Hoppa yfir valmynd
14. júlí 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 265/2022 Úrskurður


 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 14. júlí 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 265/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22050043

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

  1. Málsatvik

    Með úrskurði nr. 359/2020, í máli nr. KNU20020023, kveðnum upp 22. október 2020 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. janúar 2020, um að synja einstaklingi er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og kveðst nú vera ríkisborgari Sómalíu, um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

    Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 26. október 2020. Beiðni um frestun réttaráhrifa barst kærunefnd 2. nóvember 2020 og var henni hafnað með úrskurði nefndarinnar í stjórnsýslumáli nr. KNU20110004, 18. nóvember 2020. Hinn 20. apríl 2020 stefndi kærandi íslenska ríkinu og eru kröfur hans þær að ógiltur verði með dómi framangreindur úrskurður kærunefndar nr. 359/2020. Með úrskurði dags. 15. júlí 2021 í máli nr. KNU21050006, hafnaði kærunefnd beiðni kæranda frá 5. maí 2021 um endurupptöku á máli hans. Kærandi hefur jafnframt lagt fram umsókn um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara en þeirri umsókn var hafnað með ákvörðun Útlendingastofnunar 9. ágúst 2021 sem staðfest var af kærunefnd með úrskurði nefndarinnar dags. 14. október 2021, í stjórnsýslumáli nr. KNU21080042.

    Hinn 24. maí 2022 lagði kærandi að nýju fram beiðni um endurupptöku málsins ásamt fylgigögnum.

    Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í endurupptökubeiðni kæranda er gerð sú krafa að mál hans verði endurupptekið hjá kærunefnd, að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka mál hans til nýrrar meðferðar.

  2. Málsástæður og rök kærenda

    Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku málsins á því að kærunefnd hafi komist ranglega að þeirri niðurstöðu að hann væri ríkisborgari Eþíópíu þrátt fyrir að engin gögn styðji þá niðurstöðu. Kærandi hafi aflað vegabréfs frá heimaríki sínu, Sómalíu, sem íslensk stjórnvöld hafi metið ófalsað. Þá áréttar kærandi að hann hafi allt frá upphafi málsmeðferðar á umsókn hans um alþjóðlega vernd veitt stjórnvöldum samþykki sitt til að hafa samband við eþíópísk stjórnvöld til að fá staðfestingu á því hvort hann sé með ríkisfang þar í landi. Kæranda sé ekki kunnugt um hvort það hafi verið gert.

    Kærandi telur því að úrskurður kærunefndar byggi á röngum og ófullnægjandi upplýsingum málsatvik í skilningi 1. tölul. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá telur kærandi að í ljósi nýlegs dóms Landsréttar í máli nr. 427/2020, dags. 5. nóvember 2021, þar sem niðurstaða dómsins hafi verið sú að stjórnvöld hafi komist ranglega að þeirri niðurstöðu um ríkisfang einstaklings án stuðnings í haldbærum gögnum, sé rétt að kærunefnd útlendingamála endurskoði fyrri afstöðu sína um ríkisfang kæranda og veiti honum alþjóðlega vernd hér á landi samkvæmt kröfum hans.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr., eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. laganna.

Með úrskurði kærunefndar í máli kæranda, dags. 22. október 2020, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og ætti því ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda væru ekki með þeim hætti að veita bæri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá komst kærunefnd að þeirri niðurstöðu að ekki væru fyrir hendi forsendur til að taka afstöðu til þess hvort kærandi ætti rétt á alþjóðlegri vernd á grundvelli ríkisfangsleysis, sbr. 1. mgr. 39. gr. laga um útlendinga og lagði til grundvallar að kærandi væri ríkisborgari Eþíópíu.

Kærandi byggir nýja beiðni sína um endurupptöku málsins á því að kærunefnd hafi komist ranglega að að þeirri niðurstöðu að hann væri ríkisborgari Eþíópíu þrátt fyrir að engin gögn hafi stutt þá niðurstöðu en kærandi hafi aflað vegabréfs frá heimaríki sínu, Sómalíu, sem íslensk stjórnvöld hafi metið ófalsað.

