Hoppa yfir valmynd
22. júlí 2011 Innviðaráðuneytið

Flugritar geta ráðið úrslitum við rannsókn flugslysa

Flugmálayfirvöld í Frakklandi, rannsóknarnefnd flugslysa þar í landi, Airbus og Air France lögðu í gífurlegan kostnað við leit að flugrita frönsku A330 þotunnar sem fórst yfir Atlantshafi í júní 2009. Fulltrúi í flugslysanefndinni skýrði frá leitinni á fundi sem alþjóðlegur vinnuhópur á vegum ICAO hélt í innanríkisráðuneytinu í vikunni.

Philippe Plantin de Hugues segir frá leit að flugvél Air France sem fórst í Atlantshafi í júní 2009.
Philippe Plantin de Hugues segir frá leit að flugvél Air France sem fórst í Atlantshafi í júní 2009.

Vinnuhópur Alþjóða flugmálastofnunarinnar, ICAO, hefur það hlutverk að leita leiða til að bæta notkun flugrita, svo sem er varðar tæknilega möguleika þeirra og hvernig unnt er að staðsetja þá þegar slys verður og setja fram tillögur sem ein af fastanefndum ICAO tekur til ígrundunar. Nái tillögurnar fram að ganga leggur ICAO þær fyrir aðildarríki og verði þær samþykktar fara þær sem alþjóðlegar reglur ICAO í svokallaðan Annex 6 sem fjallar um flugrekstur.

Þormóður Þormóðsson, rannsóknarstjóri Rannsóknarnefndar flugslysa, og Þorkell Ágústsson aðstoðarrannsóknarstjóri sátu einnig fundinn. Þormóður starfaði um fimm ára skeið hjá ICAO að málefnum er varða flugslysarannsóknir og stýrði m.a. starfi vinnuhópsins um flugrita.

Meðal þess sem vinnuhópurinn hefur fjallað um er hvernig staðsetja má flugrita ef flugvél hefur farist, til dæmis hversu lengi flugritinn getur sent frá sér merki neðansjávar. Eru umræður uppi um að lengja núgildandi kröfur úr 30 dögum uppí 90 daga. Þá ræðir hópurinn einnig hvort rétt væri að innleiða kröfur um skjótanlega flugrita í almennar farþegavélar eins og tíðkast hefur í herflugvélum um skeið. Myndi flugritinn skjótast frá vélinni þegar hún verður fyrir höggi við að lenda á landi eða sjó.

Einnig eru uppi vangaveltur um hvort og hvernig reglur mætti segja varðandi upplýsingar sem sendar eru frá flugvélum meðan á flugi stendur. Í nokkrum löndum og hjá nokkrum flugfélögum, meðal annars Air France, hefur þeirri tækni verið komið upp að á 10 mínútna fresti eru sendar frá flugvél upplýsingar í tiltekna miðstöð flugfélags um flugvélina m.a. um staðsetningu og stefnu hannar. Tilgangur slíkrar gagnamiðlunar hefur hingað til einkum komið til vegna þjónustu og viðhaldsskoðana á flugvélum, þ.e. að komi upp bilun í búnaði eða tæki á miðri leið sé það tilkynnt til miðstöðvar og hún geri ráðstafanir til viðgerðar um leið og flugvél kemur í áfangastað. Hugsanlega verður búnaður þannig í framtíðinni að tíðni þessara sendinga eykst ef flugvél lendir í neyð þannig að upplýsingar um staðsetningu verða sendar einu sinni á mínútu.

Lokaskýrsla um Air France slysið væntanleg á næsta ári

Rætt var um flugrita og notkun þeirra á fundi í innanríkisráðuneytinu á miðvikudag.Philippe Plantin de Hugues, einn sérfræðinganna í frönsku nefndinni og sérfræðingur í flugritum, sagði á fundi vinnuhópsins frá leitinni og rannsókn nefndarinnar á slysi þotu Air France  en von er á áfangaskýrslu um rannsóknina í næsta mánuði. Lokaskýrsla er síðan væntanleg á næsta ári.  Franska rannsóknarnefndin hefur 120 starfsmenn á sínum snærum og er sjálfstæð í störfum sínum eins og slíkar nefndir eru yfirleitt. Hún leitar eftir þörfum samstarfs við samgönguráðuneyti Frakklands, varnarmálaráðuneyti, veðurstofu og ýmsa sérfræðinga og framleiðendur á sviði flugs og tæknimála.

Fulltrúar flugrekenda og Flugmálastjórar á fundi um flugrita.

Franska nefndin aðstoðar einnig við rannsóknir erlendis þar sem koma við sögu flugvélar eða þyrlur sem framleiddar eru í Frakklandi. Þannig unnu sérfræðingar nefndarinnar með íslenskum starfsbræðrum við rannsókn á TF-SIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, sem nauðlenda varð á sjónum við Straumsvík sumarið 2007.

Engin tilkynning um neyðarástand

Airbus þota Air France sem fórst 1. júní lagði upp frá Ríó de Janeiro að kvöldi 31. maí áleiðis til Parísar. Þremur stundum og 45 mínútum eftir flugtak hrapaði vélin í Atlantshafið um 435 sjómílur norð-norð austur af eynni Fernando de Noronha án þess að nokkur tilkynning hefði borist um neyðarástand eða erfiðleika um borð. Síðast var vélin í sambandi við flugumferðarstjórn í Brasilíu 35 mínútum fyrir slysið. Með vélinni fórust 216 farþegar af 32 þjóðernum og 12 manna áhöfn, alls 228 manns.

Rannsóknarnefndin franska hefur reglulega allt frá Air France-slysinu gefið út fréttir og áfangaskýrslur segir de Hugues að lokaskýrsla sé væntanleg á næsta ári. Áður en flugritinn fannst voru engar skýringar á hrapi vélarinnar aðrar en þær að hún hefði lent í kröftugri ókyrrð.

Flugritar sem safna margvíslegum upplýsingum um flugferð og eru í öllum stærri farþegaflugvélum og þotum ráða iðulega úrslitum þegar rannsóknir flugslysa og alvarlegra flugatvika eru annars vegar. Af þeim sökum lögðu frönsk flugmálayfirvöld mikla áherslu á að finna flugrita vélarinnar.

Víðfeðmt leitarsvæði

Philippe Plantin de Hugues sagði að þar sem upplýsingar hefðu reglulega fengist um flug frönsku flugvélarinnar hefði verið unnt að áætla hvar hún var stödd yfir hafinu þegar hún hrapaði. Engu að síður hefði leitarsvæðið verið mjög víðfeðmt. Sjávarbotninn er ósléttur á þeim slóðum, dalir og fjöll, dýpið mest um 3.900 metrar og 864 metrar þar sem tindar risu hæst. Frönsk yfirvöld nutu aðstoðar herskipa frá Brasilíu og Bandaríkjunum og síðar sérhæfðs leitarskips frá Noregi. Einnig var leitað upplýsinga hjá fiskimönnum sem þekkja þessar slóðir um hafstrauma sem eru sterkir á þessum árstíma og annað sem skipt gat máli við að staðsetja flak vélarinnar.

Leitarflugvél fór á loft fáum klukkustundum eftir að síðast heyrðist í vélinni og skömmu eftir að tilkynnt var að vélarinnar væri saknað. Skipulögð leit á ákveðnu hafsvæði hófst í kjölfarið og þann 6. júní fundust fyrstu hlutirnir úr vélinni og líkamsleifar. Leitin fór fram í nokkrum áföngum og tekin voru fyrir nokkur svæði í senn. Var margvíslegum aðferðum og margs konar búnaði beitt, meðal annars ómönnuðum kafbátum sem mynduðu hafsbotninn um leið og þeir fóru yfir. Eftir að flakið fannst hefur tekist að ná upp kringum þúsund brotum af vélinni og 50 líkum.

Áfram hélt leitin að flugritanum og það var svo loks 4. apríl á þessu ári sem hún bar árangur, 22 mánuðum eftir slysið. Í síðasta áfanganum hafði verið leitað á 14 sjómílna radíus út frá ákveðnum punkti. Tókst leitarmönnum síðan að ná flugritanum upp 29. apríl.

Alls hefur leitin að flakinu og flugritanum, söfnun á braki úr vélinni og líkamsleifum allmargra þeirra sem í vélinni voru kostað kringum 113 milljónir evra sem svarar til um 19 milljarða íslenskra króna. Bæði Air France og Airbus hafa lagt fjármuni í leitina, sjö milljónir evra hvort um sig. Á vefsíðu BEA er að finna fréttir og áfangaskýrslur um rannsóknina og eru þær birtar á frönsku og ensku.

  • Sjá vefsíðu BEA, frönsku rannsóknarnefndarinnar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta