Hoppa yfir valmynd
26. október 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ársfundur Alþýðusambands Íslands

Ársfundur Alþýðusambands Íslands
Ársfundur Alþýðusambands Íslands

Forseti Alþýðusambands Íslands, ágætu ársfundarfulltrúar.

Það er mér mikill heiður að fá tækifæri til að koma á ársfund Alþýðusambands Íslands og deila með ykkur upplýsingum um það helsta sem er að gerast í velferðar- og vinnumálum á vettvangi félagsmálaráðuneytisins. Eitt af því jákvæðasta í starfi ráðuneytisins er hin sterka hefð sem þar er fyrir samráði, ekki síst við aðila vinnumarkaðarins. Það er afar mikilvægt fyrir samfélagið að greið skoðanaskipti eigi sér stað á milli stjórnvalda, samtaka atvinnurekenda og samtaka launafólks um þau viðfangsefni sem blasa við á vinnumarkaðnum á hverjum tíma. Stjórnvöld mega ekki einangrast og gleyma því að þau starfa fyrir aðra og eiga fyrst og fremst að þjóna. Það vil ég leggja ríka áherslu á.

Í mínum huga er og verður atvinnuástandið mikilvægasti þátturinn í þjóðfélagi nútímans. Mér finnst það meginviðfangsefni í vinnumálum að allar vinnufúsar hendur eigi þess kost að taka virkan þátt í atvinnulífinu. Í síðustu viku barst ráðuneytinu yfirlitsskýrsla frá Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, OECD, sem tekur til áranna frá 1985 til 2005. Í skýrslunni eru birtar tölur um íbúafjölda, fjölda þeirra sem eru virkir á vinnumarkaði og um hlutfallslegt atvinnuleysi. Það er margt fróðlegt sem kemur í ljós þegar þessu riti er flett.

Í aðildarríkjum OECD þar sem staðan var tiltölulega góð var atvinnuleysi á síðasta ári um 6%. Flest ríkin búa við um og yfir 10% atvinnuleysi. Frá þessari reglu eru fáar undantekningar. Það er í raun aðeins eitt ríki sem sker sig úr hvað þetta snertir. Það er Ísland. Á síðasta ári var hlutfallslegt atvinnuleysi 2,1%. Í síðasta mánuði var atvinnuleysi hér á landi 1%. Er þetta tilviljun? Svar mitt er nei.

Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá fólki sú gagnrýni sem beint hefur verið að stjórnvöldum undanfarin misseri fyrir stefnu í stóriðju- og umhverfismálum. Fyrir tíu árum var atvinnuleysið hér á landi að festast í sama fari og í nágrannalöndunum, það var á bilinu fimm til sex prósent. Þá var sett fram sú stefna að störfum þyrfti að fjölga um tólf þúsund fram til ársins 2000. Það væri forsenda þess að atvinnustigið væri viðunandi. Þetta þótti ýmsum nokkuð glannalegt.

Í framhaldi af því var hafinn undirbúningur að margháttuðum aðgerðum sem höfðu það að markmiði að ná þessu takmarki. Ráðist var í virkjanir og samið um stækkun álvers í Straumsvík og nýtt álver á Grundartanga. Rannsóknir voru hafnar á virkjanakostum á Austurlandi og leitað samstarfs um uppbyggingu orkufreks iðnaðar í fjórðungnum. Þetta, ásamt ýmsu öðru sem gerst hefur í þróun íslensks atvinnulífs gerir það að verkum að árangurinn blasir við hvert sem litið er. Íslendingar búa við besta atvinnuástand sem þekkist í Vestur-Evrópu, lífskjör eru með því besta sem þekkist í heiminum, við erum í hópi þeirra þjóða sem best standa sig þegar litið er til samkeppnishæfni atvinnulífsins. Er þetta tilviljun? Svar mitt er nei.

Félagslegt velferðarkerfi og menningarsamfélag verður ekki rekið án þess að tekjuöflunin sé trygg. Grunnurinn sem byggt er á verður að vera traustur. Vissulega verður að taka fullt tillit til viðkvæmrar og dýrmætrar náttúru og láta hana njóta vafans. En einsýni og ofstækisfull íhaldssemi í þessum efnum leiðir til stöðnunar og ófarnaðar.

Endurskoðun laga um vinnumarkaðsaðgerðir og atvinnuleysistryggingasjóð var lokið síðasta vetur og í framhaldinu lögð fram frumvörp sem Alþingi afgreiddi í júní síðastliðnum. Þau voru afrakstur mikillar og góðrar samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Að mínu mati felst stærsta breytingin í tekjutengingu atvinnuleysisbóta. Nú geta bæturnar orðið hæstar 185.400 krónur. Þetta er auðvitað gífurleg breyting. Grunnbæturnar hækkuðu 1. júlí úr 93.701 krónu í 111.015 krónur. Þetta felur í sér mikla breytingu á högum þeirra sem eru atvinnulausir en þeir eru sem betur fer ekki margir um þessar mundir þrátt fyrir að hundruð hafi misst vinnuna á Suðurnesjunum síðustu mánuðina. Ég hef velt því fyrir mér hvernig ástandið í atvinnumálum þjóðarinnar væri ef menn hefðu setið með hendur í skauti og látið reka á reiðanum við að treysta undirstöður atvinnulífsins.

Þessa dagana kynnir framkvæmdastjórn Evrópusambandsins drög að nýrri grænbók, en með slíkum bókum eru settar fram hugmyndir um breytingar á tilteknum sviðum. Grænbókin ber yfirskriftina: Aðlögun vinnulöggjafar til að tryggja sveigjanleika og öryggi fyrir alla. Markmiðið er að hefja umræðu um það með hvaða hætti er hægt að auka viðbragðshæfni evrópsks vinnumarkaðar þannig að stuðlað sé að fjármunamyndun og aukinni framleiðni. Þetta er talið nauðsynlegt til að mæta aukinni samkeppni sem leiðir af alþjóðavæðingunni. Segja má að sveigjanleiki og öryggi séu lykilorðin í bókinni eða „Flexicurity“ eins og það hefur verið nefnt á enskri tungu.

Sveigjanleikinn er talinn höfuðeinkennið á íslenskum vinnumarkaði sem skýrir að minnsta kosti að hluta hversu vel okkur hefur gengið að takast á við erfiðleika sem hafa komið upp í atvinnu- og efnahagslífinu. Það hefur ríkt nokkuð góð sátt um að varðveita þetta einkenni. Meðal annars er atvinnuleysiskerfið okkar byggt upp á þessum forsendum þannig að um leið og við varðveitum sveigjanleikann veitir kerfið ákveðið öryggi fólks í tímabundnu atvinnuleysi.

Það er hins vegar alveg ljóst að bera þarf virðingu fyrir þeim kostum sem sveigjanleikinn hefur í för með sér svo koma megi í veg fyrir misnotkun hans. Það hefur ríkt tiltekið siðferði á íslenskum vinnumarkaði sem sveigjanleikinn byggist á, siðferði sem við þurfum í sameiningu að varðveita. Þar höfða ég fyrst og fremst til atvinnulífsins sjálfs. Hætti menn að virða þær leikreglur sem hafa lengi viðgengist í samskiptum atvinnurekenda og launafólks á innlendum vinnumarkaði lít ég svo á að taka verði málin upp og ræða opinskátt. Við ætlum að standa vörð um þær samskiptavenjur sem hafa ríkt og það er alveg ljóst að stjórnvöld munu fylgjast vel með framgangi mála af hliðarlínunni.

Ágætu ársfundarfulltrúar.

Ársfundur Alþýðusambands ÍslandsAtvinna fólks er undirstaða velferðar þess. Því er mikilvægt að sem flestum verði veitt tækifæri til að verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði enda er mannauðurinn það dýrmætasta sem við eigum. Að þessu sameiginlega markmiði okkar er stefnt í nýjum lögum um vinnumarkaðsaðgerðir.

Hið nýja kerfi felur í sér einstaklingsmiðaða þjónustu þar sem áhersla verður á getu hvers og eins. Stuðla þarf að uppbyggingu atvinnutengdrar starfsendurhæfingar en markmiðið er tvímælalaust að sem flestir fái notið sín.

Með því að virkja einstaklingana erum við ekki einungis að draga úr kostnaði fyrir samfélagið til lengri tíma heldur fyrst og fremst að bæta lífsgæði einstaklinganna sjálfra sem hlýtur að skipta mestu máli þegar allt kemur til alls. Markviss starfsendurhæfing þar sem stefnt er á atvinnuþátttöku er til þess fallin að koma í veg fyrir fátækt og félagslega einangrun.

Í þessu sambandi skiptir áræðni einstaklinganna ekki síður máli. Gert er ráð fyrir að þeir séu reiðubúnir að leggja sitt að mörkum til að hámarka getu sína með virkri þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og leggi sig alla fram við atvinnuleitina í jákvæðri samvinnu við ráðgjafa Vinnumálastofnunar.

Ég hef margoft ítrekað það að hér þarf að koma til samvinna okkar allra: atvinnulífsins, stéttarfélaga, einstaklinganna og stjórnvalda. Ekkert okkar getur skorast undan ábyrgðinni á áframhaldandi uppbyggingu velferðarsamfélags. Okkur bíður því stórt samvinnuverkefni framundan við uppbyggingu kerfis vinnumarkaðaðgerða sem ég vona svo sannarlega að við náum að vinna vel saman að, svo unnt sé að byggja það á traustum grunni til framtíðar.

Eitt af meginviðfangsefnum þessa ársfundar Alþýðusambandsins er hnattvæðingin og íslenskur vinnumarkaður. Það er ljóst að áhrifin af alþjóðavæðingu efnahags- og atvinnulífs eru smám saman að koma í ljós með margvíslegum hætti. Fyrirtæki flytja starfsemi og framleiðslu til landa þar sem kaup og kjör eru mun lægri en í heimalandinu. Ákveðin hætta er á að dæmi verði um félagsleg undirboð og óöryggi starfsmanna.

Íslenskur vinnumarkaður er engin undantekning þegar þessi mál eru til umfjöllunar. Íslensk fyrirtæki hafa nýtt sér þá kosti sem alþjóðavæðingin þykir meðal annars fela í sér og eru að hasla sér völl á vinnumörkuðum annarra ríkja, jafnvel annarra heimshluta sem í mörgum, ef ekki flestum tilvikum, eru ekki jafn þróaðir og sá sem við eigum að venjast. Mikilvægt er því að þessi fyrirtæki einblíni ekki eingöngu á fjárhagslegan ávinning sinn heldur verði einnig góðar fyrirmyndir, fyrirtæki sem beri virðingu fyrir starfsmönnum sínum og umhverfi. Þannig tel ég að fyrirtækin geti hámarkað hagnað sinn þegar til lengri tíma er litið.

Enn fremur hefur fjöldi starfsmanna af erlendu ríkisfangi þrefaldast hér á landi á mjög skömmum tíma. Gott atvinnuástand og mikil eftirspurn eftir vinnuafli hefur skipt sköpum og verið drifkrafturinn í þessari þróun. Stjórnvöld hafa haft tæki til að stjórna framvindunni og hafa nýtt þau til dæmis með setningu laga um starfsmannaleigur. Forsenda atvinnu- og dvalarleyfa hefur verið skortur á vinnuafli og þar af leiðandi hafa útlendingar sem hingað koma verið frá fyrsta degi virkir þátttakendur á vinnumarkaðnum. Þetta hefur verið mjög þýðingarmikið og unnið gegn því að útlendingar væru hornrekur og utangarðs í íslensku samfélagi. Við höfum skorið okkur úr að þessu leyti.

Stækkun Evrópska efnahagssvæðisins frá maí 2004 hefur haft ákveðin áhrif á þessa þróun. Reynslan hefur sýnt ákveðinn hreyfanleika ríkisborgara nýju aðildarríkjanna en ríkisborgarar þessara ríkja hafa notið forgangs í laus störf hér á landi umfram ríkisborgara ríkja utan svæðisins. Þessi hreyfanleiki hefur orðið enn sýnilegri eftir 1. maí síðastliðinn er þessum ríkisborgurum var veittur réttur til að ráða sig til starfa hér á landi á sömu forsendum og Íslendingar.

Þessar breytingar sem hafa átt sér stað á tiltölulega skömmum tíma hafa skilað sér í miklum umræðum um aðstæður á vinnumarkaði. Ég vil undirstrika það hér að ég tel mjög mikilvægt að fjölgun erlendra fyrirtækja og útlendinga á innlendum vinnumarkaði raski ekki þeim reglum og samskiptahefðum sem hafa mótast hér í gegnum tíðina fyrir tilstuðlan aðila vinnumarkaðarins. Tryggja þarf að erlent starfsfólk njóti þeirra réttinda og kjara sem gilda hér á landi sem og að stuðla að því að milliliðalaust ráðningarsamband milli vinnuveitanda og starfsmanna verði áfram meginreglan svo ég nefni dæmi.

Í því efni vil ég taka undir margt af því sem forseti Alþýðusambandsins sagði á Morgunvakt Ríkisútvarpsins í morgun um að við þurfum að vera vakandi og þar þykir mér mikilvægt að kalla atvinnulífið til ábyrgðar ekki síður en stjórnvöld. Af heimild til að ráða erlendan starfsmann leiðir ábyrgð um að uppfræða hann um réttindi og skyldur. Það er flókið og erfitt að átta sig á aðstæðum í nýju landi, þar sem aðrar reglur gilda en fólk hefur vanist í sínu heimalandi. Það er því mikilvægt að útlendingar sem koma hingað til starfa hafi kynnt sér íslenskar reglur, meðal annars hvar þeir eigi að skrá sig og sækja um tilskilin leyfi til að dvelja hér á landi. Hér gegna aðilar vinnumarkaðarins lykilhlutverki, ásamt stjórnvöldum.

Eins og ykkur er kunnugt um fer starfshópur á vegum ráðuneytisins nú yfir stöðu útlendinga á íslenskum vinnumarkaði í mikilli og góðri samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Meðal annars er fjallað um það hvort ástæða sé til að styrkja þær leikreglur sem hafa gilt á íslenskum vinnumarkaði. Ég legg á það áherslu að hópurinn skili tillögum í næsta mánuði og bind miklar vonir við starf hans.

Ég tel mikilvægt að við lítum til þess hvað nágrannaþjóðir okkar eru að gera á þessu sviði. Ég sat fund norrænna vinnumálaráðherra fyrir tveimur vikum þar sem þessi mál bar á góma. Þar fór ekki á milli mála að Norðurlandaþjóðirnar eru allar að horfast í augu við sams konar verkefni í tengslum við breytingar á vinnumarkaði í kjölfar stækkunar Evrópska efnahagssvæðisins. Ljóst er að þjóðirnar eru sammála um að varðveita það sem hefur einkennt vinnumarkaðinn í löndunum og nýta til þess margvísleg tæki. Í Finnlandi er mjög margt áhugavert að gerast og hið sama má segja um Noreg þar sem aðstreymi erlends vinnuafls hefur verið umtalsvert undanfarin misseri.

Á síðustu misserum hefur áhersla verið lögð á að stuðla að auknu aðgengi upplýsinga um íslenskt samfélag og stendur sú vinna yfir víða innan stjórnkerfisins. Um þessar mundir er innflytjendaráð að vinna að forgangsröðun verkefna og stefnumörkum í málefnum útlendinga til framtíðar. Eitt af forgangsverkefnum er smíði rits sem upplýsir erlenda ríkisborgara sem hingað koma um réttindi og skyldur á öllum sviðum samfélagsins. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka aðilum vinnumarkaðarins stuðning þeirra við þetta verkefni.

Margt er þegar vel gert í þessum efnum og nýlegt dæmi um slíka upplýsingamiðlun eru upplýsingar skattyfirvalda á nokkrum tungumálum sem er að finna á heimasíðu ríkisskattstjóra. Enn fremur hefur Vinnueftirlit ríkisins gefið út bæklinga á fleiri tungumálum en íslensku og ensku um vinnuvernd og Tryggingastofnun ríkisins hefur haft aðgengilegar upplýsingar á nokkrum tungumálum um almannatryggingakerfið á heimasíðu sinni.

Upplýsingar á mörgum tungumálum duga þó skammt. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við verðum að tryggja aðgengi að íslenskunámi fyrir útlendinga og hvetja þá til að læra tungumálið okkar. Ég mun hafa tækifæri til þess sem félagsmálaráðherra að beita mér fyrir því að koma þeim málum í betra horf en svo virðist sem þar skorti ákveðna samvinnu og samræmi. Þetta er eitt af þeim málum sem ég vil sérstaklega beita mér fyrir að bæta, í samvinnu við samráðherra mína og aðra aðila.

Ágætu ársfundarfulltrúar.

Að vonum hefur mér orðið tíðrætt um vinnumálin. En það er fengist við fleiri mikilvæg verkefni í félagsmálaráðuneytinu.

Húsnæðismálin hafa verið og eru reglulega til umfjöllunar í félagsmálaráðuneytinu. Þetta er eðlilegt ekki síst í ljósi þess að í vestrænum löndum hefur verið á því byggt að húsnæðisstefnan sé einn af hornsteinum velferðarsamfélagsins. Þetta á ekki síst um við um Norðurlöndin. Stefna íslenskra stjórnvalda er og hefur verið sú að tryggja öllum landsmönnum, óháð búsetu og efnahag, öryggi og jafnræði í húsnæðismálum með því að gera fólki kleift að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Um þessi markmið hefur verið rík pólitísk samstaða eins og síðast kom í ljós með einróma samþykkt Alþingis á breyttum lögum um húsnæðismál haustið 2004.

Íbúðalánasjóður hefur gegnt og mun, að mínu áliti, áfram gegna þýðingarmiklu hlutverki við framkvæmd þessarar stefnu. Mikil umræða hefur verið í þjóðfélaginu undanfarið um stöðu og hlutverk Íbúðalánasjóðs. Ég hef á undanförnum vikum kallað til mín til samráðs fulltrúa ýmissa aðila í þjóðfélaginu, ekki síst fulltrúa neytenda, til þess að kalla eftir sjónarmiðum þeirra þegar húsnæðismál og aðgengi að húsnæðislánum fyrir almenning eru annars vegar. Þar hefur margt áhugavert komið fram. Að mínu mati er nauðsynlegt að við höldum áfram að ræða opinskátt um ýmsa þætti sem haft geta áhrif á húsnæðisverð og vaxtamyndun hér á landi með það að markmiði að tryggja svo hagstæð kjör sem kostur er á fyrir almenning í landinu. Það hlýtur að vera markmið okkar allra.

Ég hef hins vegar ákveðið að binda enda á þær vangaveltur sem verið hafa undanfarið um framtíð Íbúðalánasjóðs. Það er ljóst af minni hálfu að ekki verða gerðar aðrar breytingar á hlutverki Íbúðalánasjóðs á þessu kjörtímabili en hugsanlegar breytingar til að laga stöðu sjóðsins að ríkisstyrkjareglum EES-samningsins og breytingar til að fara eftir tillögum stýrihóps um málefni Íbúðarlánasjóðs, þar sem meðal annars er lagt til að Íbúðalánasjóði verði heimilað að fjármagna útlán sín með öðrum hætti en verið hefur og geti þannig lánað án ríkisábyrgðar.

Ég vil nefna hér við ykkur, ágætu ársfundarfulltrúar, að eitt af mikilvægustu viðfangsefnum okkar er launamunur kynjanna. Í síðustu viku kynnti ég niðurstöður úr viðamikilli könnun sem félagsmálaráðuneytið lét vinna sem benda til þess að ekkert hafi miðað við að jafna laun karla og kvenna síðastliðinn áratug. Könnunin leiðir í ljós að kynbundinn launamunur á Íslandi er tæplega 16 prósent. Þrátt fyrir að lög um launajöfnuð kvenna og karla hafi verið samþykkt á Alþingi árið 1961, sérstök lög um jafnrétti verið í gildi í þrjá áratugi og sérstakar áætlanir um aðgerðir ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum verið endurnýjaðar reglulega síðan árið 1985 er árangurinn ekki meiri en raun ber vitni.

