Ráðstefna um beint lýðræði og aukna þátttöku íbúa
Innanríkisráðuneytið efnir hinn 14. september næstkomandi til ráðstefnu í Reykjavík um eflingu beins lýðræðis. Nefnd á vegum innanríkisráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga um eflingu sveitarstjórnarstigsins annast undirbúning og skipulagningu ráðstefnunnar sem ætluð er sveitarstjórnarfólki og öllu áhugafólki um aukið lýðræði hjá ríkisvaldi og á sveitarstjórnarstigi.
Með ráðstefnunni vill innanríkisráðuneytið hvetja til aukinnar umræðu um hvernig efla má lýðræði í íslenskri stjórnsýslu og fjalla um hvort og hvernig koma megi á beinu lýðræði með aukinni og reglulegri þátttöku íbúa í ákvörðunum ríkis og sveitarfélaga. Íslenskir og erlendis sérfræðingar flytja fyrirlestra um ýmsar hliðar málsins. Meðal fyrirlesara verður Svisslendingurinn Bruno Kaufmann sem fjallar meðal annars um hvernig beint lýðræði hefur reynst í Sviss. Þá munu vinnuhópar starfa og taka til umfjöllunar ákveðin svið málsins og í lok starfs þeirra verður gerð grein fyrir niðurstöðunum.
Ráðstefnan verður haldin í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur milli klukkan 9 og 16 miðvikudaginn 14. september. Ráðstefnan fer fram á íslensku en mál erlendra fyrirlesara verður túlkað og táknmálstúlkun verður einnig til staðar. Ráðstefnan er öllum opin og aðgangur gjaldfrjáls.
Í tengslum við ráðstefnuna verður jafnframt opnuð í Tjarnarsalnum sýning um þjóðarfrumkvæði og þjóðaratkvæðagreiðslur í Sviss auk upplýsinga um fyrirkomulagið á Íslandi, tillögur Stjórnlagaráðs og fleira þar að lútandi á vegum Lagastofnunar Háskóla Íslands og mun stofnunin síðan halda ráðstefnu 15. september á sama stað og verður hún nánar kynnt síðar.
Dagskrá lýðræðisráðstefnunnar verður send út innan skamms ásamt upplýsingum um hvernig skráning fer fram.