þýskalands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd á grundvelli lokamálsliðar 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin, m.a. ef afleiðingar Covid-19 faraldursins muni vara lengur og vera alvarlegri en gera má ráð fyrir nú.

Athygli kæranda er einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                                   Bjarnveig Eiríksdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta