Sigurður Ingi fundaði með samgönguráðherrum Noregs og Danmerkur
Samhliða heimsþingi um umferðaröryggi í Stokkhólmi, sem lauk í gær, átti Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tvíhliða fundi með Knut Arild Hareide samgönguráðherra Noregs annars vegar og með Benny Engelbrecht samgönguráðherra Danmerkur hins vegar.
Fjölmörg mál voru á meðal umræðuefna á fundum Sigurðar Inga með kollegum sínum, en þeirra á meðal var reynsla Norðmanna og Dana af samvinnuverkefnum í samgönguframkvæmdum og nýleg löggjöf í Noregi á sviði leigubifreiða.
Ráðherrarnir ræddu einnig undirbúning á ráðherrafundi og málþingi norrænna samgöngu- og orkumálaráðherra um sjálfbærar samgöngur sem haldinn verður í Kaupmannahöfn í byrjun maí. Þar ætla ráðherrar frá öllum Norðurlöndunum að ræða aukið samstarf og leiðir til efla sjálfbærar samgöngur, orkuskipti í samgöngum, fjölbreytta samgöngumáta og möguleika upplýsingagátt um almenningssamgöngukerfi. Þjóðirnar hafa ýmist ýtt úr vör slíkri gátt eða eru að undirbúa slíkt, eins og raunin er hér á landi í takt við nýja heildarstefnu um almenningssamgöngur milli byggða.