Jákvæð teikn um breytt viðhorf kynjanna á vinnumarkaði og styttri vinnutíma koma fram í niðurstöðunum en hafa enn einungis haft óveruleg áhrif á launamun kynjanna. Fyrir stjórnvöld er hins vegar afar jákvætt að lög um þriggja mánaða feðraorlof virðast tvímælalaust hafa áhrif á viðhorf og stöðu kynjanna á vinnumarkaði og vísbendingar eru um að það muni hafa enn meiri áhrif í framtíðinni. Þessar vísbendingar eru líka ánægjulegar fyrir aðila vinnumarkaðarins en lög um fæðingarorlof eru mjög gott dæmi um afrakstur samvinnu þeirra og stjórnvalda.

Ég er þeirrar skoðunar að okkur beri að líta á rannsóknarniðurstöðurnar sem mikilvæga hvatningu til að gera betur. Ég lýsi yfir vilja mínum til að taka þátt í því að mynda breiða samstöðu um að eyða þessum launamun. Reynslan sýnir að hann mun ekki hverfa nema með víðtækri samvinnu stjórnvalda, stjórnmálamanna og síðast en ekki síst samtaka atvinnurekenda og samtaka launafólks. Ég hef þegar ákveðið að fá til liðs við mig fulltrúa Alþýðusambands Íslands ásamt sérfræðingum frá öðrum sviðum til þess að fara yfir stöðu mála og meta ásamt mér og mínu fólki næstu skref. Ég vil leiða besta fólkið að borðinu strax á næstu dögum. Það er í raun og veru ekki eftir neinu að bíða.

Ágætu ársfundarfulltrúar.

Ég hef í þessu ávarpi mínu farið yfir mikilvæg framfaramál sem hrundið hefur verið í framkvæmd á vegum félagsmálaráðuneytisins á sviði vinnu- og velferðarmála. Þótt mikið hafi verið gert á undanförnum árum eru fjölmörg viðfangsefni sem bíða úrlausnar. Forsenda umbóta og framfara er að atvinnulífið í landinu haldi áfram að blómstra og sé traust undirstaða fyrir tekjuöflun ríkissjóðs. Án tekna verður lítið gert. Stefnan er sú að viðhalda tryggu atvinnuástandi sem geri okkur kleift að viðhalda og bæta þá félagslegu þjóðfélagsgerð sem hefur verið við lýði í þessu landi.

Það þarf að ríkja sátt um leikreglurnar sem gilda á vinnumarkaðnum og aðilar eiga að sýna hvor öðrum háttvísi og tilhlýðilega virðingu. Ósanngirni og misnotkun valds eru til þess fallin að draga úr félagslegri samstöðu. Árekstrar og misklíð eru ekki til þess fallin að auka framleiðni og afrakstur fyrirtækjanna. Þvert á móti er ánægt starfsfólk sem starfar í heilsusamlegu og öruggu vinnuumhverfi forsenda árangurs og mikilvægasta auðlind hvers fyrirtækis.

Verkalýðsfélögin eru afar mikilvægur vettvangur fyrir umræðu af þessu tagi og fyrir framþróun sem hefur áhrif á allt samfélagið. Þið eigið ekki að sitja hjá og bíða eftir því sem að ykkur er rétt. Nei, þið eigið að stýra þróuninni með okkur. Þessi ársfundur og vandaður undirbúningur fyrir hann ber verkalýðshreyfingunni hér á landi gott vitni. Ég er sannfærður um að við munum eiga gott samstarf hér eftir sem hingað til og ég hlakka til að takast á við þau verkefni sem framundan eru í samvinnu við ykkur.

Að svo mæltu óska ég ykkur góðs gengis í ykkar ársfundarstörfum og ykkar mikilvægu störfum í þágu íslenskrar verkalýðshreyfingar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta