55 milljónum króna úthlutað úr starfsmenntasjóði
Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingamálaráðherra, úthlutaði í dag 55 milljónum króna úr starfsmenntasjóði ráðuneytisins. Auglýst var eftir umsóknum sem stuðluðu að atvinnusköpun og fólu í sér nýsköpun og einnig var auglýst eftir þróunarverkefnum sem miða að því að vinna gegn neikvæðum áhrifum breytinga sem orðið hafa á vinnumarkaði í kjölfar efnahagskreppunnar. Fjörutíu og níu aðilar sóttu um styrk til 78 verkefna en 39 verkefni hlutu styrk.
Verkefnið „Víst geturðu lært stærðfræði“ sem Mímir-símenntun stendur að í samstarfi við Flöt – félag stærðfræðikennara var valið sem gott dæmi um áhugavert verkefni og nam styrkur til þess 1,9 milljónum króna. Markmiðið er að brjóta niður hindranir í stærðfræðinámi fullorðins fólks og þróa til þess námsefni við hæfi. Sem dæmi um fleiri verkefni sem hlutu styrk má nefna námskeið í málmsuðu og málmsmíði fyrir iðnaðarmenn, þróun og framleiðslu matvæla úr innlendu korni, frumkvöðlasmiðju fyrir innflytjendur og starfsnám og ráðgjöf fyrir eigendur og stjórnendur dreifbýlisverslana.
Verkefni sem hlutu styrk
Úthlutað úr sjóðnum í síðasta sinn
Frá árinu 1992 hefur Starfsmenntaráð veitt rúmlega 800 milljónir króna í styrki til um 900 starfsmenntaverkefna sem hafa það að markmiði að efla hæfni starfsfólks og styrkja stöðu atvinnugreina og fyrirtækja hér á landi. Í ávarpi sem Guðbjartur Hannesson, félags- og tryggingamálaráðherra, flutti við afhendingu styrkjanna í dag þakkaði hann öllum sem starfað hafa á vettvangi þess fyrir vel unnin störf. „Starfsmenntaráð hefur gegnt afar þýðingarmiklu hlutverki fyrir einstaklinga, atvinnulífið og samfélagið í heild og skapað þannig gífurleg verðmæti sem seint verða metin að fullu til fjár.“
„Það eru ákveðin tímamót hér í dag, því þetta er í síðasta sinn sem Starfsmenntaráð félags- og tryggingamálaráðuneytisins úthlutar styrkjum úr starfsmenntasjóði. Þann 1. október tóku gildi ný lög um framhaldsfræðslu sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið og með þeim voru felld úr gildi lög um starfsmenntun í atvinnulífinu. Það er þó síður en svo verið að draga úr vægi starfsmenntunar með þessu, heldur miklu fremur að styrkja hana og efla og treysta grundvöll hennar.“
Samkvæmt nýjum lögum framhaldsfræðslu verður stofnaður sérstakur Fræðslusjóður sem hefur það hlutverk að veita fé til fræðsluaðila til að mæta kostnaði við kennslu og námskeiðahald og kostnaði við raunfærnimat og náms- og starfsráðgjöf og eins til að veita styrki til nýsköpunar- og þróunarverkefna í framhaldsfræðslu.
„Það hefur verið samdóma álit þeirra sem fjalla um nám fullorðinna að til þess að það skili tilætluðum árangri verði að afla því formlegrar viðurkenningar. Þetta er eitt af meginmarkmiðum nýju laganna og með því er lagður grunnur að heildstæðu kerfi framhaldsfræðslu þar sem stuðningur er veittur einstaklingum óháð stéttarfélagsaðild.“