Í úrskurði kærunefndar í máli kæranda nr. KNU20020023 gerði kærandi þá kröfu til vara að honum yrði veitt alþjóðleg vernd á grundvelli ríkisfangsleysis, skv. 1. mgr. 39. gr. laga um útlendinga, þar sem hann væri ríkisfangslaus og liti ekki á neitt ríki sem heimaríki sitt. Í úrskurðinum var afstaða tekin til framangreindrar kröfu og málsástæða kæranda um ríkisfangsleysi. Var það mat kærunefndar að framburður kæranda um ríkisfang hans hefði verið reikull frá upphafi málsmeðferðar hans hér á landi og hefðu gögn þau sem kærandi hefði lagt fram ekki verið til þess fallin að styðja staðhæfingu hans um ríkisfangsleysi. Þá tók kærunefnd fram að kærandi hefði, með fullri vitneskju, lagt fram falsað fæðingarvottorð, sem hafi sýnt fram á eþíópískan ríkisborgararétt hans, til stuðnings kröfu sinni um alþjóðlega vernd. Þá lá fyrir að kærandi hefði greint frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að hafa haft vegabréf við brottför frá Eþíópíu í rauðum lit, sem sé hefðbundinn litur á vegabréfum útgefnum af eþíópískum yfirvöldum. Var það niðurstaða kærunefndar, eftir skoðun á gögnum málsins og með tilliti til mats á trúverðugleika frásagnar kæranda, að ekki væri forsendur til annars en að fallast á mat Útlendingastofnunar á þjóðerni kæranda og var því lagt til grundvallar að hann væri eþíópískur ríkisborgari. Tók úrlausn málsins því mið af aðstæðum í Eþíópíu.

Við meðferð máls nr. KNU21050006 tók kærunefnd til skoðunar beiðni kæranda um endurupptöku máls hans. Kærandi krafðist þess að í ljósi þess að hann hefði lagt fram vegabréf sem útgefið hefði verið af sómölskum stjórnvöldum sem sýndi fram á sómalskan ríkisborgararétt hans færi hann fram á það, með vísan til 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, að mál hans yrði endurupptekið hjá kærunefnd og að hin kærða ákvörðun yrði felld úr gildi og Útlendingastofnun yrði gert að taka mál hans til nýrrar meðferðar.

Í niðurstöðu kærunefndar í framangreindu máli sem lauk með úrskurði uppkveðnum 15. júlí 2021 kom fram að samkvæmt upplýsingum frá skilríkjarannsóknarstofu flugstöðvardeildar lögreglunnar á Suðurnesjum væru gögnin sem lægju að baki útgáfu vegabréfs kæranda annað hvort fölsuð eða ótraust og þá stemmdi fingrafar á auðkennisvottorði ekki við fingraför kæranda. Vegna þeirra upplýsinga hafi kærunefnd óskað eftir því að kærandi gæfi upplýsingar um það hvort og þá hvenær hann hefði farið til Sómalíu og jafnframt eftir upplýsingum um hvernig hann hefði fengið útgefið fæðingarvottorð, sakarvottorð, vegabréf og skilríki frá sómölskum stjórnvöldum. Í svörum kæranda við fyrirspurn kærunefndar kom fram að hann hefði aldrei komið til Sómalíu og að gagnanna hefði verið aflað í gegnum umsóknarferli á netinu. Kærandi hefði haft samband við sómölsk útlendingamálastjórnvöld (e. Immigration and Naturalization Directorate of Somalia) í gegnum Whatsapp forritið. Kærandi hefði sótt um staðfestingu á sómölsku ríkisfangi sínu, þ.e. vegabréf, eftir tilskildum lögmætum leiðum. Kærunefnd komst að þeirri niðurstöðu með vísan til gagna málsins að kærandi hefði lagt fram gögn til grundvallar umsóknar um sómalskt vegabréf sem annað hvort teldust fölsuð eða hafi verið gefin út á grundvelli lífkennis annars einstaklings. Þrátt fyrir að vegabréf það sem hann hefði lagt fram teldist ófalsað væru gögn sem lægju til grundvallar útgáfu þess óáreiðanleg og yrði því ekki hægt að leggja til grundvallar að vegabréfið staðfesti auðkenni kæranda eða sómalskt ríkisfang hans.

Með beiðni um endurupptöku lagði kærandi ekki fram ný gögn um auðkenni eða ríkisfang. Að teknu tilliti til gagna málsins er það mat kærunefndar að í greinargerð kæranda með beiðni um endurupptöku á máli hans sé byggt á sömu málsatvikum og málsástæðum og hann byggði á og bar fyrir sig í endurupptökubeiðni hans frá 5. maí 2021, en kærunefnd hefur þegar tekið afstöðu til þeirra málsástæðna. Kærunefnd áréttar því niðurstöðu sína í máli nr. KNU21050006 hvað þessa málsástæðu varðar.

Að teknu tilliti til framangreinds er það mat kærunefndar að atvik í máli kæranda hafi ekki breyst verulega í skilningi 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er það mat kærunefndar að ekkert í gögnum málsins gefi til kynna að niðurstaða í úrskurði kærunefndar nr. 359/2020 frá 20. október 2020 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Kröfu kæranda um endurupptöku máls hans hjá kærunefnd er því hafnað.


 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine his case is denied.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Þorbjörg I. Jónsdóttir                                                            Sindri M. Stephensen

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta