Hoppa yfir valmynd
4. maí 2017 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 6/2017

Mál nr. 6/2017

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála


Erindi Jafnréttisstofu

 

Túlkun á lögum nr. 10/2008. Frávísun.

Jafnréttisstofa óskaði eftir túlkun kærunefndar jafnréttismála á 24. og 26. gr. laga nr. 10/2008 en tilefni beiðninnar var synjun fjármála- og efnahagsráðuneytisins á birtingu auglýsingar Fiskistofu á Starfatorgi þar sem auglýst var sérstaklega eftir konum til starfa sem veiðieftirlitsmenn. Kærunefnd jafnréttismála taldi að ekki stæði lagaheimild til þess að hún fjallaði um málið. Var því málinu vísað frá nefndinni.

 

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 4. maí 2017 er tekið fyrir mál nr. 6/2017 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með erindi, dagsettu 25. apríl 2017, fór Jafnréttisstofa þess á leit við kærunefnd jafnréttismála að hún tæki til meðferðar og veitti álit sitt á því hvort túlkun Jafnréttisstofu á 2. mgr. 24. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, um sértækar aðgerðir og á 3. mgr. 26. gr. sömu laga um heimild til að auglýsa sérstaklega eftir annaðhvort konu eða karli, standist.

    MÁLAVEXTIR
  3. Þann 22. apríl 2017 birtist auglýsing í Fréttablaðinu frá Fiskistofu þar sem auglýst var sérstaklega eftir konum til starfa sem veiðieftirlitsmenn á Akureyri og í Hafnarfirði. Fiskistofa mun hafa haft samráð við Jafnréttisstofu við gerð auglýsingarinnar sem hafi talið efni hennar standast lög nr. 10/2008. Þegar mannauðsstjóri Fiskistofu hugðist birta auglýsinguna á Starfatorgi mun lögfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu hafa talið að auglýsingin stæðist ekki gagnvart lögunum og að hún stangaðist á við lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna nr. 70/1996. Í kjölfarið ákvað Fiskistofa að draga auglýsinguna til baka.

    SJÓNARMIÐ JAFNRÉTTISSTOFU
  4. Jafnréttisstofa kveðst hafa túlkað 24. og 26. gr. laga nr. 10/2008 með þeim hætti að heimilt sé að auglýsa eftir starfsmanni af öðru hvoru kyninu þegar tilgangurinn sé ótvírætt að stuðla að jafnari kynjaskiptingu hjá viðkomandi stofnun eða fyrirtæki, brjóta upp staðalmyndir og stuðla að breytingum á hefðbundnu náms- og starfsvali, sbr. 1. gr. laga nr. 10/2008. Í 23. gr. laga nr. 10/2008 segir: „Óheimilt er að auglýsa eða birta auglýsingu um laust starf þar sem gefið er í skyn að fremur sé óskað starfsmanns af öðru kyninu en hinu. Þetta ákvæði gildir ekki ef tilgangur auglýsandans er að stuðla að jafnari kynjaskiptingu innan starfsgreinarinnar og skal það þá koma fram í auglýsingunni.“ Í auglýsingu Fiskistofu hafi komið skýrt fram að nær eingöngu karlar sinni störfum veiðieftirlitsmanna og að tilgangur auglýsingarinnar sé að „jafna kynjahlutföll í starfsgreininni“. Í auglýsingunni sé beinlínis auglýst eftir konum til starfa.
  5. Jafnréttisstofa upplýsir að á undanförnum árum hafi öldrunarheimili Akureyrar auglýst sérstaklega eftir körlum til starfa í þjónustu heimilanna enda sé um afar hefðbundna kvennavinnustaði að ræða. Talinn hafi verið ótvíræður ávinningur af því að fá karla til starfa. Jafnréttisstofa hafi verið öldrunarheimilunum til ráðgjafar og túlkað þessa tilraun sem sértæka aðgerð, sbr. 24. gr. laga nr. 10/2008, sem sé til þess ætluð að jafna stöðu kynjanna og gera þjónustu við aldraða fjölbreyttari. Nú hafi vaknað spurningar um hvort þessi aðgerð, sem hafi skilað töluverðum árangri, standist lög nr. 10/2008 og hugsanlega önnur lög.
  6. Undanfarin ár hafi verið í gangi sérstakt verkefni á vegum sveitarfélaganna í Noregi sem kallast „Menn i helse“ eða karlar í umönnun. Verkefnið sé skipulagt þannig að markhópurinn sé eingöngu karlar á aldrinum 25‒55 ára. Þeim sé boðið upp á nám og síðan störf með öldruðum, fötluðum og inni á heilbrigðisstofnunum. Þarna sé um sértæka aðgerð að ræða til þess að jafna stöðu kynjanna en einnig til að bregðast við atvinnuleysi karla og mannaflaþörf í velferðarþjónustunni. Þetta sé greinilega heimilt samkvæmt norskum lögum. Jafnréttisstofa hafi eins og áður sé komið fram túlkað íslensk lög þannig að slíkar séraðgerðir séu heimilar.
  7. Jafnréttisstofa fer þess á leit að kærunefnd jafnréttismála taki túlkun á 24. og 26. gr. laga nr. 10/2008 til meðferðar í ljósi framangreindra mála. Stofnunin tekur fram að ekki sé um kæru að ræða heldur beiðni um álit á því hvort túlkun Jafnréttisstofu standist lög og reglur. Það sé afar mikilvægt að fá úr því skorið hvað lög nr. 10/2008 heimili hvað varði sértækar aðgerðir og auglýsingar. Á því velti meðal annars hvort það markmið laganna að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins nái fram að ganga og einnig hvort sú túlkun Jafnréttisstofu standist að beita megi sértækum aðgerðum, þar með talið auglýsingum, til þess að sinna því hlutverki að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla, sbr. i-lið 4. gr. laga nr. 10/2008.

    NIÐURSTAÐA
  8. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 18. gr. laganna skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna.
  9. Í 5. mgr. 4. gr. laganna er fjallað um heimild Jafnréttisstofu til að óska eftir að kærunefnd jafnréttismála taki mál til meðferðar ef stofan telur rökstuddan grun vera uppi um brot á lögunum. Í lögunum er hins vegar ekki til að dreifa heimild til að álits kærunefndar jafnréttismála sé leitað án tengsla við ætlað brot er lýtur að lögvörðum hagsmunum tiltekinna aðila.
  10. Þar sem lög standa ekki til þess að kærunefnd jafnréttismála fjalli um erindi Jafnréttisstofu er óhjákvæmilegt að vísa máli þessu frá nefndinni.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

Erla S. Árnadóttir

 Björn L. Bergsson

Þórey S. Þórðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta