Hoppa yfir valmynd
8. desember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 492/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 492/2022

Fimmtudaginn 8. desember 2022

A

gegn

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 4. október 2022, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 21. september 2022, um að synja beiðni hennar um greiðslu húsnæðisbóta aftur í tímann.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 26. ágúst 2022, sótti kærandi um greiðslur húsnæðisbóta. Með ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 31. ágúst 2022, var kæranda tilkynnt að umsóknin hefði verið samþykkt og fékk hún greiddar húsnæðisbætur frá og með umsóknarmánuði. Með erindi, dags. 16. september 2022, óskaði dóttir kæranda, fyrir hennar hönd, eftir greiðslu húsnæðisbóta aftur í tímann frá og með 10. júlí 2022. Þeirri beiðni var synjað með erindi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 21. september 2022, þar sem kom fram að húsnæðisbætur væru greiddar frá umsóknarmánuði og að óheimilt væri að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 4. október 2022. Með bréfi, dags. 6. október 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð 10. nóvember 2022. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 10. nóvember 2022, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. nóvember 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi flutt úr húsnæði við B þann 10. júlí 2022 og í húsnæði við C. Nýr húsaleigusamningur hafi verið endurnýjaður 10. júlí 2022 á nýjum stað. Tafir hafi orðið á þinglýsingu húsaleigusamningsins þar sem leigusalinn hafi ekki verið kominn með afsal fyrir eigninni og það hafi reynst mjög erfitt að fá undirritun afsalshafa á leigusamninginn. Að lokum hafi það tekist og hafi leigusamningnum verið þinglýst þann 24. ágúst 2022.

Vegna þessara atvika hafi kærandi hvorki fengið greiddar húsnæðisbætur né sérstakar húsnæðisbætur fyrir júlímánuð. Hún megi ekki við slíku tekjutapi. Því óski kærandi eftir því að mál hennar verði skoðað sérstaklega og henni greiddar húsnæðisbætur frá 10. júlí til 31. júlí 2022 eins og hún eigi rétt á.

III.  Sjónarmið Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Í greinargerð Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) kemur fram að kærandi hafi skilað inn umsókn um húsnæðisbætur þann 26. ágúst 2022 vegna leigu á húsnæðinu C. Þann 31. ágúst 2022 hafi umsókn kæranda verið samþykkt.

Kærandi hafi áður verið með virka umsókn um húsnæðisbætur vegna leigu á húsnæðinu B. Leigusamningi vegna þess húsnæðis hafi lokið þann 30. júní 2022. Bréf vegna frestunar hafi verið sent til kæranda þann 5. júlí 2022. Í því bréfi komi fram að samkvæmt upplýsingum frá sýslumanni hefði leigusamningi ekki verið þinglýst vegna leigu á húsnæðinu B.

Þann 14. júlí 2022 hafi kæranda verið sent annað bréf þar sem tilkynnt hafi verið að umsókn um húsnæðisbætur hefði verið færð í leigulok þann 30. júní 2022 þar sem leigutíma hafi verið lokið samkvæmt umsókn og/eða leigusala. Í bréfinu hafi auk þessa komið fram að hægt væri sækja aftur um húsnæðisbætur og hvernig það væri gert. Engar athugasemdir hafi borist HMS í kjölfar þessa bréfs.

Stofnuninni hafi borist tölvupóstur, dags. 16. september 2022, þar sem komi fram upplýsingar um að tafir hafi orðið á þinglýsingu húsaleigusamnings og þar af leiðandi hafi kærandi ekki fengið greiddar húsnæðisbætur fyrir júlí. Kærandi hafi verið upplýst um það að stofnuninni væri ekki heimilt að greiða út húsnæðisbætur lengra aftur í tímann en frá umsóknarmánuði. Þann 4. október 2022 hafi ákvörðun HMS um rétt til húsnæðisbóta verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Í máli þessu sé deilt um rétt til afturvirkra húsnæðisbóta.

Í VI. kafla laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur sé fjallað um greiðslu húsnæðisbóta. Í 2. mgr. 21. gr. laganna komi fram að húsnæðisbætur komi til greiðslu í fyrsta skipti fyrsta dag næsta almanaksmánaðar eftir að réttur til bóta hafi verið staðreyndur. Húsnæðisbætur skuli þó reiknast frá og með þeim almanaksmánuði þegar framkvæmdaraðili móttaki umsókn um húsnæðisbætur vegna leigutíma þess almanaksmánaðar eða hluta úr þeim mánuði, hafi leigutími hafist síðar en fyrsta dag almanaksmánaðar. Óheimilt sé að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann.

Fyrirliggjandi í málinu sé að umsókn um húsnæðisbætur hafi borist HMS þann 26. ágúst 2022 og þar af leiðandi hafi kærandi ekki átt rétt á húsnæðisbótum lengra aftur í tímann en ágúst 2022. Stofnunin telji ekki þörf á að fara nánar út í skilyrði þinglýsingar leigusamnings þar sem það eigi ekki við í málinu. HMS geri kröfu um að hin kærða ákvörðun stofnunarinnar verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 21. september 2022 um að synja beiðni kæranda um greiðslu húsnæðisbóta aftur í tímann.

Í 2. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur kemur fram að húsnæðisbætur komi til greiðslu í fyrsta skipti fyrsta dag næsta almanaksmánaðar eftir að réttur til bóta hafi verið staðreyndur. Húsnæðisbætur skuli þó reiknast frá og með þeim almanaksmánuði þegar framkvæmdaraðili móttekur umsókn um húsnæðisbætur vegna leigutíma þess almanaksmánaðar eða hluta úr þeim mánuði, hafi leigutími hafist síðar en fyrsta dag almanaksmánaðar. Óheimilt sé að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann. Þrátt fyrir 1. og 2. málsl. verða húsnæðisbætur aðeins greiddar vegna almanaksmánaðar eða hluta úr almanaksmánuði þegar leigutími er hafinn og koma til greiðslu fyrsta dag næsta almanaksmánaðar á eftir. Samkvæmt d-lið 2. mgr. 9. gr. laga nr. 75/2016 skulu húsnæðisbætur einungis veittar sé umsækjandi aðili að þinglýstum leigusamningi um íbúðarhúsnæði sem sé til að minnsta kosti þriggja mánaða.

Kærandi lagði inn umsókn um húsnæðisbætur 26. ágúst 2022 og fékk greiddar húsnæðisbætur frá og með þeim mánuði. Kærandi hefur vísað til þess að ekki hafi tekist að þinglýsa nýjum leigusamningi fyrr og því hafi hún ekki lagt inn umsókn fyrr. Samkvæmt skýru ákvæði 2. mgr. 21. gr. laga nr. 75/2016 er óheimilt að greiða húsnæðisbætur lengra aftur í tímann en frá umsóknarmánuði. Að því virtu er ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um að synja beiðni kæranda um greiðslu húsnæðisbóta aftur í tímann staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 21. september 2022, um að synja beiðni A, um greiðslu húsnæðisbóta aftur í tímann, er staðfest.

 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta