OECD ríkin sammælast um framgang þúsaldarmarkmiða
Þróunarsamvinnuráðherrar aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar,OECD, og hinna svonefndu nývaxtarríkja, þ.á m. Kína og Indlands, hittust í Lundúnum 4.-5. desember síðastliðnum á leiðtogafundi þróunarsamvinnunefndar OECD, DAC. Slíkir fundir eru haldnir reglulega og er ætlað að efla alþjóðlegt samráð á sviði þróunaraðstoðar.
Á fundinum skuldbundu þátttakendur sig til þess að vinna áfram að framgangi þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um þróunarsamvinnu til ársins 2015. Ráðherrarnir lýstu því jafnframt yfir að þeir vildu halda samstarfi áfram á nýjum vettvangi, sem kallast Alþjóðlegt samstarf um árangursríka þróunarsamvinnu, þar sem þróuð ríki og þróunarríki, aðilar úr einkageiranum og frjáls félagasamtök koma saman. Alþjóðlega samstarfið mun m.a. vinna undir forystu SÞ að gerð nýrra alþjóðlegra markmiða í þróunarsamvinnu eftir árið 2015 á grundvelli gilda eins og sjálfbærni, mannréttinda og lífsgæða.
Síðastliðna tvo áratugi hafa orðið töluverðar framfarir á heimsvísu í baráttunni gegn fátækt, og þá sérstaklega í mörgum nývaxtarríkjanna. Þó er enn langt í land, ójöfnuður innan landa hefur víða aukist og enn búa um 1,4 milljarðar manna við sára fátækt.
Ráðherrafundurinn endurspeglaði breytt umhverfi þróunarsamvinnu meðal annars að því leyti að boðið var til fundarins aðilum utan OECD-DAC en margir nýir aðilar hafa komið inn á þennan vettvang á undanförnum árum. Þetta kallar á aukna samvinnu aðila, innan og utan þróunarsamvinnunefndar OECD, við einkageirann og félagasamtök. Einnig kom fram stuðningur við að skoða nýjar fjármögnunarleiðir í þróunarsamvinnu.
Ráðherrarnir ræddu einnig almennt um framtíð opinberrar þróunaraðstoðar og sammæltust um að slíkri aðstoð þyrfti að beina þangað sem hennar er mest þörf og með þeim hætti að hún geti jafnframt verið hvati að innflæði annars fjármagns til þróunarríkja. Þá fólu ráðherrarnir DAC að vinna ásamt Sameinuðu þjóðunum, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum að tillögum að því að endurskoða skilgreininguna á hvað felist í opinberri þróunaraðstoð.
Ísland greindi frá því að á fundinum að í samræmi við þingsályktun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011-2014, sé gert ráð fyrir að Ísland sæki um aðild að DAC á framkvæmdatímabili áætlunarinnar. Vonast er til að það verði á næsta ári.